Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. apríl 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Norðurlandasamningur um almannatryggingar senn lögfestur

Norðurlandasamningur um almannatryggingar senn lögfestur

Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra leggur fyrir Alþingi frumvarp sem felur í sér breytingar á Norðurlandasamningi um almannatryggingar. Frumvarpið var lagt fram á fundi ríkisstjórnar í morgun. Tilefnið er að heilbrigðis-og tryggingamálaráðherrar Norðurlandanna undirrituðu samninginn á fundi sínum í Karlskrona í Svíþjóð í fyrrasumar en hann kemur í stað Norðurlandasamnings um almannatryggingar frá árinu 1992, sbr. lög nr. 46/1993. Með samningnum er samstarf Norðurlanda á þessu sviði lagað að löggjöf Evrópubandalagsins á sviði almannatrygginga sem nær til Evrópska efnahagssvæðisins og að löggjöf norrænu ríkjanna.

Samningurinn nær fyrst og fremst til einstaklinga sem ekki falla undir almannatryggingareglur hins Evrópska efnahagssvæðis og nýmæli hans eru breytingar á réttindum borgara ríkja sem ekki eru aðilar að EES-samningnum. Þetta þýðir að reglur samningsins um lífeyri almannatrygginga, fjölskyldubætur og atvinnuleysisbætur taka einnig til ríkisborgara landa utan EES sem búa á Norðurlöndunum og/eða flytja milli þeirra, að Danmörku undanskilinni. Við gerð samningsins var samræmi við EES-reglur um almannatryggingar skoðað sérstaklega og vísar samningurinn um margt til viðkomandi reglna Evrópubandalagsins um almannatryggingar. Samningurinn felur einnig í sér norrænar reglur sem ganga lengra en EES-reglur um almannatryggingar. Ekki er gert ráð fyrir að Norðurlandasamningurinn leiði til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði frumvarpið að lögum óbreytt.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum