Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. júní 2005 Forsætisráðuneytið

Erindi kvennahreyfingarinnar á ráðstefnu 11. júní

Kvennahreyfingin - erindi flutt á ráðstefnu stjórnarskrárnefndar 11. júní 2005

Virðulega samkoma,

Mig langar til að byrja á því að fagna frumkvæði stjórnarskrárnefndar að bjóða upp á samræður við frjáls félagasamtök um breytingar á stjórnarskránni. Hin lýðræðislegu vinnubrögð sem nefndin hefur viðhaft í störfum sínum eru til fyrirmyndar og er vonandi að þeim verði áfram haldið.

Þegar í ljós kom að ferlið við endurskoðun stjórnarskrárinnar var hafið fundu margar konur löngun og þörf til að hafa áhrif, enda mun nú vera í fyrsta sinn sem konur hafa tækifæri til að taka beinan þátt í mótun stjórnarskrár okkar. Það varð úr að fjöldi kvenna í hinum ýmsu samtökum og félögum, auk áhugasamra einstaklinga, komu saman til viðræðna um hvar brýnast væri að bæta úr til að tryggja öryggi og jafnrétti í íslensku samfélagi. Tillögurnar sem hér verða kynntar byggja á þeirri grundvallarhugmynd að konur og karlar skulu hafa jöfn tækifæri til að móta og stjórna samfélaginu. Þær byggja á þeirri staðreynd að jafnrétti ríkir ekki í reynd og að á ríkinu hvíli jákvæð skylda að leiðrétta misréttið. Sömuleiðis leggjum við áherslu á að allir borgarar, konur sem karlar, skulu örugg á opinberum vettvangi sem í einkalífinu og að stjórnvöld hafi þar ákveðnum skyldum að gegna. Tillögur okkar byggja á fordæmum annarra ríkja sem og sáttmálum og skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir.

Í fyrsta lagi leggjum við áherslu á mikilvægi þess að konur og karlar taki jafnan þátt í mótun og stjórnun samfélagsins - sem kynin tvö byggja jú saman. Það er hvorki eðlilegt né rétt að annað kynið sé í ráðandi meirihluta þegar teknar eru ákvarðanir er varða samfélagið allt.

Því leggjum við til að við 31. grein stjórnarskrárinnar, sem fjallar um fjölda þingmanna og kosningu þeirra, bætist við setning um að nánar verði kveðið á um í almennum lögum hvernig náð skuli sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á þingi. Tillögu þessari til stuðnings ber fyrst að nefna Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna en einnig má vísa í tilmæli Evrópuráðsins og stjórnarskrár Frakklands, Belgíu og Slóveníu.

Einnig viljum við leggja til að við 59. grein stjórnarskrárinnar, þar sem fjallað er um skipan dómsvaldsins, verði sambærilegri setningu bætt við, þ.e. að með almennum lögum skuli mælt fyrir um hvernig náð skuli sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla meðal dómenda. Því til stuðnings er nærtækt að vísa til Rómarsáttmálans og stjórnarskrár Suður-Afríku.

Í öðru lagi leggjum við áherslu á að viðurkenna þurfi jákvæðar skyldur ríkisvaldsins til að tryggja jafnrétti í reynd. Með undirritun og fullgildingu Kvennasáttmálans skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að afnema mismunun gegn konum og tryggja þeim jöfn réttindi og tækifæri á við karlmenn. Jákvæðar skyldur stjórnvalda til að tryggja jafnrétti hafa verið staðfestar í fjölda stjórnarskráa og má þar til að mynda nefna þá finnsku, þýsku, austurrísku, kólumbísku og grísku. Sú síðasttalda var endurskoðuð árið 2001 og náðist þar sá markverði árangur að ekki einungis er fjallað um jákvæðar skyldur stjórnvalda um að tryggja jafnrétti heldur beinlínis aðgerðaskyldu stjórnvalda til að afnema misrétti, sérstaklega gagnvart konum.

Við leggjum til að við 2 mgr. 65. greinar stjórnarskrárinnar, þar sem kveðið er á um jafnan rétt karla og kvenna, verði bætt við setningu um athafnaskyldur stjórnvalda til að ábyrgjast jafnrétti í reynd.

Í þriðja lagi teljum við nauðsynlegt að fjallað sé um öryggi borgaranna á víðari hátt en nú er, með sérstakri hliðsjón af kynbundnu ofbeldi. Ég þarf ekki að rekja hér sérstöðu kynbundins ofbeldis, við vitum öll að aðgerða er þörf. Því leggjum við til að bætt verði inn í mannréttindakaflann, t.d. við 71. grein, sem fjallar um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, setningu sem kveður á um að allir skuli njóta verndar og öryggis gegn ofbeldi á opinberum vettvangi sem og í einkalífi og að allir skuli njóta líkamlegs sjálfsforræðis. Þessum tillögum til stuðnings má meðal annars vísa í Yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gagnvart konum og stjórnarskrár Kólumbíu og Suður-Afríku.

Að lokum viljum við hér í dag veita stuðning okkar tillögum ýmissa annarra aðila um mikilvægi þess að mannréttindi barna, samkynhneigðra, öryrkja og einstaklinga óháð aldri verði tryggð.

Hér að ofan hef ég kynnt í grófum atriðum þær hugmyndir sem við viljum leggja áherslu á. Þær eru afrakstur samræðna ólíkra kvenna, jafnt leikmanna sem lögmanna, og verða á næstunni fullmótaðar í ítarlegri greinargerð sem send verður stjórnarskrárnefndinni.

Ég þakka hljóðið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum