Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. maí 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Alþjóðaheilbrigðisþingið stendur nú í Genf

58. alþjóðaheilbrigðisþingið var sett í Genf í gær. Þingið sækja fulltrúar 192 þjóða sem aðild eiga að samtökunum. Davíð Á. Gunnarsson, formaður framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, flutti ræðu fyrir hönd stjórnarinnar og gerði grein fyrir áherslum hennar á liðnu starfsári. Davíð fjallaði sérstaklega um hörmungarnar sem urðu við Indlandshaf þegar flóðbylgja skall þar á í kjölfar neðansjávarjarðskjálfta annan í jólum, en hann setti fyrir stutt ráðstefnu um afleiðingar og uppbyggingu á flóðasvæðunum í Phuket fyrir hönd WHO.

Þremur ræðumönnum var boðið að ávarpa alþjóðaheilbrigðisþingið, Maumoon Abdul Gayoom, forseta Maldíveyja, Önnu Veneman, sem er nýr framkvæmdastjóri UNICEF, og Bill Gates, aðaleigandi Microsoft og annar stofnenda Bill og Melinda Gates sjóðsins sem lagt hefur drjúgt til heilbrigðismála. Bill Gates tilkynnti í ræðu sinni á þinginu að ákveðið hefði verið að auka framlög sjóðsins til verkefnisins “Grand Challenges” úr 200 í 450 milljónir bandaríkjadala. Þetta verkefni miðast við að styrkja heilbrigðisvísindamenn og hvetja til uppgötvana á heilbrigðissviði sem gagnast mega allri heimsbyggðinni.

Dr LEE Jong-wook, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (AHS/WHO), lagði í ræðu sinni sérstaka áherslu á að þjóðir heims stæðu frammi fyrir mikilli ógn þar sem væri fuglaflensa. Hann ítrekaði það sem hann hefur áður sagt að brýnt sé að vera á verði gagnvart flensunni og búa sig undir að hún gæti brotist út með þeim mögulegu ráðum sem menn kynnu best.

Ávarp Bill Gates: www.who.int/mediacentre/events/2005/wha58/gates/en/index.html

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum