Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra hittir umhverfisverndaryfirvöld í Qingdao og Shandong

Magnús Jóhannesson og Sigríður Anna á fundi með umhverfisverndaryfirvöld í Qingdao
Magnús Jóhannesson og Sigríður Anna á fundi með umhverfisverndaryfirvöldum í Qingdao
  • Skýr vilji til samstarfs við fyrirtæki og stofnanir
  • Mikil tækifæri fyrir fyrirtæki á sviði umhverfisvænnar tækni
  • Áhugi á að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku, svo sem jarðvarma

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, átti í dag, laugardaginn 21. maí 2005, fund með fulltrúum yfirvalda umhverfismála í borginni Qingdao og héraðinu Shandong í Kína. Á fundinum kom fram skýr vilji heimamanna til samstarfs við Íslendinga á sviði umhverfismála, bæði á milli stofnana hins opinbera og ekki síður á milli fyrirtækja á þessu sviði.

Auk kynningar á aðstæðum í Shandong héraði, með áherslu á borgina Qingdao, voru möguleikar til samstarf á milli landanna á sviði umhverfismála til umræðu á fundinum. Þá var rætt um þau mál sem sérstaklega brenna á íbúum bæði í Shandong héraði og á Íslandi, svo sem mengun hafsins, en Qingdao er meðal stærstu hafnarborga í Kína og þar eru stundaðar veiðar og vinnsla sjávarfangs.

Umhverfisráðherra lagði á fundinum áherslu á sérþekkingu Íslendinga og íslenskra fyrirtækja á ýmsum sviðum umhverfismála, svo sem nýtingu jarðhita og meðferð úrgangs og endurvinnslu. Í máli heimamanna kom fram að í Kína væri stór markaður fyrir umhverfisvæna tækni og mikil tækifæri fyrir fyrirtæki á því sviði. Þá kom fram að í Shandong héraði væri mikill áhugi á nýtingu jarðhita, bætta meðhöndlun úrgangs og hreinsun frárennslis svo nokkuð sé nefnt.

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, sagði eftir fundinn: "Ég tel að þetta hafi verið mjög gagnlegur fundur og að umtalsverðir möguleikar séu á samvinnu Íslands og Qingdao og Shandong héraðs. Áhugi á umhverfismálum er mikill hér, sem sést meðal annars á því að Qingdao var valin fyrirmyndarborg í umhverfismálum í Kína árið 2000. Á fundinum kom fram að yfirvöld hafa mikinn áhuga á að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku og var jarðvarmi sérstaklega nefndur í því sambandi. Ég benti þeim á að Íslendingar væru brautryðjendur í heiminum á þessu sviði og að þar væru augljósir möguleikar á árangursríkri samvinnu, auk þess sem á Íslandi væri starfandi Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna

Einnig var ánægjulegt að heyra að greinilegur áhugi er á samvinnu um verndun hafsins og rannsókna á því sviði. Á fundinum kom fram að hér í Qingdao er bæði sjávarútvegsháskóli Kína og hafrannsóknastofnun Kína, þannig að mér þykir augljóst að hér á þessu svæði eru miklir möguleikar á samvinnu á milli Íslands og Kína. Þetta á jafnt við um fyrirtæki, háskóla og stofnanir hins opinbera og ég mun koma skilaboðum um þetta á framfæri við viðkomandi aðila þegar ég kem heim. Þess má raunar geta að samvinna er þegar til staðar, því að hér í Qingdao er starfandi fiskvinnslufyrirtæki í eigu Íslendinga auk þess sem ég var í dag viðstödd undirritun samnings um frystigeymslu á milli fyrirtækisins Atlantis, sem er í eigu Íslendinga, og kínverskra aðila."

 

Fréttatilkynning nr. 16/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum