Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. júní 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Flóttafólk frá Suður Ameríku og lýðveldum fyrrum Júgóslavíu

Að tillögu félagsmálaráðherra samþykkti ríkisstjórnin í gær að tekið verði á móti flóttafólki frá Suður Ameríku og lýðveldum fyrrum Júgóslavíu á árinu 2005.

Flóttamannaráð hefur lagt til við félagsmálaráðherra að tekið verði á móti u.þ.b. 30 flóttamönnum hingað til lands á árinu 2005.

Flóttamannaráðið hefur leitað til UNCHR (Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna) varðandi val á fólki. Í samræmi við áherslur Flóttamannastofnunarinnar og mat Flóttamannaráðs á getu Íslands til að koma til móts við þarfir flóttamannanna leggur ráðið til að tekið verði á móti konum og börnum úr verkefninu "Women-at-risk". Þetta verkefni snýst um að hjálpa einstæðum mæðrum og einhleypum konum og fjölskyldum þeirra til að setjast að í nýju landi. Fram kemur í gögnum Flóttamannastofnunarinnar að konurnar í Suður Ameríku hafa bæði þurft að sæta ofsóknum og ofbeldi. Dvalarlandið getur ekki veitt þeim nauðsynlega vernd. Með dvalarlandi er átt við það land þar sem konurnar og börnin dvelja nú, og hafa fengið flóttamannastatus sbr. skilgreiningu Sameinuðu þjóðanna.

Að höfðu samráði við UNCHR mælir flóttamannaráð með að tekið verði á móti flóttamönnum sem falla undir verkefnið "Women-at-risk" frá Suður Ameríku og flóttafólki frá lýðveldum fyrrum Júgóslavíu.

Íslensk stjórnvöld í samráði við Rauða kross Íslands undirbúa komu og móttöku flóttamannanna og er miðað við að fólkið komi hingað til lands í ágúst nk.

Fyrstu flóttamannahóparnir komu til Íslands árið 1956 frá Ungverjalandi. Síðan komu hópar árin 1959, 1979, 1982, 1990 og 1991. Tekið hefur verið á móti flóttamönnum á ári hverju frá árinu 1996, en ekki var tekið á móti flóttafólki árin 2002 og 2004.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum