Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. febrúar 2005 Innviðaráðuneytið

Tvöföldun Reykjanesbrautar verður senn að veruleika

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra tilkynnti í gærkvöldi að síðasti áfangi á tvöföldun Reykjanesbrautar yrði boðinn út í vor.

Síðasta sumar lauk fyrsta áfanga, eða 12,1 km., að tvöföldun Reykjanesbrautar. Eftir stendur að tvöfalda um 10,5 km. kafla og nemur áætlaður kostnaður við það tæpum tveimur milljörðum króna. Ákvörðun ráðherra nú felur í sér að þeir 10,5 km. sem eftir eru verða boðnir út í einu lagi, sem mun flýta verklokum svo um munar að því gefnu að hagstæð tilboð fáist í verkið.

Samgönguráðherra leggur áherslu á greiðar og öruggar samgöngur og er bætt umferðaröryggi fyrir landsmenn meginmarkmið ráðuneytisins á sviði umferðar- og vegamála. Aðgerðir samgönguráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Umferðarstofu miða að því að eftirfarandi mælikvarðar náist:

  • Fjöldi látinna í umferð á hverja 100.000 íbúa verði sambærilegur við það sem lægst gerist í heiminum árið 2016, mælt sem meðaltal 5 ára.
  • Fjöldi látinna og alvarlegra slasaðra lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2016.

Ákvörðunin sem nú liggur fyrir um tvöföldun Reykjanesbrautar er liður í því að fækka alvarlegum slysum og dauðaslysum í umferðinni og bæta þannig öryggi þeirra sem um vegina fara.

Í ræðu sinni í gærkvöld skoraði Sturla á Suðurnesjamenn að taka höndum saman um að tryggja umferðaröryggi, líkt og þeir hafa gert öryggi sjófarenda. Við sama tækifæri minnti ráðherrann á að hvert og eitt okkar verður að finna til ábyrgðar og vera minnug þess að hver er sinnar gæfu smiður í umferðinni.

Sjá ræðu Sturlu Böðvarsson.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum