Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. maí 2005 Innviðaráðuneytið

Breyting á námi og prófum vegna ökuréttinda

Samgönguráðuneytið óskar eftir viðbrögðum almennings og hagsmunaaðila á drögum að reglugerð sem breytir ákvæðum sem varða nám og próf til að öðlast ökuréttindi samkvæmt flokki C1 og D1

Í dag gætir misræmis í réttindum ökumanna með almenn ökuréttindi, það er réttindi í flokki B til að stjórna fólksbifreið, eftir því hvenær ökupróf var tekið. Einstaklingar sem fengu almenn ökuréttindi fyrir 1. mars 1988, öðluðust um leið réttindi til aka að hámarki 16 farþegum án gjaldtöku, það er réttindi í flokki D1 sbr. drög. Og einstaklingar sem fengu almenn ökuréttindi fyrir 1. júní 1993 öðluðust réttindi til að aka bifreið sem er skráð fyrir að hámarki 5 tonna farmi, það er réttindi í flokki C1 sbr. drög.

Reglugerðarbreytingin nú er tilkomin vegna aukinnar eftirspurnar ökumanna eftir stórum fjölskyldubílum, litlum sendibílum (skutlum) og pallbílum. Í dag þurfa ökumenn, sem fengið hafa almenn ökuréttindi eftir 1988, með fjölskyldu sem telur 8 eða fleiri fjölskyldumeðlimi aukin ökuréttindi vegna farþegafjölda. Að sama skapi er í dag krafist aukinna ökuréttinda, ökumanna sem fengið hafa almenn ökuréttindi eftir 1993, ef aka á bifreið sem er er þyngri en 3.500 kg., en það á við um marga litla sendibíla og pallbíla.

Tilgangur reglugerðarbreytingarinnar er að gera ökumönnum, sem að ofan greinir, kleift að öðlast réttindi í flokki C1 og D1 að loknu námi sem er ekki eins viðamikið og nám til meiraprófs, sem miðast við akstur vöru- og hópbifreiða.

Nú liggja fyrir námskrár vegna náms sem veitir réttindi til að stjórna ökutæki í flokki C1 og D1 til staðfestingar samgönguráðherra. Þessi réttindi henta þeim sem vilja fá réttindi til að aka bifreið sem er 7.500 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd eða bifreið fyrir að hámarki 16 farþega án þess að um sé að ræða fólks- eða vöruflutninga í atvinnuskyni. Í bréfi Umferðarstofu til ráðuneytisins um málið kemur fram að þess megi vænta að kostnaður verði töluvert minni við nám til að öðlast réttindi í flokki C1 en nám vegna réttinda C og D.

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um ökuskírteini nr. 501/1997 má nálgast hér (WORD-22KB)

Reglugerð um ökuskírteini nr. 501/1997 má nálgast hér, www.reglugerd.is

Drög að námsskrám til ökuréttinda í flokki C1 og D1 má nálgast hér (WORD-69KB) (WORD-162KB)

Ráðuneytið óskar eftir því að fá send viðbrögð við drögum að reglugerðarbreytingu send með tölvupósti á [email protected], eða bréflega til Samgönguráðuneytisins, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík. Tekið verður á móti álitum til 22. maí 2005.

Til nánari skýringa fylgir skilgreining á ökuréttindaflokkum hér að neðan.

Ökuréttindaflokkarnir C1, D1, C1E og D1E eru skilgreindir í 11. gr. reglugerðar um ökuskírteini (nr. 501/1997)

  • Undirflokkur C1: Ökutæki í flokki C með leyfðri heildarþyngd 7.500 kg eða minna.
  • Undirflokkur D1: Ökutæki í flokki D með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns.
  • Undirflokkur C1E: Ökutæki í flokki C með leyfðri heildarþyngd 7.500 kg eða minna (C1) með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, enda sé leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 12.000 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins.
  • Undirflokkur D1E: Ökutæki í flokki D með sæti fyrir 16 farþega eða færri auk ökumanns (D1) með tengdan eftirvagn/tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd, enda sé:
    a. leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 12.000 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins og
    b. eftirvagninn/tengitækið ekki notað til fólksflutninga.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum