Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. október 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Alþýðusambands Íslands

Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2004
Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2004

Ágætu ársfundargestir.

Ég vil hefja mál mitt á því að þakka forystumönnum Alþýðusambands Íslands fyrir að hafa enn á ný boðið mér að taka til máls við upphaf ársfundar. Skoðanaskipti eru ætíð af hinu góða. Það er ekkert óeðlilegt þótt stjórnvöld og samtök á vinnumarkaði geti greint á um markmið og leiðir. Samtökin eru gæsluaðilar umbjóðenda sinna og hljóta að leggja áherslu á þau málefni sem standa þeim næst. Stjórnvöld þurfa eðli málsins samkvæmt að líta til fleiri átta og taka tillit til hagsmuna sem oftar en ekki eru ólíkir. Það breytir því ekki að skoðanaskipti eru nauðsynleg til þess að hægt sé að átta sig á ástæðum fyrir ólíkum viðhorfum til málefna. Í samræmi við þetta hélt ég á síðasta vetri reglulega samráðsfundi með forystumönnum Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, það sama verður uppi á teningnum í vetur.

Í ávarpi sem ég flutti á ársfundi ykkar í fyrra fjallaði ég um nokkra þætti félags- og vinnumála sem verið er að vinna að í félagsmálaráðuneytinu og mér fannst eiga erindi við ykkur. Ég hyggst hafa sama háttinn á að þessu sinni.

Ég held að flestir geti verið sammála um að það eru nokkur grundvallaratriði sem ráða afkomu launafólks og fjölskyldnanna í landinu. Mikilvægast er að vera í launuðu starfi sem gefur tekjur til að standa straum af kostnaði við að halda heimili. Annað mikilvægt atriði er að hafa þak yfir höfuðið. Húsnæðismálin hafa verið mjög umfangsmikil í starfsemi félagsmálaráðuneytisins. Það hefur gengið hægt að koma þeim í hliðstæðan farveg og tíðkast meðal þeirra þjóða sem við helst viljum bera okkur saman við, en það stendur til bóta. 

Ég ætla ekki að halda neina kosningaræðu hér en við stjórnmálamenn erum með réttu oft minntir á loforð sem gefin eru fyrir kosningar, einkum og sér í lagi ef menn telja að þau hafi verið svikin. Hins vegar er minna talað um það þegar loforðin eru efnd. 

Mér finnst ekki ástæða til að draga úr því að minn flokkur setti umbætur í húsnæðismálum á oddinn fyrir síðustu kosningar meðal annars með hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs í 90% af verði hóflegrar íbúðar. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að nú er hægt að tala um tímamót í húsnæðismálum þjóðarinnar. Húsbréfakerfið hefur verið aflagt og tekin upp peningalán til hagsbóta fyrir íbúðakaupendur. Nú þegar hafa íbúðarlán verið hækkuð og munu losa 13 milljónir um áramót. Gert er ráð fyrir enn meiri hækkunum í áföngum á kjörtímabilinu og munu þegar upp er staðið verða 90% af verði hóflegrar íbúðar. Enn fremur hafa vextir verið að lækka og eru 4,3%. Það gleðilega fyrir allan almenning er að bankakerfið hefur loksins tekið við sér. Bankarnir hafa nú séð sér fært að bjóða íbúðarkaupendum upp á kjör sem nálgast það sem hefur tíðkast í áratugi í nágrannalöndunum. Það þarf ekki að fjölyrða um þær kjarabætur sem felast í þessari breytingu fyrir fjölskyldurnar í landinu og allan þorra launafólks. Þær eru bæði raunverulegar og áþreifanlegar.

Góðir fundarmenn.

Málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði hafa verið töluvert til umfjöllunar síðustu misserin. Þessu veldur stóraukin þörf fyrir erlent vinnuafl meðal annars til starfa við framkvæmdirnar á Austurlandi. En fleira kemur til eins og stækkun Evrópusambandsins og þar með stækkun hins Evrópska efnahagssvæðis 1. maí sl.

Mikil áhersla hefur verið á það lögð af hálfu talsmanna Alþýðusambandsins að nauðsynlegt væri að taka málefni útlendinga fastari tökum. Komið hafa fram fullyrðingar um að útlendir starfsmenn við Kárahnjúkavirkjun nytu ekki umsamdra kjara á íslenskum vinnumarkaði og að þeir væru hlunnfarnir með tilstyrk svonefndra starfsmannaleiga. Á þeim vinnustað og öðrum ætti sér stað það sem nefnt hefur verið félagslegt undirboð. Ég hef tekið slíkar fullyrðingar alvarlega. Félagsmálaráðuneytið hefur gert það sem er í þess valdi til að tryggja að bæði sé farið eftir lögum og reglum sem og þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Þannig hefur bæði Vinnumálastofnun og Vinnueftirliti ríkisins verið falið að fylgjast vel með framvindunni við Kárahnjúka. Minna má á að forstjóri Vinnumálastofnunar gerði sér sérstaka ferð austur til að fylgjast með útborgun launa til að ganga úr skugga um að erlendir starfsmenn væru ekki hlunnfarnir. Einnig hefur verið lagt í kostnað við að efla eftirlit sem er bæði sjálfsagt mál, eðlilegt og nauðsynlegt.

Ráðuneytið hefur einnig lagt áherslu á að tryggja að starfsmannaleigur haldi sig innan þess ramma sem íslensk lög, reglur og kjarasamningar setja. Hér er óneitanlega um að ræða viðfangsefni sem hefur valdið fleiri þjóðum áhyggjum. Ég ætla ekki að fjölyrða um það í hverju þessar áhyggjur felast en vil nefna að hér er um að ræða fyrirtæki sem eru skrásett erlendis en senda starfsmenn á grundvelli meðal annars EES-tilskipana hingað til starfa. Þar af leiðandi höfum við talið að vænlegast til að ná varanlegum árangri sé að stofna til samstarfs við Norðurlöndin og samstarfsríki okkar á Evrópska efnahagssvæðinu um að koma starfsemi þessara fyrirtækja í þann farveg að um hana geti ríkt sátt.

Fulltrúar okkar í nefndum á norrænum vettvangi hafa lagt á þetta áherslu en mál þessu tengd hafa verið ofarlega á baugi í norrænni samvinnu á síðastliðnu ári. Er ljóst að svo mun verða áfram en í norrænni samstarfsáætlun á sviði vinnumála og vinnuverndarmála fyrir árin 2005–2008 er meðal annars fjallað um þróun nýrra ráðningarforma, þ.á m. vandann tengdum starfsmannaleigum. Við höfum einnig kallað eftir og fengið upplýsingar um gildandi lög um þetta efni frá aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við vitum að þetta málefni er til sérstakrar athugunar á vettvangi þeirrar stofnunar Evrópusambandsins sem stundar vinnumarkaðsrannsóknir og hefur aðsetur í Dublin. Við munum að sjálfssögðu fylgjast með því starfi.

Fjölþjóðleg samvinna dugar okkur þó skammt ef málin eru ekki jafnframt sérstaklega skoðuð heima fyrir. Í haust skipaði ég því vinnuhóp með aðild Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem hefur það hlutverk að fjalla um stöðu starfsmannaleiga á íslenskum vinnumarkaði. Starfshópnum er meðal annars ætlað að skoða sérstaklega starfsumhverfi starfsmannaleiga sem hafa staðfestu í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins en kjósa að veita þjónustu hér á landi.

Enn fremur er starfshópnum ætlað að kanna nauðsyn þess að sett verði sérlög um starfsemi starfsmannaleiga er eiga sér staðfestu hér á landi, hvort sem um er að ræða fyrirtæki sem er innlent að uppruna eða erlent fyrirtæki sem hefur kosið að nýta sér staðfesturétt sinn. Ég vænti þess að starfshópurinn skili niðurstöðu í byrjun desember.

Annað atriði þessu tengt eru lögin og reglugerðin um atvinnuréttindi útlendinga. Forystumenn Alþýðusambandsins hafa lagt mikla áherslu á að sett yrði reglugerð á grundvelli laganna um atvinnuréttindi útlendinga. Undir þetta var tekið á ársfundi Starfsgreinasambandsins sem haldinn var fyrir hálfum mánuði. Mér er ljóst að samtök launafólks leggja áherslu á að reglugerðin verði gefin út hið fyrsta. Mér er það hins vegar einnig mikilvægt að ákveðin sátt ríki um efni laga og reglugerða er lúta að málefnum vinnumarkaðarins. Ákvað ég því að gera aðra tilraun í því efni. Haft hefur verið samband við aðilanna vegna þeirrar vinnu og fyrir mér er um mikið forgangsverkefni að ræða. Munum við því leggja áherslu á að unnt verði að ljúka málinu hið fyrsta. Það liggur eigi síður fyrir að ráðuneytið mun kappkosta að lög um verndun starfsréttinda verði virt.

Það er mér mikið ánægjuefni að geta upplýst hér að lokið hefur verið við gerð frumvarps um breytingu á lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, í nánu samráði við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Er markmið þessa frumvarps að veita samningum aðildarsamtaka vinnumarkaðarins um málsmeðferð í ágreiningsmálum, er lúta að launum og ráðningarkjörum starfsmanna, sama almenna gildi og kjarasamningar hafa að því er varðar laun og önnur starfskjör. Eins og ykkur er eflaust kunnugt um má rekja tilurð þessa frumvarps til samkomulags Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði frá 7. mars 2004. Reikna ég með að leggja þetta frumvarp fyrir ríkisstjórn á næstu dögum.

Það er ekki hægt að ljúka umfjöllun um útlendinga á íslenskum vinnumarkaði án þess að minnast á fleiri atriði sem hafa verið gagnrýnd, sérstaklega af talsmönnum útlendinga. Eitt af því er fyrirkomulagið við afgreiðslu og veitingu atvinnuleyfa. 

Í raun heyrir þetta málefni undir tvö ráðuneyti, dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið. Það fyrrnefnda fer með veitingu dvalarleyfis, það síðarnefnda með veitingu atvinnuleyfis. Fyrirkomulagið er mjög sérstakt að því leyti að atvinnuleyfi verður ekki gefið út nema að dvalarleyfi liggi fyrir. Dvalarleyfi er ekki veitt nema að það sé ljóst að hlutaðeigandi geti séð sér farborða.  Það er í raun merkilegt að þetta kerfi skuli hafa getað gengið upp. Í öðru lagi hefur það verið gagnrýnt að atvinnuleyfi skuli veitt atvinnurekanda en ekki útlendingi. Þar með sé útlendingurinn ofurseldur valdi atvinnurekandans. Ég get ekki neitað því að mér finnst orðið tímabært að endurskoða þetta fyrirkomulag og kanna hvort ekki sé hægt að einfalda stjórnsýsluna t.d. með því að fela einu ráðuneyti ábyrgð á málaflokknum. Ég vonast eftir góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um það efni.

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Ástandið á vinnumarkaðnum veldur áhyggjum. Öflug stefna stjórnvalda í atvinnu- og efnahagsmálum hefur leitt af sér hagvöxt sem er meiri en flest vestræn ríki geta státað sig af. Samt er það svo, ólíkt því sem gerst hefur við fyrri uppsveiflur í efnahagslífinu, að lítið hefur dregið úr atvinnuleysi sem er enn allt of mikið. Atvinnuleysi hér á landi er út af fyrir sig ekki slæmt í samanburði við næstu nágrannalönd.  En það sem er verra er að atvinnuleysi ungs fólks hefur verið að aukast á milli ára. Sömu sögu er að segja af þeim sem teljast búa við langtímaatvinnuleysi. Sumir segja að ekki sé að marka tölur um atvinnuleysi. Einungis hluti þeirra sem eru á skrá séu í raunverulegri atvinnuleit. Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að eitthvað sé til í slíkum fullyrðingum er atvinnleysi samt of mikið. Það bendir til þess að þrátt fyrir batnandi afkomu hafa fyrirtæki ekki ráðið starfsmenn með sama hætti og áður. Því getur valdið aukin hagræðing og meiri framleiðni, eða að fyrirtæki séu að flytja framleiðsluna úr landi og þar með störfin. Og af því hafa verið sagðar fréttir í fjölmiðlunum. Öll þessi atriði valda áhyggjum og kalla á viðbrögð.

Eitt af stóru málunum sem eru til umfjöllunar í félagsmálaráðuneytinu um þessar mundir er endurskoðun laga um vinnumarkaðsaðgerðir og um atvinnuleysistryggingar. Bæði lögin eru frá árinu 1997. Endurskoðunin er í höndum nefndar sem skipuð var í sumar. Í henni eiga sæti fulltrúar heildarsamtaka á vinnumarkaði auk fulltrúa félagsmálaráðherra.

Markmiðið með endurskoðuninni er að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi sem og gæði vinnumarkaðsaðgerða ásamt því að auka skilvirkni almennt. Hlutverk nefndarinnar er einkum eftirfarandi:

að endurskoða stjórnskipulag atvinnuleysistryggingakerfisins með aukna skilvirkni að markmiði,

að endurskoða framkvæmd kerfisins, þar á meðal að skýra betur réttindi borgaranna til atvinnuleysistrygginga, svo sem skilyrði fyrir réttindum launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga, skráningu, tryggingatímabil, fjárhæðir, undanþáguheimildir og réttindi innan Evrópska efnahagssvæðisins,

að meta árangur vinnumarkaðsaðgerða frá árinu 1997 með hliðsjón af því hvort breytinga sé þörf á gildandi vinnumarkaðskerfi.

Ég vænti þess að tillögur endurskoðunarnefndarinnar liggi fyrir í byrjun næsta árs.

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Ég hef staldrað við þau málefni sem eru mér ofarlega í huga og hafa verið mikið í umræðunni í samfélaginu að undanförnu og læt hér við sitja.  Ég vona að þið eigið eftir að eiga árangursríkan fund um leið og ég óska Alþýðusambandinu velfarnaðar í störfum sínum í framtíðinni. Ennfremur  vil ég nota þetta tækifæri til að láta í ljósi þá von að framhald verði á góðu samstarfi sambandsins og félagsmálaráðuneytisins sem ég tel að hafi skilað góðum árangri fram til þessa.

Fleiri myndir frá fundinum:

 Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2004  Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2004   Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2004 
 Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2004  Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2004    
       




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum