Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. maí 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 30. apríl - 6. maí.

Lög um græðara samþykkt á Alþingi

Frumvarp til laga um græðara var samþykkt á Alþingi í vikunni. Markmið laganna er að ,,stuðla að gæðum heilsutengdrar þjónustu græðara og öryggi þeirra sem leita eftir slíkri þjónustu eða nýta sér hana.” Í þessu skyni verður komið á fót skráningarkerfi þar sem græðarar geta skráð sig að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem nánar verður kveðið á um í reglugerð. Græðurum verður ekki skylt að skrá sig heldur er það val hvers og eins. Skráningarkerfið verður í umsjá Bandalags íslenskra græðara. Nefnd um óhefðbundnar lækningar sem skipuð var af heilbrigðisráðherra og vann að undirbúningi frumvarpsins skilaði lokaskýrslu sinni í janúar sl. Þar má lesa nánar um tilurð frumvarpsins. Á heimasíðu Alþingis er hægt að skoða umræður um málið á Alþingi og nefndarálit heilbrigðis- og tryggingamálanefndar.
Sjá lokaskýrslu...

Meinatæknar heita nú lífeindafræðingar samkvæmt lagabreytingu

Samþykkt hefur verið á Alþingi breyting á lögum um meinatækna og breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu. Með þessu er komið til móts við óskir meinatækna um að
breyta starfsheiti þeirra úr meinatækni í lífeindafræðing. Þá hefur ákvæði um að þeir starfi á ábyrgð og undir handleiðslu sérfræðings verið fellt brott.
Sjá lögin...

Vaxandi notkun lyfja við athyglisbresti og ofvirkni hjá börnum

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra mun óska eftir því við landlækni og Miðstöð heilsuverndar barna að ,,skoða á breiðari grundvelli í samráði við sálfræðiþjónustu skóla og félagsþjónustu sveitarfélaga hvernig best verði brugðist við þeirri miklu aukningu á athyglisbresti og ofvirkni barna sem hér virðist hafa átt sér stað að undanförnu.” Þetta kom fram í svari ráðherrans við fyrirspurn um málið í vikunni. Í svarinu kemur fram að kostnaður hefur aukist töluvert umfram notkun lyfja og er það rakið til þess að um mitt árið 2003 kom á markaðinn nýtt langvirkt form methylphenidats sem var mun dýrara en það sem fyrir var. Notkunin færðist að mestu yfir á þetta form og jókst jafnframt til muna. Í svari ráðherra segir að notkunin á þessum lyfjum borin saman við notkun annarra þjóða veki áleitnar spurningar og því muni hann einnig beina því til landlæknis og Lyfjastofnunar ,,að kanna sérstaklega hvort eitthvað óeðlilegt sé á seyði varðandi kynningar, ávísanir og notkun methylphenidats.”

Efld geðheilbrigðisþjónusta á heilsugæslustöðvum

Landspítali – háskólasjúkrahús og fulltrúar heilsugæslunnar eru að hefja tilraunaverkefni með stuðningi heilbrigðisráðuneytisins til að efla geðheilbrigðisþjónustu inni á heilsugæslustöðvum. Hugmyndin er sú að með því að efla heilsugæsluna á þessu sviði sé unnt að grípa fyrr inní og aðstoða fólk þegar þess gerist þörf, en rannsóknir benda til að um þriðjungur þeirra sem leita til heilsugæslunnar glíma við þunglyndi, kvíða og aðra andlega vanlíðan.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
6. maí 2005.

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum