Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Minnisvarði í minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur

Ríkisstjórn Íslands hefur að tillögu félagsmálaráðherra og umhverfisráðherra samþykkt að gera minnisvarða í minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og jafnréttisbaráttu hennar.

Árið 2006 verða 150 ár liðin frá fæðingu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Bríet fæddist árið 1856 og ólst upp að Böðvarshólum í Vatnsdal. Hún var elst fimm barna hjónanna Bjarnhéðins Sæmundssonar og Kolfinnu Snæbjarnardóttur. Hún settist að í Reykjavík árið 1887, giftist Valdimar Ásmundssyni, ritstjóra Fjallkonunnar, og eignuðust þau tvö börn, Laufeyju og Héðin. Bríet hóf útgáfu Kvennablaðsins árið 1895, en árið 1907 gekkst hún fyrir stofnun Kvenréttindafélags Íslands og var formaður þess til ársins 1926.

Bríet gekkst fyrir því að öll kvenfélög í Reykjavík bundust höndum saman á árunum 1908 – 1916 og buðu fram sérstaka kvennalista í Reykjavík.

Óhætt er að fullyrða að Bríet Bjarnhéðinsdóttir stóð í forystu íslenskrar kvennabaráttu frá 1907-1915 og lagði hún grunn að jafnréttisvakningu meðal kvenna og annarra jafnréttissinna. Bríeti hefur ekki verið reistur bautasteinn eða minnisvarði eins og þó er títt um íslenska merkismenn.

Á árinu 2006 verða 150 ár liðin frá fæðingu Bríetar og þykir því tilhlýðilegt að minnast afreka hennar með því að reisa henni minnisvarða sem tákn um þýðingarmikið jafnréttisstarf hennar.

Lagt er til að Kvennasögusafni Íslands verði falið að undirbúa gerð minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og kostnaði við verkið fundinn staður í fjárlögum árið 2006.

Sjá einnig:

Ræða Árna Magnússonar,
Salurinn Kópavogi, 17. mars 2004.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum