Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. október 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 2. - 8. október

Heilbrigðisráðstefna Skýrslutæknifélagsins: Hvar eru upplýsingarnar?
Skýrslutæknifélag Íslands stendur fyrir ráðstefnu um sjúklingamiðuð upplýsingakerfi í Salnum í Kópavogi 15. október n.k. Á ráðstefnunni verða m.a. ræddar spurningar á borð við það hvernig rafræn upplýsingakerfi þjóna hagsmunum sjúklinga, hvort slík kerfi skili sér í bættri heilsu fólks og hvort stefnumótun hins opinbera í upplýsingatækni sé framfylgt innan heilbrigðiskerfisins. Fjallað verður fjarlækningar og ný tækifæri sem sú tækni felur í sér fyrir landsbyggðina. Erlendur gestur ráðstefnunnar, Robert Tickell, yfirmaður heilbrigðissviðs IBM í Evrópu mun flytja fyrirlestur sem nefnist: Vision and Strategy for a Colloborative Health Network. Ráðstefnunni lýkur með stofnun faghóps um upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu sem hefur þegar fengið nafnið Fókus.
Dagskrá ráðstefnunnar...

Heilbrigðisstofnun Suðurlands: Sjö tilboð undir kostnaðaráætlun
Sjö buðu í 1. áfanga fyrirhugaðrar viðbyggingar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem opnuð voru 5. október. Í þessum fyrsta áfanga verður viðbyggingin steypt upp og innréttuð hæð fyrir hjúkrunardeild. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tæpar 617 milljónir króna og voru tilboð tveggja verktaka undir kostnaðaráætlun.
Nánar...

 

Hálfur milljarður af lyfjareikning TR vegna Vioxx gigtarlyfsins
Tryggingastofnun ríkisins (TR) hefur á síðustu árum greitt tæpar 500 milljónir króna vegna Vioxx  gigtarlyfsins sem tekið var af markaði í síðustu viku um heim allan vegna alvarlegra aukaverkana frá hjarta- og æðakerfi. Frá þessu er sagt á heimasíðu TR. Vioxx kom fyrst á markað árið 2000. Fyrstu tvö árin var það eina lyfið í Cox-2 lyfjaflokknum en síðustu árin hefur notkunin dreifst á fleiri lyf innan sama flokks. Engu að síður var Vioxx algengasta gigtarlyfið í þessum flokki þar til það var tekið úr umferð í síðustu viku. Markaðshlutdeild þess var 63% á síðasta ári en 94% árið 2002.

 

Ráðstefna um börn með CP /heilalömun
Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, flutti í morgun ávarp fyrir hönd ráðherra í upphafi ráðstefnunnar Þjónusta við börn með CP, eða heilalömun. Þar fjallaði Sæunn m.a. um aðstæður langveikra barna og þá miklu breytingu sem orðin er í þjónustunni við börn sem þannig er ástatt fyrir með tilkomu nýja barnaspítalans og Rjóðurs í Kópavogi. Hún gerði einnig að umtalsefni nauðsyn samvinnu og samstarfs heilbrigðisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins.
Ræðan...

Málþing samtaka heilbrigðisstétta
Er teymisvinna í heilbrigðiskerfinu tímasóun? Þetta er umfjöllunarefni málþings Samtaka heilbrigðisstétta sem haldið verður í Setrinu á Grand Hótel 14. október 2004 kl. 16:15 til 19:00.
Dagskrá...



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum