Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. febrúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 7. - 13. febrúar

Starfshópur á LSH fylgist með framvindu ákvarðana um sparnað og aðhaldsaðgerðir

Forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss hefur skipað starfshóp til að fylgjast með framvindu þeirra ákvarðana sem samþykktar hafa verið varðandi sparnað og aðhaldsaðgerðir á sjúkrahúsinu. Lögð er áhersla á að stjórnendur sviða og framkvæmdastjórnar sjái til þess að aðgerðum verði hrundið í framkvæmd. Meðal þess sem sérstaklega verður fylgst með er að fækkun starfsfólks verði í samræmi við ákvarðanir og starfshlutfall fólks eins og ætlað er, að samdráttur á einu sviði valdi ekki útgjöldum hjá öðrum sviðum, metin verði áhrif samdráttar á kennslu og vísindastarf, starfsemi dragist saman þar sem það var fyrirhugað og að unnið verði að sparnaði í innkaupum lyfja og rekstrarvöru í samræmi við sett markmið. Hópurinn skal skila skriflegri skýrslu til framkvæmdastjórnar fyrir lok hvers mánaðar um framgang verkefnisins og gerir tillögur um aðgerðir sé þess talin þörf. Frá þessu er sagt á heimasíðu sjúkrahússins. Nánar...

Rætt um viðbyggingu á Selfossi

Viðræður standa yfir milli fjármálaráðuneytisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um framkvæmdir vegna viðbyggingar við heilbrigðisstofnunina á Selfossi. Þetta upplýsti Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, á Alþingi þegar hann svaraði fyrirspurn um málið frá Margréti Frímannsdóttur. Í máli ráðherra kom fram að hann legði áherslu á að framkvæmdir hæfust sem fyrst og að unnt yrði að taka húsnæði hjúkrunardeildar í notkun ekki seinna en á árinu 2006. - ,,Málið er forgangsmál hjá okkur í heilbrigðisráðuneytinu, ekki síst vegna Ljósheima,” sagði heilbrigðismálaráðherra.
Nánar... (pdf.skjal)

Biðlistar styttast eftir heyrnartækjum

Biðlistar eftir heyrnartækjum hafa styst umtalsvert frá því fyrir ári. Þetta kom m.a. fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, á Alþingi í dag þegar hann svaraði fyrirspurn frá Jóhönnu Sigurðardóttur. Fyrir ári var almennur biðtími eftir heyrnartækjum 15 – 18 mánuðir en er nú 8 – 9 mánuðir.
Svar ráðherra... (pdf-skjal)


Heilbrigðisþjónusta á Þingeyri

Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra, svaraði á Alþingi í vikunni fyrirspurn um heilbrigðisþjónustu á Þingeyri sem fram var borin af Sigurjóni Þórðarsyni.
Svar ráðherra... (pdf.-skjal)

Rafrænar sjúkraskrár

Rafræn samskipti milli heilbrigðisstofnana auka möguleika á virkari boðskiptum innan heilbrigðiskerfisins. Í dag eru meira en eitt hundrað eyðublöð í notkun í heilbrigðisþjónustunni. Rafrænt sjúkraskrárkerfi skapar möguleika á að hafa betri stjórn á þessu aukna upplýsingaflæði, jafnframt því sem að sjálfsögðu verður dregið úr tví- eða margskráningu sömu atriða um sjúklinga. Þetta sagði heilbrigðismálaráðherra meðal annars þegar hann svaraði fyrirspurn um rafræna sjúkraskrá sem Rannveig Guðmundsdóttir bar fram á Alþingi.
Svar ráðherra... (pdf.-skjal)


Fjarlækningar

Fjarlækningar gætu gagnast vel víða í dreifbýlinu og á landsbyggðinni, auk þess sem þeim fylgir væntanlega aukið öryggi fyrir sjúklinga og minni útgjöld vegna ferðalaga. Uppbygging fjarlækninga krefst hins vegar ákveðinna fjárfestinga í tækjum og búnaði. Þetta sagði heilbrigðisráðherra þegar spurt var um fjarlækningar í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Svar ráðherra... (pdf.-skjal)


Ráðstefna um þunglyndi, lýðheilsu og forvarnir

Landlæknisembættið og verkefnið „Þjóð gegn þunglyndi“ boða til stuttrar ráðstefnu laugardaginn 14. febrúar n.k. undir yfirskriftinni Þunglyndi, lýðheilsa og forvarnir. Ráðstefnan verður haldin í Hringsalnum, Barnaspítala Hringsins við Hringbraut kl. 10:00 til 12:30. Til ráðstefnunnar er boðað í tilefni heimsóknar tveggja erlendra fræðimanna á sviði geðlæknisfræði sem jafnframt eru aðalfyrirlesarar. Frá þessu er sagt á heimasíðu landlæknisembættisins.
Nánar...


Opið hús á FSA á sunnudaginn í tilefni afmælisárs

Opið hús verður á FSA n.k. sunnudag, 15. febrúar, í tilefni af 130 ára afmæli sjúkrahússreksturs á Akureyri og þess að 50 ár eru síðan elsti hluti núverandi sjúkrahúss á Eyrarlandsholti var tekinn í notkun.
Nánar...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
13. febrúar 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum