Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. nóvember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 30. okt. - 5. nóvember

Rýmri réttur aldraðra til tannlækninga
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar sem felur í sér grundvallarbreytingu á niðurgreiðslu tannviðgerða aldraðra og öryrkja. Tryggingastofnunar ríkisins verður með öðrum orðum heimilt til að styrkja tilteknar tannviðgerðir aldraðra og öryrkja og tryggja þannig að þessir hópar geti valið bestu meðferð í tannlækningum. Heilbrigðisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið þegar hann hafði kynnti fyrirætlan sína: “Aðalatriðið er það að þetta á að auðvelda fólki að halda sínum tönnum með viðgerðum, þ.e. brúm og innplöntum. Þetta er fyrsta skrefið í því. Það er að vísu þak á þessum greiðslum því við erum að nýta það svigrúm sem við höfum í núverandi framlögum til tannlækninga.” Breytingin er í samræmi við Heilbrigðisáætlun til 2010, sem samþykkt var á Alþingi 2001.

Ferðakostnaðarreglur vegna tannréttinga
Heilbrigðismálaráðherra hefur ákveðið að setja reglugerð sem felur í sér að heimilt verður að greiða ferðakostnað vegna tannréttinga þegar íbúar tiltekins læknishéraðs eiga þess ekki kost að sækja sér þjónustu sérfræðings innan héraðs. Í breytingunni felst að greiddar eru tvær ferðir vegna heimsókna til tannréttinga. Tryggingaráð sem nú hefur verið lagt niður setti áður reglur um mál af þessu tagi og var ákvörðunarvaldið falið ráðherra sem setur reglugerð um það. Í þessu tilviki eru í reglugerðinni sambærilegar ferðakostnaðarreglur og reglur tryggingaráðs að því undanskildu að gert er ráð fyrir rýmkun á reglunum að því er varðar ferðakostnað vegna tannréttinga, eins og áður sagði.

Hjúkrunarþing 2004
Hjúkrunarþing var haldið í dag en þau eru haldin annað hvert ár. Með þinginu lauk formlegri dagskrá afmælisárs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem haldið er í tilefni þess að 85 ár eru liðin frá því að Félag íslenskra hjúkrunarkvenna var stofnað og tíu ára síðan hjúkrunarfræðingar sameinuðust í eitt félag. Fjölmenni sótti dagskrá hjúkrunarþingsins í dag. Í ávarpi sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flutti við þingsetningu, hvatti hann hjúkrunarfræðinga til að taka virkan þátt í umræðum um heilbrigðiskerfið og stefnumótun á sviði heilbrigðismála.
Ávarpið...

Málþing um skimun fyrir krabbameinum
Landlæknisembættið boðar til málþings um skimun fyrir krabbameinum fimmtudaginn 11. nóvember næstkomandi. kl. 13–16.30 í Norræna húsinu. Málþingið er einkum ætlað heilbrigðisstarfsfólki. Nánari upplýsingar ásamt dagskrá eru á heimasíðu landlæknisembættisins.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
05. nóvember 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum