Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. janúar 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Samstarf Lýðheilsustöðvar og sveitarfélaganna

Lýðheilsustöð og sveitarfélögin hafa tekið höndum saman í því skyni að fá börn til að hreyfa sig meira og að borða hollan mat. Of þung börn og sá heilsufarslegi vandi sem því fylgir er kveikjan að átaki stöðvarinnar og sveitarfélaganna.

Ofþyngd barna og unglinga er vaxandi vandamál í vestrænum löndum og sýna tölur að þar er Ísland síður en svo undanskilið – rannsóknir sýna að um 20% íslenskra barna eru yfir kjörþyngd.

 

Allt hefur áhrif, einkum við sjálf! eru einkunnarorð þróunarverkefnis sem Lýðheilsustöð (LHS) er að hefja í samvinnu við sveitarfélög í landinu. Verkefnið hefur það markmið að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á hreyfingu og góða næringu.

 

Lýðheilsustöð kemur að verkefninu með ráðgjöf og fræðslu og metur árangur verkefnisins á hverjum stað. Gerð verður könnun þar sem annars vegar verða kannaðir þættir sem snúa að skólastarfi og umhverfi barnsins og hins vegar þættir sem snúa að ungmennunum sjálfum, viðhorfum þeirra, hæfni og atferli.

 

Hvert sveitarfélag sem tekur þátt í verkefninu mótar stefnu og aðgerðaáætlun um aukna hreyfingu og bætta næringu barna í sinni heimabyggð, í samræmi við eigin þarfir og aðstæður. Því má gera ráð fyrir að verkefnin verði ólík, bæði hvað varðar nálgun og umfang. Á næstu mánuðum er ætlunin að kynna verkefnið frekar í sveitarfélögum.

 

www.lydheilsustod.is

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum