Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. mars 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 6. - 12. mars

Breyting á lögum um sjóntækjafræðinga samþykkt á Alþingi

Samþykkt hefur verið á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um sjóntækjafræðinga. Breytingin snýr að 5. gr. laganna og samkvæmt nýsamþykktum lögum mega sjóntækjafræðingar mæla sjón og fullvinna og selja sjónhjálpartæki (gleraugu og snertilinsur). Menntunarkröfur skal skilgreina í reglugerð. Samkvæmt lögunum getur ráðherra í reglugerð takmarkað heimildir sjóntækjafræðinga til að mæla sjón hjá nánar tilgreindum hópum. Lögin öðlast gildi 15. júní 2004.
Lögin...

Tíðni húðæxla hefur tvöfaldast á tíu árum

Reiknað er með að árið 2004 muni um 80 Íslendingar fá sortuæxli og þar af um 50 fá svokölluð ífarandi sortuæxli, sem eru alvarlegra form en staðbundnu æxlin. Þetta kemur fram á heimasíðu landlæknisembættisins. Vísað er til upplýsinga frá Krabbameinsfélaginu. Samkvæmt þeim hefur tíðni húðæxla tvöfaldast á síðustu tíu árum og hefur sortuæxlunum sem eru alvarlegasta tegund húðkrabbameins, fjölgað mest en þau eru jafnframt algengasta krabbameinið hjá konum á aldrinum 15 – 35 ára. Landlæknisembættið, Geistavarnir ríkisins, Krabbameinsfélagið og Félag íslenskra húðlækna hefur sent frá sér auglýsingu þar sem varað er við því að feringarbörn fari í ljós. Í auglýsingunni segir að brúnn húðlitur eftir ljósabekki og sólböð geti verið merki um skemmdir í húðinni sem leiða til ótímabærrar öldrunar húðarinnar og jafnvel húðkrabbameins. Jafnframt kemur fram að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og fleiri hafi ráðlagt þeim sem eru yngri en 18 ára að fara ekki í ljósabekki. Í lok auglýsingarinnar eru foreldrar og forráðamenn fermingarbarna eindregið hvattir til að hafa þetta í huga. Nánar má lesa um þetta á heimasíðu landlæknisembættisins.
Nánar...

Klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð beinþynningar á vef landlæknis

Vinnuhópur um greiningu og meðferð beinþynningar sem stofnaður var haustið 2002 hefur lokið gerð klínískra leiðbeininga sem nú eru aðgengilegar á heimasíðu landlæknisembættisins. Í inngangi sem vinnuhópurinn skrifar með leiðbeiningunum er bent á að beinbrot af völdum beinþynningar sé algengt og vaxandi viðfangsefni heilbrigðisþjónustu á Íslandi, beinn kostnaður samfélagsins vegna þessa sé mikill og séu þá ótalin skert lífsgæði þeirra sem beinbrotna af völdum beinþynningar. Fram kemur að beinþynning er einkennalaus þar til bein brotnar og því sé mikilvægt að finna þá sem eru í mestri áhættu þannig að hægt sé að beita forvörnum og meðferð. Það eru eindregin tilmæli vinnuhópsins að tekið verði tillit til leiðbeininganna og að þær gagnist sem flestur. Hugsanlegir notendur leiðbeininganna eru læknar, sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar og aðrir sem fást við einstaklinga með beinþynningu.
Nánar...

Yfirgripsmiklar, heildstæðar upplýsingar um lýðheilsu og forvarnir á einum stað

Landlæknir telur að nýkynnt skýrsla fagráðs landlæknisembættisins hafi að geyma yfirgripsmestu og heildstæðustu upplýsingar um lýðheilsu og forvarnir í landinu til þessa dags. Þetta kom fram þegar skýrslan Áherslur til heilsueflingar var kynnt í vikunni. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra sem einnig flutti ávarp við kynningu á skýrslunni lagði sömuleiðis áherslu á hve miklu skipti að halda vel saman þekkingu á sviði lýðheilsu, heilsueflingar og forvarna þannig að þeir sem að málum koma geti leitað í sameiginlegan þekkingarsjóð og að kraftar séu sameinaðir. Ráðherra sagði þetta einmitt hafa verið markmiðið með stofnun Lýðheilsustöðvar og landlæknir kvaðst binda vonir við að efni skýrslunnar gæti nýst sem eins konar vinnubók fyrir Lýðheilsustöðina.
Samantekt og tillögur...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
12. mars 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum