Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsmálaráðherra leggur fram á Alþingi skýrslu um þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar

Í samræmi við stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) hefur félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, lagt fram á Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingin í Genf sem voru haldin árin 2001–2004. Á þeim árum sem skýrslan tekur til hefur Alþjóðavinnumálaþingið afgreitt tvær samþykktir, fern tilmæli og eina bókun. Auk þess hefur þingið samþykkt að afnema 15 eldri tilmæli sem þykja úrelt og ekki í takt við breyttar aðstæður. Skýrslan hefur að geyma skrá yfir þessi tilmæli.

Í skýrslu félagsmálaráðherra er birt samþykkt um öryggi og hollustu í landbúnaði nr. 184, sem var afgreidd á 89. Alþjóðvinnumálaþinginu árið 2001. Í samþykktinni er fjallað um skyldur aðildarríkjanna til að gæta þess að daglegur vinnutími og hvíldartími sé í samræmi við ákvæði laga og kjarasamninga. Einnig er að finna í samþykktinni ákvæði um að atvinnurekandi skuli gera áhættumat með tilliti til heilsu og öryggis landbúnaðarstarfsmanna. Enn fremur er kveðið á um rétt starfsmanna til upplýsinga um öryggis- og heilbrigðismál og samráðs við þá um öryggisráðstafanir á vinnustaðnum. Með samþykktinni um öryggi og hollustu í landbúnaði voru afgreidd tilmæli nr. 192. Samkvæmt þeim ber aðildarríkjunum m.a. að stofnsetja kerfi á landsvísu til að hafa eftirlit með öryggi og hollustuháttum í landbúnaði. Kerfið á að taka til bæði eftirlits með heilsu launafólks og aðstæðum í vinnuumhverfi þeirra. Stjórnvöld eiga að stuðla að því að fólk sem vinnur við landbúnað fái eigin öryggis- og heilsuþjónustu og koma á fót kerfi fyrir skráningu og aðvaranir um vinnuskaða og vinnutengda sjúkdóma. Stjórnvaldsaðgerðir eiga jafnframt að stuðla að því að efla öryggi og hollustuhætti í landbúnaði með námi og þjálfun til að mæta þörfum allra sem vinna í þessari atvinnugrein.

Á 90. Alþjóðavinnumálaþinginu 2002 voru samþykkt tilmæli nr. 193, um eflingu samvinnufélaga. Þau leysa af hólmi eldri tilmæli nr. 127 frá árinu 1966 um hlutverk samvinnufélaga í efnahags- og félagsþróun þróunarlanda. Þau tilmæli voru samin með sértækar þarfir þróunarlandanna í huga en hin nýju eru byggð á algildum viðmiðunum sem eiga við öll þjóðfélög. Alþjóðavinnumálaþingið 2002 afgreiddi enn fremur bókun við samþykkt nr. 155 frá 1981 um vinnuöryggi og heilsuvernd og tilmæli þar sem 22 ára skrá yfir atvinnusjúkdóma var uppfærð.

Samþykkt nr. 185, um persónuskírteini sjómanna, var afgreidd á Alþjóðavinnumálaþinginu 2003 og kemur í stað samþykktar ILO nr. 108 frá árinu 1958 um sama málefni. Nýja samþykktin gerir meiri kröfur en áður voru gerðar og henni er ætlað að tryggja sjómönnum nauðsynlegt ferðafrelsi og útgerðum athafnafrelsi á tímum hryðjuverka og ýmissa ferðahindrana.

Á tímum örra tæknibyltinga og breyttra atvinnuhátta er starfsþjálfun og símenntun lykilatriði. Þau málefni hafa reglulega komið til umfjöllunar á Alþjóðavinnumálaþinginu, síðast á þinginu 2004. Þingið samþykkti þá ný tilmæli um þetta efni nr. 195. Tilgangur tilmælanna er að móta leiðbeinandi viðmið fyrir ríki til að efla þjálfun og færni eftir efnahags- og félagslegum þörfum í hverju landi. Leitast á við að tryggja ævilanga símenntun á öllum þrepum menntakerfisins með fullorðna sem aðalmarkhóp.

Í viðauka við skýrsluna er birt greinargerð sem ríkisstjórn Íslands sendi alþjóðavinnumálaskrifstofunni í Genf í framhaldi af kæru Alþýðusambands Íslands vegna setningar laga nr. 34/2001 sem ætlað var að leysa kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna. Einnig er birt í heild niðurstaða nefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi í kærumálinu.

Skýrsla félagsmálaráðherra um 89., 90., 91. og 92. Alþjóðavinnumálaþingið í Genf (500KB, PDF)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum