Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. júní 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisstofnun Suðurlands - Fimmtán sækja um starf framkvæmdastjóra

Fréttatilkynning nr. 17/2004

Fimmtán sóttu um starf framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem tekur til starfa 1. september 2004 þegar heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi verða sameinaðar undir eina stjórn. Umsækjendur eru: Ari Nyysti, Finnlandi, Árni Gunnarsson, Hveragerði, Ester Sveinbjarnadóttir, Reykjavík, Gísli Erlendsson, Reykjavík, Gísli Krogh, Kópavogi, Holberg Másson, Reykjavík, Hugrún Valgarðsdóttir, Reykjavík, Jóhann Ólafsson, Höfn, Jóhann Þorvarðarson, Reykjavík, Kristbjörn J. Bjarnason, Sauðárkróki, Kristín S. Þórarinsdóttir, Þorlákshöfn, Magnús Skúlason, Kópavogi, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, Reykjavík, Stefán Guðmundsson, Þorlákshöfn, Sigurður G. Magnússon, Reykjavík.

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu mun þriggja manna hæfnisnefnd fara yfir og meta umsóknir um starf framkvæmdastjóra. Þegar fyrir liggur hverjir eru hæfir skilar nefndin heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra mati sínu á umsækjendum en ráðherra skipar síðan í stöðuna til fimm ára.

Sameining heilbrigðisstofnananna á Suðurlandi tekur til heilsugæslustöðvanna í Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfossi, Laugarási, Rangárþingi (Hvolsvelli og Hellu), Vík, og á Kirkjubæjarklaustri, auk Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi. Stöður framkvæmdastjóra þeirra stofnana sem nú eru starfandi verða lagðar niður frá 1. desember nk. og munu því framkvæmdastjórarnir sem starfandi verða fram að þeim tíma vinna með nýjum framkvæmdastjóra í þrjá mánuði. Staða annarra starfsmanna verður óbreytt en það kemur í hlut nýs framkvæmdastjóra að skipuleggja starfsemi hinnar sameinuðu stofnunar til framtíðar.

Megin tilgangurinn með sameiningu stofnananna er fyrst og fremst að leggja grunninn að og skapa möguleika á að unnt verði að byggja upp öfluga heilbrigðisstofnun. Markmiðið er að samræma heilbrigðisþjónustuna sem veitt er og veitt verður á svæðinu, að efla hana og styrkja heilbrigðisþjónustuna við íbúa Suðurlands. Með sameiningu og uppbyggingu heilbrigðisstofnunar af þeirri stærð sem hér um ræðir er starfsmönnum einnig boðið upp á starfsumhverfi sem verður í senn meira gefandi og krefjandi. Heilbrigðisstofnun Suðurlands mun þjóna um 17 þúsund íbúum. Um 200 manns eru starfandi á heilbrigðisstofnunum sem sameinast í eina og velta þær um 1230 milljónum króna árlegu rekstrarfé.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,
30. júní 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum