Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. maí 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Endurhæfing fatlaðra áfram í Kópavogi

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Guðný Jónsdóttir, fulltrúi fyrirtækisins Endurhæfing ehf. undirrituðu í morgun samkomulag um áframhaldandi endurhæfingu fatlaðra í húsnæði Landspítala – háskólasjúkrahúss í Kópavogi. Samkomulagið byggist á þjónustusamningi um reksturinn.

Samkvæmt samningnum tekur fyrirtækið að sér endurhæfingu einstaklinga með mikið skerta andlega og líkamlega færni vegna meðfæddrar og áunninnar fötlunar. Þeir sem þarna fá endurhæfinu eru sömu einstaklingarnir og fram til þessa hafa fengið þjónustu hjá sjúkra- og iðjuþjálfun LSH í Kópavogi, en auk þess er gert ráð fyrir því í þjónustusamningnum að fleiri einstaklingar með áþekka fötlun fái sambærilega þjónustu í Kópavogi. 32 einstaklingar hafa fram að þessu notið þjónustunnar í Kópavogi en með þjónustusamningnum við ráðuneytið er gert ráð fyrir að þeim geti fjölgað í 48.

Fyrir utan samninginn sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið gerir við fyrirtækið Endurhæfing ehf. verður undirritað samkomulag þess og Landspítala – háskólasjúkrahúss um þjónustu við sjúklinga af nokkrum deildum spítalans sem þurfa á þeirri þjónustu að halda sem veitt er í Kópavogi.

Samningurinn er til 5 ára. Hann er til uppsegjanlegur af beggja hálfu með 12 mánaða fyrirvara og miðast uppsögn við áramót. Kostnaðurinn vegna beggja samninganna er um 57 milljónir á heilu ári.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
27. maí 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum