Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. nóvember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 6. - 12. nóvember

Nýtt segulómtæki Landspítala – háskólasjúkrahúss
Nýju segulómtæki hefur verið komið fyrir í nýju húsnæði G álmu Landspítala – háskólasjúkrahúss (LSH) í Fossvogi. Tækið er af fullkomnustu gerð segulómtækja sem framleidd eru í heiminum í dag og verður eitt af mikilvægustu lækningatækjum LSH. Reiknað er með að tækið verði tekið í notkun í byrjun desember. Þess má einnig geta að nýtt segulómtæki sem keypt var fyrir myndgreiningardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hefur verið sett upp þar eftir langan undirbúning og breytingar á húsnæði.

Batnandi afkoma Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri
Tölur um rekstur og starfsemi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA) í janúar – september 3004 sýna batnandi afkomu, að því er fram kemur í samantekt framkvæmdastjóra fjármála og reksturs á heimasíðu sjúkrahússins. Útgjöld eru 0,9% lægri en gert var ráð fyrir í áætlun en miðað við fjárlög er þó halli í lok tímabilsins sem svarar 0,4% eða um 8 milljónir króna. Í samantektinni segir að rekstrarafkoma spítalans sé vel viðunandi í lok níu mánaða tímabils. ,,Reksturinn í heild er innan áætlunar og starfsemin svipuð því sem gert hafði verið ráð fyrir. Fjöldi sjúklinga hefur aukist um 53 eða rúmlega 1% en legudögum hefur fækkað um 820 eða 2.4%.  Skurðaðgerðum hefur fækkað um 120 og fæðingum hefur fækkað um 19.  Slysadeildarkomum hefur fjölgað um 224 eða 3.3%, almennar rannsóknir hafa aukist um 3.5% og nokkur aukning hefur orðið í vefjarannsóknum.”
Nánar...

 

4000 fermetrar bætast við húsakost Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Áætlað er að viðbygging við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi verði tekin í notkun í ársbyrjun 2007. Húsnæðið verður á tveimur hæðum. Á fyrstu hæð verður heilsugæslan til húsa. Á annarri hæð verður 26 rýma hjúkrunardeild fyrir aldraða sem mun leysa af hólmi gömlu hjúkrunardeildina sem nú er rekin á Ljósheimum. Í kjallara verður aðstaða fyrir sjúkra- og iðjuþjálfun. Stærð viðbyggingarinnar er um 4000 fermetrar. Kostnaður við þann áfanga verksins sem nú er hafinn er áætlaður tæpar 600 milljónir króna en heildarkostnaður er áætlaður rúmar 800 milljónir að meðtöldum hönnunarkostnaði, eftirliti og öðrum kostnaði sem til fellur við svo stórt verk. Fyrsta skóflustungan var tekin á Selfossi í gær. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flutti ávarp við það tækifæri og lýsti ánægju sinni með að verkið væri hafið.
pdf-takn Teikning af nýbyggingunni...

 

Áætlað að um 8 – 10% af heilbrigðisútgjöldum sé varið til forvarna
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið áætlar að árlega sé 8 – 10% af heilbrigðisútgjöldum varið til forvarna og að u.þ.b. 1/3 hluti þeirra renni til áfengis- og vímuefnaforvarna. Þetta er meðal þess sem fram kom í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á Alþingi við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um samræmda áfengisstefnu á Norðurlöndunum. Aðspurður sagðist ráðherra ekki telja ástæðu til þess að lækka áfengiskaupaaldur hér á landi til samræmis við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum við kaup á léttvíni og bjór. Yrði það hins vegar gert á næstu árum eða á næstunni yrði að sjálfsögðu gripið til aðgerða í fræðslumálum og forvörnum til að sporna við aukinni áfengisneyslu. Ráðherra gerði grein fyrir fundi heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda um áfengismál þar sem samþykkt var yfirlýsing um aukna samvinnu Norðurlandanna í þessum málaflokki, m.a. þess efnis að Evrópusambandslöndin verði hvatt til þess að hækka skattlagningu á áfengi í því skyni að draga úr neyslu og koma í veg fyrir misnotkun áfengis. Ráðherra svaraði einnig fyrirspurnum á Alþingi í vikunni um heilsugæslustöð á Raufarhöfn og um vinnutíma ungra lækna. Fyrirspyrjendur voru Kristján L. Möller og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmenn Samfylkingarinnar.
pdf-takn Samræmd áfengisstefna...

pdf-takn Heilsugæslustöð á Raufarhöfn...

pdf-takn Vinnutími ungra lækna...

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum