Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. ágúst 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 14. - 20. ágúst

Rammasamningur WHO um tóbaksvarnir
Rammasamningur WHO um tóbaksvarnir

Áfengismál efst á baugi

Á árlegum fundi norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherranna sem fram fór á Egilsstöðum í vikunni var samþykkt að Norðurlöndin reyndu að sameinast um langtímastefnu í áfengismálum og með því reyna að stuðla að því að Evrópusambandið, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og aðrar alþjóðlegar stofnanir beini sjónum sínum í vaxandi mæli að alvarlegum afleiðingum áfengisdrykkju. Vinnuhópi hefur verið falið að undirbúa stefnumótun á þessu sviði sem verður á dagskrá aukafundar heilbrigðis- og félagsmálaráðherranna á fundi í Kaupmannahöfn í október þar sem áfengismál verða á dagskrá eftir að tilmæli þess efnis bárust um það frá forsætisráðherrum landanna. Niðurstöður þess fundar verða lagðar fyrir forsætisráðherrana í nóvember. Á fundinum á Egilsstöðum samþykktu ráðherrarnir ennfremur að koma á fót sérstöku sameiginlegu upplýsingakerfi um áfengisneyslu og afleiðingar hennar. Norðmenn munu sjá um rekstur upplýsingaþjónustunnar. Á fundinum eystra urðu miklar umræður um stefnu Norðurlandanna í áfengismálum og kom fram hjá fulltrúum landanna að hart væri sótt fram gegn þeirri stefnu sem flest löndin hafa fylgt fram til þessa á grundvelli sjónarmiða lýðheilsu.


Samþætting heimaþjónustu í Reykjavík

Kynningarfundur verður haldinn í fræðslusal Heilsugæslunnar í Reykjavík 24. ágúst á verkefninu um samþættingu heimaþjónustu í Reykjavík. Fundurinn er ætlaður félagsmálastjórum nágrannasveitarfélaga, stofnunum og félagasamtökum. Verkefnið varð til í framhaldi af vinnu starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði í kjölfar skýrslu samráðshóps um málefni eldri borgara í nóvember 2002. Samkomulag var gert milli Reykjavíkurborgar og heilbrigðisráðuneytisins um tveggja ára tilraunaverkefni þar sem félagslegri heimaþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar og heimahjúkrun sem heyrir undir Heilsugæslu Reykjavíkur væri stýrt sameiginlega. Tilgangur verkefnisins er einkum að bæta nærþjónustu við íbúa Reykjavíkur með því að auka samskipti og samráð þessara tveggja þjónustuaðila og að draga úr þörf fyrir vistun á stofnunum. Unnið er að því að koma á sameiginlegu mælitæki, RAI-home-care, til að meta þörf fólks í heimahúsum fyrir aðstoð og verður það tekið í notkun í byrjun árs 2005.

Nýr framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands tekur til starfa

Magnús Skúlason, deildarstjóri, tekur til starfa sem framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands 1. september næstkomandi þegar sameining heilbrigðisstofnana á Suðurlandi tekur gildi. Stofnunin mun þjóna um 17 þúsund íbúum. Liðlega 200 manns eru starfandi á heilbrigðisstofnunum sem sameinast í eina 1. september og velta þær um 1230 milljónum króna árlegu rekstrarfé.
Nánar...

 

Loft – Ráðstefna um tóbaksvarnir

Dagana 16.– 17. september 2004 verður haldin ráðstefna um stöðu tóbaksvarna á Íslandi á Hótel Örk í Hveragerði. Meginmarkmið ráðstefnunnar er að stuðla að auknu samstarfi þeirra sem vinna að tóbaksvörnum á Íslandi og efla heilbrigðisstarfsmenn í forvörnum og reykleysismeðferð. Nánar er sagt frá ráðstefnunni á heimasíðu landlæknisembættisins.
Nánar...

 

Alþjóðleg ráðstefna um heilsuhagfræði

Alþjóðleg ráðstefna um heilsuhagfræði fer fram í Reykjavík dagana 20. – 21. ágúst. Á annað hundrað vísindamanna kynna nýjustu rannsóknir sínar á þessu sviði. Að ráðstefnunni standa viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og Landspítali – háskólasjúkrahús í samvinnu við samtök norrænna heilsuhagfræðinga. Ráðstefnan er haldin í Odda, húsnæði Viðskipta- og hagfræðideildar og Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.
Vefur ráðstefnunnar...

 

Norræn vinnuverndarráðstefna í Reykjavík

Dagana 30. ágúst - 1. september nk. verður haldin norræn vinnuverndarráðstefna á vegum Vinnueftirlitsins á Nordica hóteli. Fjallað verður um nýjar rannsóknarniðurstöður á sviði vinnuverndar og meðal umfjöllunarefna má nefna ofnæmi, erfðafræði, vinnuaðstæður, heilsu innflytjenda og erlendra starfsmanna, áhrif óreglulegs vinnutíma á heilsuna, heilbrigði í vinnu og margt fleira.
Vefur ráðstefnunnar...

 

Breytingar í yfirstjórn Landspítala – háskólasjúkrahúss

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur sett Jóhannes M. Gunnarsson, skurðlækni, til að gegna starfi forstjóra LSH frá 1. september n.k. en þá hefst 8 mánaða námsleyfi Magnúsar Péturssonar, forstjóra LSH. Vilhelmína Haraldsdóttir, sérfræðingur í lyflækningum og blóðsjúkdómum hefur verið skipuð til að gegna starfi framkvæmdastjóra lækninga.
Nánar...

 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,
20. ágúst 2004


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum