Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. maí 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 22. - 27. maí


Davíð Á. Gunnarsson kosinn formaður framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri, hefur verið kosinn formaður framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Davíð er fyrsti Íslendingurinn til að gegna þessu embætti, en hann var kjörinn í stjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar  á þingi stofnunarinnar í fyrra. Fjórir áratugir eru síðan Norðurlandabúinn var síðast kjörinn til að fara fyrir framkvæmdastjórn WHO í Gefn.  Stjórnin fer með æðsta vald samtakanna á milli alþjóðaþinga, tilnefnir forstjóra og framkvæmdastjóra WHO, hrindir í framkvæmd ákvörðunum alþjóðaheilbrigðisþingsins og sér um stefnumótun samtakanna á alþjóðavettvangi.
Nánar...


Minnt á frest til að skrá sig á málþing um reykingar karla og kvenna og kyndbundna nálgun í forvarnarstarfi og reykleysismeðferð

Þann 4. júní verður haldið málþing um reykingar karla og kvenna og hvort þörf sé fyrir kynbundna nálgun í forvörnum og reykleysismeðferð. Frestur til að skrá sig á málþingið er til miðvikudagsins 2. júní. Á málþinginu munu fyrirlesarar sem sérfróðir eru á ýmsum sviðum er lúta að tóbaksvörnum, s.s. rannsóknum, forvörnum og reykleysismeðferð, fjalla um þætti eins og afleiðingar tóbaksnotkunar fyrir samfélagið: umfang þeirra og kostnað, þátt ímyndar í reykingum kvenna, aðferðir til að sporna við reykingum, reykleysismeðferð o.fl.
Skráning á málþingið, dagskrá o.fl....

  

Mikil fjölgun í hópi þeirra sem þurfa reglubundna súrefnisgjöf

Tæplega þrjúhundruð Íslendingar í heimahúsum þurfa á reglubundinni súrefnisgjöf að halda vegna lungnasjúkdóma. Frá þessu er sagt á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins (TR) og vísað í ársskýrslu Súefnisþjónustu TR. Í árslok voru þeir sem þurfa á súrefnisgjöf að halda nær tvöfalt fleiri en í september árið 2000. Haft er eftir Dóru Lúðvíksdóttur, lækni á Landspítala – háskólasjúkrahúsi að þessi fjölgun skýrist meðal annars af vaxandi tíðni langvinnrar lungnateppu, ekki síst meðal kvenna.
Nánar...

 

Reykingar mun fátíðari í Egilsstaðalæknishéraði en annars staðar á landinu

Samkvæmt könnun sem gerð var haustið 2002 á tíðni reykinga á Austurlandi í hópi fullorðinna reyktu þá 15,5% fólks 18 – 69 ára sem er miklum mun minni en landsmeðaltal (23,5%). Þetta er meðal þess sem fram kemur í ágripi af erindi Péturs Heimissonar, læknis við Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins. Tóbaksvarnir á Héraði verða umfjöllunarefni Péturs á ráðstefnu sem haldin verður 4. júní nk. á Grand-Hóteli í Reykjavík. Í ágripi erindisins kemur einnig fram að niðurstöður annarrar rannsóknar sem gerð var í ársbyrjun 2003 eru reykingar á heimilum barna í Egilsstaðalæknishéraði fimm sinnum fátíðari en á heimilum barna í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum og Bolungarvík.
Nánar...


Hjúkrunargögn til Afganistan

Þann 31. maí verður flogið til Afganistan með hjúkrunargögn sem Hjálparstarf kirkjunnar hefur safnað. Landspítali – háskólasjúkrahús gaf 70 sjúkrarúm til söfnunarinnar en sjúkrastofnanir víða um land hafa einnig gefið til hennar gögn, s.s. svæfingavél, fæðingarrúm, vél sem mælir rúmtak lungna, hitakassa og margt fleira. Flugið til Afganistan er á vegum utanríkisráðuneytisins og á leiðinni út verða sótt lyf til Búlgaríu sem fyrirtækið Actavis hefur gefið. Frá þessu er sagt á heimasíðu Hjálparstarfs kirkjunnar.
Nánar...


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum