Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. maí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnueftirlit ríkisins

Ársfundur Vinnueftirlits ríkisins 18. maí 2005
Ársfundur Vinnueftirlits ríkisins

Hljóðskrá (ræða ráðherra)Upptaka frá ræðu félagsmálaráðherra:
Vinnueftirlit ríkisins
(mp3-snið / 1MB)

Ágætu fundargestir, stjórn og forstjóri.

Meðal ánægjulegra verkefna ráðherra er að eiga samskipti við stofnanir ráðuneytisins, starfsfólk þess og stjórnendur. Heimsækja stofnanirnar, fylgjast með framgangi þeirra og verkefnum og aðferðum starfsmanna við að koma verkefnum í framkvæmd.

En hvert er hlutverk ráðuneyta gagnvart stofnunum? Hvert á það að vera og hvernig spila ráðuneyti og stofnanir best saman til þess að ná settum markmiðum?

Ég bý að því í starfi að hafa kynnst nokkrum ráðuneytum af eigin raun; iðnaðarráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, utanríkis­ráðuneyti og nú félagsmálaráðuneyti, sem er óneitanlega mjög fjölbreytt þegar litið er til verkefna og málefnasviða.

Ég hef fengið tækifæri til þess að fylgjast með og stundum taka þátt í breytingum sem orðið hafa í rekstri hins opinbera undanfarna áratugi, breytingum sem flestar ef ekki allar hafa skilað árangri, að því er varðar bæði rekstur og þjónustu.

Við, hvort sem um er að ræða stjórnmálamenn, embættismenn í ráðuneytum eða forsvarsmenn stofnana, eigum að vera sívakandi gagnvart nýjum tækifærum. Við eigum að fylgjast með því sem er að gerast í alþjóðaumhverfinu og hér á landi að því er varðar rekstur og þjónustu og tileinka okkur það besta hverju sinni.

Höfum við verið að standa okkur vel þegar á heildina er litið? Að vissu leyti getum við leyft okkur að svara því játandi en við vitum að hægt er að gera betur.

Ársfundur Vinnueftirlits ríkisins 18. maí 2005Það hefur til dæmis valdið mér nokkrum áhyggjum að útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu er mjög hátt á Íslandi í samanburði við önnur OECD lönd og hefur farið hlutfallslega hækkandi, sem er vissulega umhugsunarefni. Jafnframt sýna tölulegar upplýsingar frá OECD að Íslendingar eru neðstir í hópi 18 samanburðarþjóða innan OECD, þegar kemur að svigrúmi almennings til að velja mismunandi tegundir þjónustu, ef svo má að orði komast, á vegum hins opinbera.

Hvað segir þetta okkur? Að mínu mati fyrst og fremst að hér eru sóknarfæri. Getum við gert betur þannig að við höfum úr meiru að spila til menntamála og velferðarmála og uppbyggingar hvarvetna í þjóðfélaginu?

Getum við lækkað skatta enn frekar í framtíðinni og aukið þar með hlutfall ráðstöfunartekna fyrir fólkið og fjölskyldurnar í landinu og eflt hagkerfið okkar? Við verðum alltaf að hafa þetta í huga og við sem gefum kost á okkur í stjórnmálin eigum ekki að unna okkur friðar við að leita sem hagkvæmastra lausna til hagsbóta fyrir sem allra flesta.

Ég varpaði fram þeirri spurningu hér í upphafi hvert hlutverk ráðuneyta gagnvart stofnunum þess væri eða ætti að vera? Grundvallarþættirnir hljóta alltaf að vera annars vegar að móta stefnu í starfsemi stofnunarinnar sem hluta af stefnu ráðherra í hlutaðeigandi málaflokki og hins vegar að sinna almennum stjórnunar- og eftirlitsheimildum sínum. Öll fræðsla varðandi starfsemi opinberra stofnana hefur aukist mjög og stuðningur t.d. af hálfu fjármálaráðuneytisins við faglega stjórnun og ýmsar aðrar hliðar starfseminnar hefur aukist verulega á undanförnum árum.

Ársfundur Vinnueftirlits ríkisins 18. maí 2005Þá leyfi ég mér að fullyrða að samtök aðila á vinnumarkaði, svo sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands, hafa haft nokkuð að segja. Stjórn Vinnueftirlits ríkisins endurspeglar hið þríhliða fyrirkomulag sem hefur tíðkast við stefnumótun og framkvæmd sem tengist vinnumarkaðinum hér á landi sem og á hinum Norðurlöndunum. Reynslan af aðkomu aðila vinnumarkaðarins að stefnumótun á þessum sviðum hefur jafnan þótt góð og til dæmis er fyrirkomulagið sem nefnist “social dialougue” á vettvangi Evrópusambandsins einstakt. Það felur í sér að aðilar vinnumarkaðarins semja í raun stefnumótandi gerðir á sviði vinnuréttar og vinnuverndar og ef þeir ná samkomulagi þá mega stofnanir Evrópusambandsins ekki hrófla við einum stafkrók. Ég held því fram að góð samvinna þessara aðila við stjórnvöld geti verið gulls ígildi ef rétt og skynsamlega er á málum haldið og þar bera allir að sjálfsögðu ábyrgð, stjórnvöld og aðilarnir.

Á þessu ári er liðinn aldarfjórðungur frá setningu gildandi laga um vinnuvernd enda þótt ítrekað hafi verið gerðar breytingar á einstökum ákvæðum eða jafnvel köflum í lögunum. Umgjörð Vinnueftirlits ríkisins er byggð á lagagrundvelli sem á rætur sínar að rekja allt aftur til ársins 1980. Lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hafa að mínu mati gegnt hlutverki sínu vel í gegnum tíðina. Á sama hátt hefur ágæt sátt ríkt um starfsemi Vinnueftirlits ríkisins, stofnunin hefur þróast og dafnað, eflst og sífellt tekið við nýjum verkefnum.

Enda þótt ég viti að margir hafi hér haft áhrif þá vil ég að öðrum ólöstuðum leyfa mér að nefna sérstaklega forstjórann, Eyjólf Sæmundsson, sem vakir vel yfir hag stofnunarinnar og framgangi hennar í hvívetna. Þegar kemur að eftirfylgni og krafti standa honum fáir á sporði.

En okkur ber skylda til þess að huga að því hvort eitthvað megi bæta. Mér er kunnugt um að húsnæðið sem að stofnunin er í er að ýmsu leyti óhentugt fyrir starfsemina auk þess sem það uppfyllir ekki þær kröfur sem við gerum nú varðandi aðgengi fatlaðra. Félagsmála­ráðuneytinu ber, sem ráðuneyti málefna fatlaðra, að vera í forystu að því leyti og til þess verðum við að horfa. Ég er því miður ekki í þeirri aðstöðu að geta afhent ykkur pakkann með slaufu í dag en ég get hins vegar sagt ykkur að þetta er verið að fara yfir af fullri alvöru. Eitt af því sem verið er að skoða er hvort Vinnueftirlitið gæti hugsanlega samnýtt gott húsnæði með annarri stofnun okkar í félagsmálaráðuneytinu. Markmið með slíkri sambúð yrði þá að samnýta stærri rými eins og fundarsali og hugsanlega að einhverju leyti aðra sameiginlega þjónustu. Án þess að nokkuð hafi verið ákveðið þá er einn af þeim möguleikum sem ræddur hefur verið að Vinnumálastofnun og hluti starfsemi svæðisvinnumiðlunar gæti samnýtt húsnæði með öðrum.

Ég ítreka þó og undirstrika að þessi skoðun er á frumstigi og við munum stíga hvert skref í samvinnu við ykkur.

Ársfundur Vinnueftirlits ríkisins 18. maí 2005Í öðru lagi og ekki síður vil ég, með ykkar þátttöku, fara yfir sóknarfærin í starfsemi Vinnueftirlitsins út frá nýsköpun í ríkisrekstri og hvort ekki megi aðgreina stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar annars vegar og einstaka eftirlits- og fræðsluþætti hins vegar. Ég hef fylgst með því af áhuga hvernig þið hafið mótað ykkur stefnu fyrir árin 2005 – 2007 og tel að það sé til fyrirmyndar að gera svo. Eins og ég nefndi hér fyrr þá telur OECD út frá tilteknum mælikvörðum að Íslendingar séu neðstir í hópi 18 samanburðar­þjóða innan OECD þegar kemur að frelsi til að velja þjónustu sem hið opinbera fjármagnar. Belgar eru þar í efsta sæti og hin Norðurlöndin eru yfir meðallagi í þessari mælingu. Þetta bendir til þess að við þurfum að vera betur vakandi yfir tækifærum til þess að auka fjölbreytni í þjónustu.

Vinnueftirlit ríkisins er ein af mikilvægustu þjónustustofnunum okkar og snertir alla sem starfa á vinnumarkaði með einum eða öðrum hætti, jafnt launafólk sem atvinnurekendur. Félagsmála­ráðuneytið hefur markað þá stefnu að allar undirstofnanir ráðuneytisins sæti reglulega endurmati og endurskoðun á uppbyggingu og slík vinna er nú í gangi gagnvart fleiri stofnunum. Jafnframt erum við að yfirfara störf nefnda, ráða og stjórna með það að markmiði að efla skilvirkni og hagkvæmni.

Ég hef rætt við stjórnendur stofnunarinnar um nauðsyn þess að fara yfir öll hugsanleg sóknarfæri í starfsemi Vinnueftirlitsins í þessu efni. Ljóst er að alltaf má gera breytingar en við megum þó ekki leyfa okkur að fara í breytingar breytinganna vegna. Við skulum nálgast þetta verkefni í senn með opnum huga og af skynsemi og ég legg áherslu á að það verði unnið í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og starfsmenn og stjórn stofnunarinnar.

Ég hef á undanförnum árum orðið vitni að því hve mannauðurinn er mikill hjá Vinnueftirliti ríksins. Þar starfar margt afar vel menntað og hæfileikaríkt fólk og fólk með mikla starfsreynslu og þekkingu á sviði vinneftirlits og vinnuverndar auk fleiri sviða.  Ég hef fengið tækifæri til þess að hlýða á fræðandi erindi ykkar og ég veit að sú dagskrá sem hér fer á eftir verður þar engin undantekning.

Ég óska ykkur velfarnaðar í starfi og hlakka til þess að eiga við ykkur enn frekara samstarf í framtíðinni.  

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum