Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Útskrift úr Stóriðjuskólanum 30. maí 2005

Ávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra

 

Forstjóri Alcan á Íslandi, Rannveig Rist,

ágætu starfsmenn, nemendur og kennarar Stóriðjuskólans.

Það er einstök ánægja fyrir mig sem umhverfisráðherra að fá að vera með ykkur hér í dag við útskrift Stóriðjuskólans.

Þetta fyrirtæki hefur í gengum tíðina verið í fararbroddi hér á landi í umhverfismálum. Starfsemin hefur jafnan einkennst af snyrtimennsku, framsýni og metnaði. Staðreyndirnar í þessum efnum tala sínu máli.

Ísal var fyrsta fyrirtækið hér á landi til að taka upp umhverfisstjórnun samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 14001 og hér hafa menn fært grænt bókhald mun lengur en reglugerðir kveða á um. Umhverfisráðuneytið veitti fyrirtækinu umhverfisverðlaunin Kuðunginn fyrir árið 2000 en þau eru veitt þeim fyrirtækjum sem skara fram úr í umhverfismálum. Strangur mælikvarði er lagður á starfsemi þeirra fyrirtækja sem til greina koma til þeirrar viðurkenningar hverju sinni.

Hér er allt til fyrirmyndar hvort sem litið er til mengunarvarnarbúnaðar, flokkunar úrgangsefna, endurvinnslu og endurnýtingar, hreinsunar frárennslis og ótal annarra þátta sem snerta umhverfið. Einnig hafa styrkveitingar Alcan í Straumsvík til náttúruverndar og umhverfisrannsókna komið að góðu gagni og bætt ýmsu við þekkingu okkar á gróðri og lífríki landsins okkar.

Í gærkvöldi hlustaði ég á fréttir um frábæran árangur ykkar í öryggismálum, þar sem fram kom að í rúmlega eitt ár hefði ekki orðið slys sem olli fjarvistum á þessum 500 manna vinnustað. Að baki slíkum árangri liggur þrotlaus vinna sem byggir fyrst og fremst á því að sérhver starfsmaður sé meðvitaður um hvað þarf til í stóru og smáu til að fyllsta öryggis sé gætt.

Ákvörðun ykkar um að leggja sérstaka áherslu á umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismál er til fyrirmyndar og þessi góði árangur sem þið hafið þegar náð í öryggismálum sýnir svo sannarlega hvað hægt er að gera þegar saman fer vilji og metnaður til að gera enn betur í þessum efnum með því að rækta með sér það viðhorf og hugarfar sem til þarf og sameinast sem einn maður til að ná tilætluðum árangri.

Vægi umhverfismála er vaxandi í þjóðmálaumræðu á Íslandi. Augljóst er að þau eiga eftir að fá enn meiri athygli á næstu árum. Menn gera sér æ betur grein fyrir því hve samofin umhverfismál og velferðarmál eru. Velgengni fyrirtækja og samkeppnisstaða ræðst í auknum mæli af því hversu vel þau hugsa um umhverfisáhrif starfseminnar og við erum sífellt að sjá betur að ástand umhverfismála er vaxandi áhrifaþáttur á rekstur og útgjöld samfélagins.

Þegar staða okkar Íslendinga í umhverfismálum er borin saman við stöðu margra annarra vestrænna þjóða, blasir við að við erum um margt í öfundsverðri stöðu. Hér er hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins það hæsta sem þekkist, mengun er tiltölulega lítil og í landinu er að finna einstaka náttúru og víðerni fjarri byggð sem nútímamaðurinn sækir í vaxandi mæli til afþreyingar. Þessa stöðu ber okkur að nýta bæði til að styrkja samkeppnisstöðu landsins í framtíðinni en um leið sýna öðrum þjóðum fordæmi í umhverfisvernd og framkvæmd sjálfbærrar þróunar.

Við lifum á spennandi tímum um þessar mundir. Hlutirnir gerast svo hratt að við megum hafa okkur öll við að fylgjast með því sem er að gerast í kringum okkur og tileinka okkur allar þær nýjungar sem tæknin færir okkur. Það sem er nýtt í dag er úrelt á morgun. Ný öld er gengin í garð. Nýr tími með breyttum viðhorfum og öðruvísi viðfangsefnum.

Það er liðin tíð að hægt sé að mennta sig til ákveðinna starfa í eitt skipti fyrir öll. Endurmenntun og símenntun er krafa dagsins í dag. Góð menntun og fagþekking starfsfólks er auður hvers fyrirtækis og skiptir sköpum um velgengni og árangur. Í harðri alþjóðlegri samkeppni nútímans er hvassasta vopnið "góð menntun". Menntun er að gera hlutina vel. Menntun er að búa yfir þekkingu til allra verka. Menntun er þroskaferli einstaklingsins sem hjálpar honum að rækta hæfileika sína og þjálfa hug og hönd til nýtilegra starfa og styrkja þannig sjálfsmynd sína og lífshamingju.

Á þessu ári eru sjö ár frá því Stóriðjuskólinn var stofnaður. Það var mikið gæfuspor ekki eingöngu fyrir starfsmenn þessa fyrirtækis heldur skapaðist um leið nýr möguleiki til menntunar hér á landi. Á þessum skamma tíma hefur skólanum vaxið hratt ásmegin. Hann hefur skapað sér virðingu með markvissum og skapandi vinnubrögðum. Eitt gleggsta dæmið um það er að skólinn hlaut Starfsmenntaverðlaunin árið 2000 sem veitt eru af Starfsmenntaráði og Mennt. Einnig hlaut námsefni skólans og námskrá viðurkenningu menntamálaráðuneytisins árið 2002 sem hluti af námsefni framhaldsskóla og nú stendur yfir endurskoðun á námskrá grunnnámsins í skólanum sem væntanlega verður lokið fyrir haustið. Ég óska ykkur til hamingju með þennan frábæra árangur, þar sem höfuðáhersla er lögð á hæfni, þekkingu og þjálfun starfsfólksins. Góð menntun, starfsánægja, sjálfstraust, samvinna og heiðarleiki í öllum samskiptum leggja grunninn að góðum vinnustað.

Ég átti því láni að fagna að stunda nám í M.A. þar sem var úrval góðra kennara undir forystu hins merka skólameistara og hugsuðar Þórarins Björnssonar.

Vorið 1964 velti hann í útskriftarræðu fyrir sér stöðu íslensku þjóðarinnar á 20 ára lýðveldisafmæli og sagði m.a.:

" Það hlýtur að kosta þrotlaust stríð fyrir svo fámenna þjóð að halda uppi efnalegu og andlegu sjálfstæði. Þess vegna er það engum meira virði en okkur Íslendingum að hver einstaklingur vinni vel og nýti orku sína. Einstaklingur á Íslandi er því meira virði en víðast eða alls staðar annars staðar. Það er einn meginkostur þess að vera Íslendingur. En slíkt leggur einstaklingunum auknar skyldur á herðar og heimtar meira af honum."

Kæru nemendur. Þið eruð að vinna í þessum anda sjálfum ykkur og samfélaginu til heilla og farsældar.

Ég óska ykkur öllum hjartanlega til hamingju með daginn og velfarnaðar í störfum ykkar í framtíðinni.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum