Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. desember 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 3. - 10. desember 2004

Merck Sharp & Dome endurgreiða VIOXX að fullu
Lyfjafyrirtækið Merck Sharp & Dohme, framleiðandi VIOXX, hefur samþykkt að endurgreiða innkallað VIOXX að fullu. Þetta þýðir að lyfjafyrirtækið hefur bæði fallist á  að  endurgreiða  sjúklingum  hlut  þeirra  í  lyfjum, sem innkölluð hafa verið, og sömuleiðis hlut ríkisins.  Þetta á þó ekki við um samhliða innfluttar pakkningar af lyfjunum.

Lyfjafyrirtækið Merck Sharp & Dohme ákvað í lok september að taka frumlyfið rófecoxib  (Vioxx)  af  markaði  vegna of tíðra og hættulegra aukaverkana á æðar  í  hjarta  og  heila.  Miklar  umræður höfðu spunnist um aukaverkanir lyfsins austan hafs og vestan.

Fulltrúar  heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins  hafa  undanfarið  átt  í  viðræðum við forsvarsmenn Merck Sharp & Dohme  og  leiddu  þær viðræður til þess, eins og áður segir, að fyrirtækið féllst  á  að  endurgreiða  innkallað lyf að fullu. Ómögulegt er að segja á þessu stigi hve mikil endurgreiðslan verður vegna þessa lyfs.

Heilbrigðis-   og   tryggingamálaráðuneytið   hvetur   sjúklinga til að skila ónotuðum birgðum af VIOXX í það apótek sem afhenti lyfið  og fá endurgreiddan kostnað sinn. Þá  hvetur  heilbrigðis- og  tryggingamálaráðuneytið  til og ítrekar fyrri skoðun  sína  að  gætt  skuli  varkárni  við notkun annarra coxib-lyfja sem efnafræðilega eru náskyld rófecoxib og hafa enn markaðsleyfi hér á landi.


Framkvæmdastjórn WHO með fund í Reykjavík
Framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fundar þessa dagana í Reykjavík. Þetta er í fyrsta skipti sem framkvæmdastjórn WHO heldur fund hér á landi en Davíð Á. Gunnarsson ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu var kjörinn formaður framkvæmdastjórnarinnar fyrr á þessu ári. Davíð er fyrsti Íslendingurinn sem gegnir þessu starfi og jafnframt fyrsti Norðurlandabúinn sem kosinn er formaður framkvæmdastjórnarinnar í tæp fjörutíu ár. Meðal þeirra sem sóttu fundinn í Reykjavík er æðsti yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar dr. LEE Jong-wook en hann tók við starfi forstjóra stofnunarinnar á síðasta ári.

Fundurinn á Íslandi var lokaður öðrum en framkvæmdastjórn og starfsliði stofnunarinnar en á honum var fjallað um áhrif ólíkra þátta á lýðheilsu í heiminum á komandi árum. Um 70 manns komu hingað til lands í tengslum við fundinn en auk 32 fulltrúa í framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar voru það forstöðumenn svæðaskrifstofa, starfslið aðalskrifstofunnar í Genf, fyrirlesarar og túlkar.

Á meðan framkvæmdastjórn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar dvaldi hér á landi hitti hún Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði framkvæmdastjórnarfundinn í upphafi og í lok hans í dag, föstudag, var flutt ávarp Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er ein stærsta undirstofnun Sameinuðu þjóðanna en alls eiga 192 ríki aðild að stofnuninni. Markmið hennar er að stuðla að bættu heilbrigði þjóða heims. Meðal annars er stofnuninni ætlað að hafa eftirlit með hættulegum smitsjúkdómum á borð við bráðalungnabólgu og fuglaflensu og að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin rekur skrifstofur í mörgum fátækustu löndum heims og leggur sitt af mörkum við uppbyggingu og skipulagningu heilbrigðisþjónustu víða um lönd og tekst á við sjúkdóma sem þar eru landlægir.

Forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar dr. LEE Jong-wook. Hann er læknir að mennt og er frá Seoul í Kóreu. Hlutverk hans er að vinna að stefnumótun stofnunarinnar en hann hefur á umliðnum árum fengist við verkefni sem snúa að bólusetningum og ónæmisaðgerðum. Hann hefur meðal annars gegnt forystuhlutverki í baráttu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn berklum og ýmsum barnasjúkdómum sem hægt er að bregðast við með bólusetningu.

Heimsóknum til heilsugæslulækna fjölgar
Komum til lækna á heilsugæslustöðvunum í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ fjölgaði á árinu 2003 um 11.640, eða 7,3%.  Á fyrstu átta mánuðum þessa árs fjölgar komum enn í heilsugæslunni, eða um 16.788, ef miðað er við sama tímabil ároð áður. Aukningin losar 16 af hundraði. Þetta kom fram í svari Jón Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Jónínu Bjartmarz á Alþingi í vikunni.
pdf-takn Svar ráðherra...


Hagkvæmnissjónarmið réðu för
Hagkvæmnissjónarmið réðu því að samið var við rannsóknastofur Landspítala – háskólasjúkrahúss í stað þess að koma á fót rannsóknastofu heilsugæslunnar í Reykjavík. Þetta sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þegar hann svaraði fyrirspurn frá Ástu Möller um málið á Alþingi í vikunni. “Í þessu tilviki var það mat mitt að ná mætti meiri hagkvæmni með því að nýta umfram afkastagetu rannsóknastofa á Landspítala, en með því að bjóða út rannsóknirnar.  Þá taldi ég einnig að sú mikla reynsla og sérfræðiþekking sem fyrir hendi er á Landspítala ætti að tryggja betur gæði þjónustunnar.” Þetta kom fram í svari ráðherra til Ástu Möller.
pdf-takn Svar ráðherra...


Niðurgreiðslur vegna gleraugnakostnaðar barna
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, reiknar með að kostnaður hins opinbera ykist um tæplega 40 milljónir króna árlega yrði tekin ákvörðun um að greiða 70% af verði glerja fyrir öll börn innan 18 ára og styrkurinn væri greiddur annað hvert ár. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur á Alþingi í vikunni. Nú er varið tæpum 13 milljónum króna árlega til að greiða niður gleraugnakostnað barna.
pdf-takn Svar ráðherra...


Samkomulag um forkönnun varðandi upplýsingar um meðferð mænuskaðaðra
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, og Auður Guðjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur, undirrituðu í dag samkomulag um forkönnun upplýsinga um meðferð mænuskaða. Auður Guðjónsdóttir hefur undanfarin misseri beitt sér fyrir því að komið yrði á fót gagnabanka sem yrði eins konar þekkingarbrunnur í sambandi við rannsóknir og meðferð mænuskaðaðra og er samkomulagið sem gert var liður í þeirri viðleitni og það gert í framhaldi af niðurstöðu nefndar sem heilbrigðisráðherra skipaði um gagnabanka um mænuskaða í september 2003. Samkvæmt samkomulaginu er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við forkönnunina verði 4,2 milljónir króna.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum