Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. desember 2004 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Niðurstöður úr PISA 2003- rannsókn á getu og færni nemenda í stærðfræði, lestri og náttúrufræði á vegum OECD

Meginniðurstöður PISA-rannsóknarinnar á frammistöðu 15 ára ungmenna í stærðfræði, lestri og náttúrufræði vegna íslenskra ungmenna.

Meginniðurstöður PISA-rannsóknarinnar á frammistöðu 15 ára ungmenna í stærðfræði, lestri og náttúrufræði vegna íslenskra ungmenna eru eftirfarandi:

  • Íslenskir nemendur standa sig betur í stærðfræði en áður hefur sést í jafnstórri rannsókn. Íslensk ungmenni eru í 10.-14. sæti miðað við allar OECD-þjóðir. Finnar eru með besta árangurinn af öllum þátttökuþjóðum en Ísland næstbesta árangur Norðurlandaþjóða.
  • Íslenskir nemendur eru vel ofan við meðaltal OECD í stærðfræði og við meðaltal í lestri og náttúrufræði.
  • Árangur íslenskra stúlkna vekur sérstaka athygli en þær eru í áttunda sæti borið saman við allar stúlkur í rannsókninni. Ísland er eina landið þar sem stúlkur eru verulega betri en piltar í stærðfræði við 15 ára aldur. 
  • Hvergi er minni munur á niðurstöðum milli einstakra skóla en á Íslandi.

Á sl. ári tók Ísland þátt í PISA 2003 rannsókninni á frammistöðu 15 ára ungmenna í stærðfræði, lestri og náttúrufræði. Þessi rannsókn er önnur sinnar tegundar, en fyrsta PISA rannsóknin var gerð árið 2000 og var í þeirri rannsókn lögð áhersla á lestur. Rannsóknin náði til alls 41 lands, þ.m.t. allra 30 aðildarríkja OECD. Í rannsókninni árið 2003 var lögð áhersla á stærðfræði hjá 15 ára nemendum. Reyndust íslenskir 15 ára nemendur vera við meðallag OECD landanna í lestri og náttúrufræði en rúmlega og marktækt yfir meðaltali í stærðfræði.

Það er afar ánægjulegt að íslenskir nemendur reyndust standa sig mun betur í stærðfræði en áður hefur sést í jafn stórri rannsókn. Ísland var í 10.-14. sæti miðað við allar OECD þjóðirnar og með lítið eitt betri árangur en Svíþjóð og Danmörk og verulega betri árangur en Noregur. Eins og í fyrri alþjóðlegum samanburðarrannsóknum reyndist Finnland standa sig allra þjóða best í stærðfræði, ásamt Hong-Kong, Kóreu og Hollandi.

Á Íslandi reyndist jafnframt vera tiltölulega lítill munur á milli skóla, raunar sá minnsti sem fram kom í allri rannsókninni. Rannsóknin sýndi hins vegar að á Íslandi er mjög sérstæður og raunar einstæður munur á piltum og stúlkum í stærðfræði. Hið almenna mynstur kynjamunar í stærðfræði hjá öllum þátttökuþjóðunum er að piltar eru nokkuð betri í stærðfræði en stúlkur, en Ísland er eina landið þar sem þessi munur snýst algerlega við, þannig að íslenskar stúlkur eru verulega betri í stærðfræði við 15 ára aldur en piltar.

Þegar þessi niðurstaða er skoðuð nánar og brotin niður eftir landshlutum, sést að þessi kynjamunur er mestur utan höfuðborgarsvæðisins þ.e. í dreifbýli landsins. Í Reykjavík og í nágrenni Reykjavíkur eru stúlkur lítið eitt betri í stærðfræði en piltar, en sá munur er ekki marktækur. Athygli vekur afar góð frammistaða stúlkna á landsbyggðinni. Á flestum öðrum stöðum á landinu en í Reykjavík og nágrenni eru stúlkur verulega betri í stærðfræði og er hinn óvenjulegi munur kynjanna á Íslandi í heild, fyrst og fremst vegna þessa mismunar landshluta.

Íslenskar stúlkur eru í áttunda sæti borið saman við allar stúlkur sem tóku þátt í rannsókninni, sem er verulega góð frammistaða, en íslenskir piltar eru í tuttugasta sæti borið saman við alla aðra pilta í rannsókninni, sem er nákvæmlega meðalframmistaða OECD landanna. Þar sem piltar í Reykjavík og nágrenni stóðu sig um það bil jafnvel og landsmeðaltal eða marktækt yfir meðaltali rannsóknarinnar allrar, er ljóst að piltar í dreifbýli hafa dregist aftur úr.

Námsmatsstofnun mun á næstunni gefa út ítarlegar skýrslur um niðurstöðurnar með áherslu á hinn sérstæða íslenska kynjamun þar sem fjallað verður m.a. um:

1. Lestur og náttúrufræði ásamt breytingum frá PISA 2000 til PISA 2003.

2. Tengsl frammistöðu við félagslegar og efnahagslegar breytur.

3. Námsvenjur og viðhorf til náms og skóla.

4. Tengsl eiginleika skóla og frammistöðu nemenda.

5. Frammistöðu í þrautalausnum, sem voru hluti PISA 2003 prófsins.

 

Viðbrögð við niðurstöðum skýrslunnar

Menntamálaráðuneytið telur niðurstöðuna sýna að jákvæð þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum í stærðfræðikennslu í grunnskólum landsins og fagnar góðri útkomu í PISA 2003. Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika að árangur af starfi í grunnskólum landsins fer batnandi í stærðfræði, en jafnframt að enn er óunnið verk við að bæta árangurinn frekar, sérstaklega hjá piltum í dreifbýlinu.

Rannsaka þarf nákvæmar hvers vegna árangur í stærðfræði virðist vera að batna og skoða ítarlega hvað gerðist í kjölfar TIMSS niðurstaðnanna sem að birtust eftir miðjan sl. áratug. Leita þarf skýringa á því hvers vegna strákar sýna ekki þá framför sem stúlkur sýna, en mikilvægt er að greina þær almennu ástæður sem þar liggja að baki og geta gefið vísbendingar um hvernig ná megi bættum árangri almennt og þá hugsanlega einnig í öðrum greinum.

Fyrir liggur að skýra þarf þann kynjamun sem fram kemur í rannsókninni, rannsaka betur hvað veldur honum og auka þarf skilning á þeim félagslegu og menntunarlegu þáttum sem hér geta verið að hafa áhrif.

 

Skýrslan í heild sinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum