Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra ávarpar viðskiptasendinefnd í Kína

Sigríður Anna Þórðardóttir flytur ávarp á íslensk-kínverskum viðskiptafundi í Sjanghæ
Sigríður Anna Þórðardóttir flytur ávarp á íslensk-kínverskum viðskiptafundi í Sjanghæ
  • Mikil tækifæri í viðskiptum við Kína
  • Þátttaka í undirritun risavaxins hitaveitusamnings
  • Ríkið skapi fyrirtækjum hagstætt viðskiptaumhverfi

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, flutti ávarp á fjölsóttum íslensk-kínverskum viðskiptafundi í Sjanghæ í gær, 19. maí 2005, sem haldinn var á vegum Útflutningsráðs og var meðal annars sóttur af íslenskri viðskiptasendinefnd og fulltrúum kínverskra fyrirtækja. Umhverfisráðherra sagðist telja mikil tækifæri fyrir hendi í viðskiptum á milli Íslands og Kína. Stjórnvöld gætu ýtt undir slík viðskipti, eins og sjá mætti á þeirri heimsókn sem nú stæði yfir í Kína, en minnti um leið á að það væri hlutverk fyrirtækjanna að finna tækifærin og nýta sér þau. Nokkur íslensk fyrirtæki hefðu kynnt samninga við kínversk fyrirtæki á síðustu dögum.Sigríður anna Þórðardóttir umhverfisráðherra tekur þátt í undirritun samnings milli íslenskra og kínverskra aðila um hitaveitu í Kína. Ljósm. Lárus Ingi Karlsson

Í þessu sambandi nefndi Sigríður Anna Þórðardóttir sérstaklega samning sem snertir umhverfismál og hún tók þátt í að undirrita í Beijing miðvikudaginn 18. þessa mánaðar. Samningurinn er á milli íslenskra orkufyrirtækja og Íslandsbanka annars vegar og kínversks fyrirtækis og Xianyang borgar hins vegar og felur í sér samvinnu um byggingu nýrrar hitaveitu í borginni. Samningurinn hljóðar upp á um 20 milljónir Bandaríkjadala og nær til hitaveitu fyrir 100.000-150.000 íbúa, með möguleika á stækkun upp í 400.000 íbúa, sem myndi gera hitaveituna þá stærstu í heimi. Sigríður Anna Þórðardóttir sagði að fyrir sig sem umhverfisráðherra hefði þessi samningur sérstaka þýðingu og væri frekari sönnun þess að íslensk umhverfisvæn tækni getur þróast út í verðmæta útflutningsvöru fyrir Ísland - bæði verðmæta í fjárhagslegum skilningi og með hliðsjón af umhverfinu.

Ráðherra lagði í lok ávarpsins áherslu á að þótt ríkisvaldið ætti ekki að keppa við einkafyrirtæki um viðskiptatækifæri, þá hefði ríkisvaldið hlutverki að gegna við að skapa fyrirtækjum hagstætt umhverfi til að eiga í viðskiptum. Af þeim sökum hlyti það að vera öllum sem hefðu áhuga á viðskiptum á milli Íslands og Kína sérstakt ánægjuefni að Ísland hafi nýlega undirritað viljayfirlýsingu um gerð fríverslunarsamnings við Kína. Ísland væri stolt af því að vera fyrsta Evrópuríkið sem gengi frá slíkri viljayfirlýsingu við Kína og að vonir væru bundnar við að metnaðarfullum fríverslunarsamningi verði lokið árið 2007.

Fréttatilkynning nr. 15/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum