Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. mars 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 5. - 11. mars

Átján bjóðendur í forvali um skipulagshönnun nýbyggingar LSH

Átján umsóknir bárust í forvali um skipulagshönnun vegna fyrirhugaðrar byggingar nýs spítala við Hringbraut. Boðað var til skipulagssamkeppninnar í janúar sl. og ákveðið að efna til forvals til að finna sérfræðingahópa sem vildu taka þátt í samkeppni um skipulag lóðarinnar við Hringbraut og undirbúning að byggingu nýs sjúkrahúss. Að baki umsæjkendunum átján eru sérfræðingahópar og fyrirtæki, jafnvel frá mörgum löndum. Á næstunni verða umsækjendurnir átján metnir og sjö valdir úr þeirra hópi til að taka þátt í framhaldi keppninnar. Á heimasíðu Ríkiskaupa má finna margvíslegar upplýsingar um keppnina, s.s. forvalsgögn, lista yfir umsækjendur, loftmyndir af svæðinu sem skipulagið snýst um o.fl.
www.rikiskaup.is...

Hjartaþræðingar á Akureyri

Verið er að kann hvort forsendur eru fyrir að gera hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, svaraði fyrirspurn um málið á Alþingi í vikunni. Í umræðum sem spunnust vegna fyrirspurnarinnar lagði ráðherra áherslu á að aðgerðirnar væru afar sérhæfðar, það þyrfti mikla reynslu til að gera aðgerðirnar og það yrði að tryggja að hjartasjúklingar fengju þjónustu af því tagi sem fyrir er veitt á Landspítala. Undirstrikaði ráðherra að málið væri í skoðun, það væri flókið og að engar ákvarðanir hefðu verið teknar.

Mikil fjölgun MÓSA sýkinga á síðustu árum

Níu einstaklingar greindust með MÓSA sýkingu (meþicillín ónæm Staphylococcus aureus) fyrstu tvo mánuði þessa árs sem eru fleiri en allt árið í fyrra. Flest tilfellin hafa greinst meðal sjúklinga og starfsmanna Landspítala – háskólasjúkrahúss en einnig hafa komið upp tilfelli á minni sjúkrahúsum utan Reykjavíkur og á öldrunarstofnunum. Sagt er frá þessu í nýútkomnum Farsóttafréttum sóttvarnalæknis. Þar kemur fram að til þessa hafi tekist með hörðum aðgerðum að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar á sjúkrastofnunum og þeirri baráttu þurfi að halda áfram. MÓSA smit er skráningarskylt og ber að tilkynna til sóttvarnalæknis. Í Farsóttafréttum er einnig fjallað um inflúensufaraldurinn sem loks er í rénun og einnig um RSV faraldurinn sem talinn er einn sá skæðasti sem herjað hefur á börn hér á landi á síðustu árum. Loks er í Farsóttafréttum fjallað um gíardíusýkingar á Íslandi frá árinu 2000 en þessi sýkingartegund hefur verið tilskynningaskyld frá í mars 2001.
Farsóttafréttir... (pdf.skjal)

Ráðið í stöðu lækningaforstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Óskar Reykdalsson hefur verið ráðinn lækningaforstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Staðan er ný og varð til við sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi 1. september sl. Lækningaforstjórinn er yfirmaður allrar læknisþjónustu stofnunarinnar. Hann mun jafnframt eiga setu í framkvæmdastjórn hennar.

Breytingar á lyfjalögum

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að tillögu Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, um að leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lyfjalögum og lögum um heilbrigðisþjónustu.

Frumvarpið felur í fyrsta lagi í sér breytingar vegna innleiðingar Evróputilskipana á sviði lyfjamála. Lagt er til að Lyfjastofnun verði falið það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi blóðbanka hvað varðar meðferð, geymslu og meðhöndlun blóðs og blóðafurða. Samhliða þessu er í frumvarpinu lagt til að það verði orðað í lögum um heilbrigðisþjónustu að Landspítali-háskólasjúkrahús starfræki blóðbanka sem hafi með höndum blóðbankaþjónustu á landsvísu. Lögð er til reglugerðarheimild til handa ráðherra til nánari útfærslu þessara ákvæða. Þá er lögð til ný skilgreining á lyfjahugtakinu og bætt við ákvæði um gildistíma, endurnýjun og niðurfellingu markaðsleyfa. Úrræði Lyfjastofnunar eru skýrar orðuð, þ.e. að Lyfjastofnun geti ekki bara afturkallað, heldur einnig ógilt, fellt niður tímabundið eða breytt markaðsleyfi. Einnig er lagt til að Lyfjastofnun geti heimilað tímabundna dreifingu lyfs án markaðsleyfis t.d. vegna sýkla eða eiturefna. Samkvæmt frumvarpinu mun sú skylda hvíla á aðila, sem flytur inn samhliða innflutt lyf, að tilkynna markaðsleyfishafa lyfsins og Lyfjastofnun um fyrirhugaðan innflutning. Áskilið er að Lyfjastofnun veiti leyfi til samhliða innflutnings lyfsins en gefi ekki út eiginlegt markaðsleyfi eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Lagt er til að þetta verði nánar útfært í reglugerð um samhliða innflutning lyfja.

Í öðru lagi eru lögð til sú breyting á álagningu lyfjaeftirlitsgjalda að gjaldið miðast við heildarsölu lyfja hér á landi en tekur ekki sölu utan hins innlenda markaðar. Þessar breytingar eru gerðar til að koma til móts við sjónarmið innlendra lyfjaframleiðenda þess efnis að gjaldtaka þessi sé orðin úr hófi vegna mikillar starfsemi þessara aðila erlendis. Einnig er lagt til að Lyfjastofnun verði heimilt að taka gjald fyrir útgáfu ýmissa vottorða fyrir lyfjafyriræki og vegna sérfræðilegrar ráðgjafar sem er umfram leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar samkvæmt stjórnsýslulögum.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
11. mars 2005



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum