Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. júní 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Alþjóðavinnumálaþingið í Genf

Alþjóðavinnumálastofnunin ILO
Alþjóðavinnumálastofnunin ILO

Þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Alþjóðavinnumálaþinginu, lauk í Genf 17. júní sl. Um var að ræða 92. þingið frá stofnun ILO árið 1919. Þinginu lauk með umræðum um skýrslu um félagslegar hliðar alþjóðavæðingar efnahagslífsins. Skýrslan var tekin saman undir stjórn vinnuhóps sem laut formennsku Tarja Halonen forseta Finnlands. Forstjóri alþjóðavinnumálaskrifstofunnar í Genf, Joan Somavia, taldi í samantekt sinni við lok umræðnanna að Alþjóðavinnumálastofnunin hefði fengið gott veganesti til að takast á við vandamál á sviði félags- og vinnumála sem leiddi af alþjóðavæðingu efnahagslífsins.

Þingið afgreiddi nýja áætlun um aðgerðir í þágu útlends vinnuafls í því augnamiði að starfsmenn sem starfi á erlendri grund njóti lagaverndar af alþjóðlegum samningum á sviði félags- og vinnumála sem og af innlendri löggjöf á þessu sviði.

Fjallað var um menntun og þjálfun á vinnumarkaði. Þingið samþykkti ný tilmæli til aðildarríkjanna um þetta efni sem koma í stað eldri tilmæla frá árinu 1975.

Eitt höfuðmálefni þingsins var öryggi og aðbúnaður sjómanna um borð í fiskiskipum. Um það var fjallað í einni af nefndum þingsins. Umræðum verður fram haldið á næsta Alþjóðavinnumálaþingi sem haldið verður að ári. Ef samstaða tekst er stefnt að því að afgreiða alþjóðasamþykkt og tillögu um þetta efni sem leysi af hólmi eldri alþjóðareglur sem samþykktar voru á árunum 1920–1966. Gert er ráð fyrir að nýju reglurnar hafi víðtækt gildissvið og taki jafnt til þeirra sem eru einyrkjar í greininni og þeirra sem vinna samkvæmt hlutaskiptakerfi.

Ein af fastanefndum Alþjóðavinnumálaþingsins fjallar um framkvæmd aðilarríkjanna á alþjóðasamþykktum og tillögum á sviði félags- og vinnumála. ILO hefur í mörg ár leitað leiða án sýnilegs árangur til að fá stjórnvöld í Myanmar (Burma) til að fara að alþjóðasamþykkt um afnám nauðungarvinnu. Í þessu skyni hélt nefndin sérstakan fund sem helgaður var nefndri alþjóðasamþykkt. Nefndin fjallaði um málefni sem tengdust sérstaklega 24 aðildarríkjum. Í þeim hópi var Ísland vegna athugasemda sem sérfræðinganefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur gert við framkvæmd alþjóðasamþykktar nr. 98 um samningafrelsi og setningu laga sem hafði að markmiði að binda endi á kjaradeilu íslenskra útgerðarmanna og sjómanna árið 2001. Nefnd Alþjóðavinnumálaþingsins hvatti íslensk stjórnvöld til að hlutast til um það að útgerðarmenn og sjómenn semdu um kaup og kjör án afskipta stjórnvalda (sjá niðurstöður þingnefndarinnar í íslenskri þýðingu).

Aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ber skylda til að senda fjóra fulltrúa hið minnsta á Alþjóðavinnumálaþingið. Tveir skulu vera fulltrúar ríkisstjórnar hlutaðeigandi aðildarríkis og hinir vera hvor um sig fulltrúar samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks. Fulltrúar Íslands á þinginu voru: Frá félagsmálaráðuneyti: Gylfi Kristinsson. Varamaður hans var Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir. Frá fastanefnd Íslands í Genf: Stefán Haukur Jóhannesson. Varamaður hans var Ingibjörg Davíðsdóttir. Frá Siglingamálastofnun: Skúli Auðunsson. Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon voru fulltrúar íslenskra atvinnurekenda. Magnús Nordahl og Sævar Gunnarsson fulltrúar íslensks launafólks. Vilhjálmur Eglisson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, tók þátt í umræðum í nefnd þingsins um framkvæmd alþjóðasamþykkta.

Samtals tóku að þessu sinni þátt í vinnumálaþinginu rúmlega 3.000 fulltrúar frá flestum hinna 177 aðildarríkja ILO. Sjá nánar helstu niðurstöður Alþjóðavinnumálaþingsins.

Vegna aðildar fulltrúa ríkisstjórna og samtaka atvinnurekenda og launafólks að stofnunum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar er framkvæmd atkvæðagreiðslna flókin og tímafrek. Fyrir nokkrum árum var tekið upp rafrænt atkvæðagreiðslukerfi á Alþjóðavinnumálaþinginu. Það hefur ekki reynst vel og oft bilað þegar mikið hefur legið við. Á síðasta ári samdi alþjóðavinnumálaskrifstofan við íslenska fyrirtækið Kögun um hönnun á nýju rafrænu atkvæðagreiðslukerfi. Nýja kerfi var í fyrsta skipti reynt á ný afstöðnu Alþjóðavinnumálaþingi. Nokkurrar eftirvæntingar gætti í sendinefnd Íslands með það hvernig til tækist við þær atkvæðagreiðslur sem fram fóru á þinginu. Engin vandamál komu upp og stóð kerfið undir þeim væntingum sem til þess voru gerðar. Sérstök ástæða er til að óska Kögun til hamingju með þennan árangur. Hér er um að ræða einstaklega góða auglýsingu fyrir íslenskt hugvit á erlendum vettvangi.

Niðurstaða nefndar Alþjóðavinnumálaþingsins um framkvæmd alþjóðasamþykkta í máli sem snerti framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykkt nr. 98 um samningafrelsi

Nefndin tók mið af upplýsingum sem veittar voru af fulltrúa ríkisstjórnarinnar og umræðum sem á eftir fylgdu. Nefndin tók mið af  að athugasemdir sérfræðinganefndarinnar vísuðu til samþykktar laga sem kom á lögbundnum gerðardómi í sjávarútvegi og greip þannig inn í gerð kjarasamninga sem fram fara af frjálsum og fúsum vilja. Nefndin veitti því athygli að spurning um inngrip stjórnvalda í kjarasamninga í þessari grein sem og öðrum starfsgreinum hefur komið upp af ýmsu tilefni. Nefndin veitti einnig athygli þeirri ósk sem fram hefur komið hjá aðilum vinnumarkaðarins á Íslandi að ríkisstjórnin haldi að sér höndum í framtíðinni hvað varðar hvers kyns inngrip í ferli kjarasamninga. Nefndin veitti sérstaka athygli þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hún væri reiðubúin til samráðs við aðila vinnumarkaðarins til að fara yfir þau vandamál sem væru til staðar í sjávarútvegi, sem er mjög mikilvæg atvinnugrein fyrir landið. Nefndin lét í ljós þá von að ríkisstjórnin myndi endurskoða umgjörð og tilhögun kjarasamningaviðræðna og framkvæmd þeirra í sjávarútvegi í nánu samráði við hlutaðeigandi samtök aðila vinnumarkaðarins með það að markmiði að bæta umgjörð frjálsra samningaviðræðna í samræmi við 4. grein samþykktarinnar. Nefndin óskaði eftir því að ríkisstjórnin sendi ítarlegar upplýsingar um ráðstafanir hvað þetta varðar í næstu skýrslu sinni til sérfræðinganefndarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum