Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. janúar 2005 Dómsmálaráðuneytið

Aldrei hefur fleiri útlendingum verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur

Á síðasta ári var 637 útlendingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur og er það veruleg fjölgun frá árinu 2003. Auk þessara 637 útlendinga fengu jafnframt íslenskan ríkisborgararétt með þeim 182 börn þeirra, sem jafnframt er fjölgun frá síðustu árum.

Fréttatilkynning
3/2005

Á síðasta ári var 637 útlendingum veittur íslenskur ríkisborgararéttur og er það veruleg fjölgun frá árinu 2003 þegar 436 útlendingum var veittur ríkisborgararéttur og árinu 2002 þegar 364 útlendingum var veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Auk þessara 637 útlendinga fengu jafnframt íslenskan ríkisborgararétt með þeim 182 börn þeirra, sem jafnframt er fjölgun frá síðustu árum, en árið 2003 fengu 109 útlensk börn ríkisborgararétt með foreldri sínu og árið 2002 fengu 87 börn ríkisborgararétt með þeim hætti.

Af þessum 637 útlendingum fengu 594 ríkisborgararétt með bréfi frá dóms- og kirkjumálaráðherra en 43 fengu ríkisborgararétt með lögum frá alþingi. Árið 2003 veitti alþingi 27 útlendingum ríkisborgararétt og 17 árið 2002.

Flestir hinna 637 nýju Íslendinga eru fæddir í Póllandi, 108 alls. Í Sovétríkjunum sem voru eru 56 fæddir, frá Júgóslavíu fyrrverandi koma 52, frá Taílandi 49, Filipseyjum 45, Bandaríkjunum 25, Svíþjóð 20, Þýskalandi 17, Víetnam 16, Englandi 15 og Marokkó 12. Færri eru fæddir í öðrum löndum, en hinir nýju íslensku ríkisborgarar koma víða að, og má auk næstu nágrannalanda Íslands nefna lönd eins og Alsír, Angóla, Eþíópíu, Gambíu, Ghana, Kenýu, Líbanon, Mongólíu, Namibíu, Nígeríu, Pakistan, Senegal, Sierra Leone, Sri Lanka, Sýrland, Túnis, Trinidad og Tobago og Úganda.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,

18. janúar 2005.

Fjöldi veittra ríkisborgararéttinda 1990-2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum