Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. febrúar 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 14.- 20. febrúar

Ný hjúkrunardeild fyrir aldraða á Selfossi verður opnuð árið 2006

Samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir hefur veitt leyfi fyrir stækkun húsnæðis Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi. Eins og fram kom í svari heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn um málið á Alþingi nýlega hefur heilbrigðisráðuneytið leitað leiða til að flýta framkvæmdinni, a.m.k. þeim hluta húsnæðisins þar sem verður hjúkrunardeild fyrir aldraða. Í svari ráðherra kom m.a. fram að málið væri forgangsmál í heilbrigðisráðuneytinu og stefnt að því að taka hjúkrunardeildina í notkun í síðasta lagi á árinu 2006. Samkvæmt ákvörðun samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir verða lagðar tæpar 800 milljónir króna í verkið og á því að ljúka í árslok 2006.

Heildargreiðslur TR fyrir 10 söluhæstu lyfin rúmur einn og hálfur milljarður

Greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir 10 söluhæstu lyfin 2003 námu rúmlega einum og hálfum milljarði króna. Þetta kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar. Fyrir söluhæsta lyfið greiddi TR nærri 265 milljónir króna árið 2003. Um er að ræða Nexium sem er lyf gegn sársjúkdómi og maga- og vélindabakflæði. Tæplega 253 milljónir voru greiddar fyrir Seretid en það er lyf gegn teppusjúkdómi í öndunarvegi.
Þriðja og fjórða lyfið á listanum yfir tíu söluhæstu lyfin eru Zarator og Zocor sem eru blóðfitulækkandi lyf.
Nánar á heimasíðu TR...

Notkun þunglyndislyfja á Íslandi hefur tæplega fimmfaldast á einum áratug

Notkun þunglyndislyfja (N06A antidepressiva) heldur áfram að aukast og nálgast notkun landsmanna nú 100 dagskammta á hverja 1000 íbúa sem svarar til þess að um það bil tíundi hluti þjóðarinnar noti þessi lyf. Borið saman við nálæg lönd er notkunin hvergi meiri. Notkun þessara lyfja hefur tæplega fimmfaldast á áratug og heildarkostnaður vegna þeirra hefur tæplega sexfaldast á sama tíma, farið úr rúmum 200 milljónum króna árið 1993 í rúmlega 1300 milljónir í fyrra.
Nánar...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
20. febrúar 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum