Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra undirritar tvo samstarfssamninga í Kína.

Ljósm.  Lárus Ingi Karlsson
Undirritun samstarfssamnings á milli Kína og Íslands
  • Samningarnir eru á sviði jarðskjálftavár og umhverfisverndar
  • Tveir árangursríkir fundir með ráðherrum á sviði umhverfismála
  • Umhverfisráðherra segir íslenskum fyrirtækjum opnast ný tækifæri

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, hefur undirritað tvo samstarfssamninga á sviði umhverfismála við kínversk yfirvöld. Samningarnir voru undirritaðir hinn 17. maí 2005 í Beijing í Kína. Annar samningurinn er á sviði jarðskjálftavár og hinn á sviði umhverfisverndar.

"Þetta eru merkilegir samningar, sögulegir fyrir þær sakir að þetta eru fyrstu samstarfssamningar sem gerðir eru á milli Kína og Íslands á þessum sviðum. Samningarnir formfesta samstarf á milli landanna á tveimur sviðum, annars vegar aukið vísinda- og tæknisamstarf á sviði jarðskjálftaspár og -vöktunar og hins vegar aukið tæknilegt samstarf á sviði umhverfisverndar," segir Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra.

Í tengslum við samningagerðina átti umhverfisráðherra gagnlega fundi með tveimur kínverskum ráðherrum sem þessi mál heyra undir. Á fundinum með ráðherra jarðskjálftamála var rætt um rannsóknir landanna á því sviði og samstarfið framundan. Á fundinum var ákveðið að fyrsta heimsókn kínverskra vísindamanna til Íslands vegna samningsins skyldi verða í haust og að auki bauð umhverfisráðherra Íslands kínverska starfsbróður sínum í heimsókn til Íslands, en hún hefur ekki verið tímasett. Að loknum fundi ráðherranna var Sigríði Önnu Þórðardóttur kynnt jarðskjálftarannsóknastofnun Kína, en starfsmenn hennar eru tólf þúsund og þar eru stundaðar umfangsmiklar rannsóknir.

Í samningnum um samstarf á sviði jarðskjálfta segir að markmið hans sé að þróa samvinnu og miðla þekkingu á sviði jarðskjálfta, eldfjalla, jarðeðlisfræði, jarðskjálftaverkfræði og varna gegn jarðskjálftavá. Samstarfið mun meðal annars fela í sér að vísindamenn fari á milli landanna til rannsókna á vettvangi, sameiginlegar rannsóknir á þeim sviðum sem nefnd eru hér að framan, skipti á upplýsingum og gögnum á sviði jarðskjálfta og eldvirkni, sameiginlega skipulagningu á vinnufundum og fyrirlestrum.

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, bindur miklar vonir við að samningurinn muni skila bæði Íslendingum og Kínverjum miklum árangri á sviði jarðskjálftarannsókna. Vísindaþekking beggja landanna á þessu sviði sé mikil en hún sé að nokkru leyti á ólíkum sviðum og það auki ávinninginn af samstarfinu.

Ávinningur fyrir atvinnulífið

Í tengslum við samninginn á sviði umhverfisverndar átti umhverfisráðherra árangursríkan fund með umhverfisráðherra Kína þar sem ýmis mál voru til umræðu. Þar má nefna mengun sjávar frá landi, en alþjóðleg ráðstefna verður haldin í Kína haustið 2006 um það málefni. Umhverfisráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess fundar í ljósi vaxandi mengunar hafsins á flestum strandsvæðum heimsins og minnti á frumkvæði Íslands um varnir gegn mengun hafsins á alþjóðavettvangi. Þá ræddu ráðherrarnir um útblástur gróðurhúsalofttegunda í ljósi vaxandi orkuþarfar Kínverja og alþjóðlegar aðgerðir til að sporna gegn vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda. Ráðherrarnir lýstu báðir mikilli ánægju með samstarfssamning ríkjanna, sem þeir höfðu undirritað daginn áður. Á fundinum bauð umhverfisráðherra Íslands umhverfisráðherra Kína í heimsókn til Íslands til að kynna sér náttúru landsins og starf Íslendinga að umhverfismálum.

Í samningnum um samstarf á sviði umhverfisverndar eru nokkur atriði nefnd sérstaklega. Þau eru náttúruvernd og landgræðsla, meðhöndlun úrgangs, umhverfistækni á borð við endurnýjanlega orku, atvinnurekstur á umhverfissviði og umhverfisfræðsla og bætt vitund almennings um umhverfið. Samstarfið mun meðal annars fela í sér skipti á upplýsingum og gögnum á viðkomandi sviðum, heimsóknir fræðimanna á milli ríkjanna og sameiginlega skipulagningu á vísindaráðstefnum.

Um samninginn segir Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra: "Ég tel gildi samningsins ekki síst felast í nýjum tækifærum sem hann opnar íslenskum fyrirtækjum þó að hann sé gerður á milli stjórnvalda ríkjanna. Þetta á við um fjölda íslenskra fyrirtækja sem eru að hasla sér völl á þeim sviðum sem hann tekur til, svo sem sorphirðu, endurvinnslu, bættrar orkunýtingar og hreinnar orku. Augljóst er að Kínverjar standa frammi fyrir vaxandi viðfangsefnum á sviði umhverfismála og þurfa að tryggja að hinn mikli efnahagsvöxtur landsins fari fram í sem bestri sátt við umhverfið. Sjálfbær nýting auðlinda og nýting hreinnar tækni í iðnaði og orkuvinnslu eru lykilatriði sem kínversk stjórnvöld leggja nú aukna áherslu á."

Fréttatilkynning nr. 14/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum