Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. febrúar 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla um græðara lögð fram á Alþingi

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi skýrslu sína um græðara og starfsemi þeirra á Íslandi. Skýrslan er lokaskýrsla nefndar sem falið var að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og gera tillögur um hvernig koma skuli til móts við vaxandi umsvif á þessu sviði.

Nefndin skilaði áfangaskýrslu sem kynnt var á Alþingi í október 2003. Þar var gerð grein fyrir þeirri skoðun nefndarinnar að setja bæri starfsemi græðara ramma og koma á fót virku eftirliti með henni, til hagsbóta fyrir græðara og þá sem nýta sér þjónustu þeirra. Í kjölfar áfangaskýrslunnar hófst nefndin handa við að undirbúa frumvarp þessa efnis og lauk nefndin því starfi fyrir sitt leyti sl. haust. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í byrjun nóvember sl. og er nú til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd.

Í lokaskýrslu nefndarinnar sem nú hefur verið lögð fram á Alþingi er gerð grein fyrir stöðu græðara á Íslandi, fjallað um stöðu þeirra í öðrum löndum, sagt frá stefnumótun sem unnin hefur verið á þessu sviði á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, gerð grein fyrir könnunum hérlendum og erlendum á viðhorfum til græðara og notkun á þjónustu þeirra o.fl. Síðast en ekki síst koma þar fram tillögur nefndarinnar en í skýrslunni segir m.a.:

,,Nefnd um óhefðbundnar lækningar leggur á það áherslu að samhliða lagasetningu sé þörf á frekari stefnumótun á þessu sviði og aðgerðum til að móta slíka stefnu og framfylgja henni. Afla þarf aukinna upplýsinga um heilsutengda þjónustu græðara og auka þekkingu á starfsemi græðara meðal almennings, heilbrigðisstétta og heilbrigðisyfirvalda. Til þess þarf atbeina menntastofnana, heilbrigðisstofnana, heilbrigðisyfirvalda og vísinda- og fræðimanna."

Tillögur nefndarinnar lúta einmitt að stefnumótun og aðgerðum til að fylgja eftir slíkri stefnumótun og eru þeim gerð skil í V. hluta skýrslunnar.

Formaður nefndar um óhefðbundnar lækningar var Guðmundur Sigurðsson læknir en aðrir nefndarmenn voru: Ástríður Svava Magnúsdóttir heilsunuddari, Dagný E. Einarsdóttir hómópati, Einar Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Haraldur Ólafsson prófessor, Nanna Friðriksdóttir, lektor HÍ og hjúkrunarfræðingur LSH, Sólveig Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og Margrét Erlendsdóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu sem starfsmaður nefndarinnar.

Lokaskýrsla nefndarinnar...

 Frumvarp til laga um græðara...

 Áfangaskýrsla nefndarinnar...

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
2. febrúar 2004.

 

 

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum