Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. ágúst 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 21. ? 27. ágúst

Ríkisendurskoðun: Afköst og þjónusta Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri góð en uppbygging húsnæðis ómarkviss

Ríkisendurskoðun hefur lokið stjórnsýsluúttekt á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) þar sem metin er starfsemi þess á árunum 1999 – 2002. Einkum er horft til skilvirkni, afkasta og gæða þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veitt er en einnig til almenns rekstrar, stjórnunar og rannsókna. Í fréttatilkynningu Ríkisendurskoðunar segir að FSA standist fyllilega samanburð við Landspítala – háskólasjúkrahús og hliðstæð bresk sjúkrahús þegar metin séu afköst og gæði veittrar þjónustu. Uppbygging á húsnæði sjúkrahússins hafi hins vegar verið ómarkviss undanfarin ár og ekki hafi tekist að halda kostnaði við rekstur sjúkrahússins innan ramma fjárlaga. Á Akureyri er almenn heilbrigðisþjónusta í meginatriðum í höndum sjúkrahúss og heilsugæslu. Ríkisendurskoðun bendir á að þetta fyrirkomulag sé nokkuð frábrugðið því sem er í Reykjavík þar sem sjálfstætt starfandi sérfræðingar gegni stóru hlutverki. Reykvíkingar leita að jafnaði fjórum sinnum oftar til starfandi sérfræðinga en Akureyringar gera að meðaltali. Í skýrslunni segir að ef Reykvíkingar notuðu þjónustuna í svipuðum mæli og Akureyringar myndi kostnaður vegna sérfræðilækna lækka úr um 1,7 milljarði króna í um 400 milljónir króna eða um 1,3 milljarða króna.
Nánar...


Rekstur flestra sviða LSH innan áætlunar samkvæmt 7 mánaða uppgjöri

Rekstraruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss eftir sjö mánuði sýnir 139 m.kr. umfram fjárheimildir tímabilsins, eða 0,9%, samkvæmt Stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins fyrir janúar til júlí. Launagjöld eru 0,6% umfram áætlun og rekstrargjöld 1,9% umfram áætlun. Kostnaður við S-merkt lyf er 2,4% umfram áætlun. Í greinargerð framkvæmdastjóra með stjórnunarupplýsingunum kemur fram að rekstur flestra sviða eru innan áætlunar. Í stjórnunarupplýsingum kemur einnig fram að skurðaðgerðum heldur áfram að fjölga. Meðallegutími á sjúkrahúsinu styttist enn sem fyrr og bráðleiki sjúklinga eykst að sama skapi. Sjúklingum á gjörgæsludeildum hefur fjölgað umtalsvert, eða nærri 30% en meðallegutími á gjörgæsludeildum hefur styst. Á heimasíðu LSH er hægt að skoða stjórnunarupplýsingarnar í heild sinni ásamt greinargerð Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra.
Nánar...

Beingreiðslur TR til tannlækna hafa aukist hratt til hagræðis fyrir viðskiptavini.

Tryggingastofnun ríkisins greiddi á síðasta ári meira en helming af öllum greiðslum sínum vegna tannlækninga beint til tannlækna. Á heimasíðu TR er haft eftir Reyni Jónssyni, yfirtryggingatannlækni að beingreiðslur til tannlækna hafi tvöfaldast á síðustu fimm til sex árum. Tannlæknar hafi, líkt og læknar og stjórnendur lyfjaverslana, verið hvattir til að krefja TR beint um greiðslu á hluta trygginganna í kostnaði. Slíkt fyrirkomulag sparar sjúklingunum umstang við að sækja hlut trygginganna til Tryggingastofnunar eða umboða hennar.
Nánar...

Rammasamningur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir í íslenskri þýðingu

,,Tóbaksneysla er faraldur sem breiðist út og er vandamál í samfélagi þjóðanna sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir lýðheilsu sem aftur krefst sem víðtækastrar alþjóðlegrar samvinnu og þess að öll lönd taki þátt í því að bregðast við á heimsvísu á skilvirkan, viðeigandi og heildstæðan hátt.” Þannig hljóða upphafsorð rammasamnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir í íslenskri þýðingu sem 168 þjóðlönd undirrituðu í Gefn í maí á síðasta ári. Með aðild að samningnum viðurkenna þjóðirnar þetta vandamál og einsetja sér að láta rétt sinn til að vernda lýðheilsu hafa forgang. Aðilar að samningnum ,,taka undir áhyggjur alþjóðasamfélagsins af hinum skelfilegu afleiðingum sem tóbaksneysla og óbeinar reykingar hafa á heilsu, samfélag, fjárhag og umhverfi um heim allan”. Nú hafa þrjátíu þjóðir fullgilt samninginn en hann öðlast gildi á nítugasta degi frá þeim degi ,,þegar fertugasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki, formlega staðfestingargerð eða aðild er afhent vörsluaðila til varðveislu.” Samningurinn er birtur hér með í heild sinni í íslenskri þýðingu.
Nánar...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu,
27. ágúst 2004

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum