Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. júlí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra heimilar veiðar á rjúpu í haust

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra hefur ákveðið að heimila veiðar á rjúpu nú í haust. Þetta er gert með vísun til breyttra laga um stjórnun fuglaveiða og niðurstöðu rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands síðast liðið vor, þar sem fram kemur að rjúpnastofninn hafi meira en þrefaldast á tveimur árum. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum veita stjórnvöldum aukið svigrúm til að stýra veiðum og tryggja að þær verði sjálfbærar. Í þeim reglum sem settar verða um veiðar í haust mun ráðherra leggja áherslu á að tryggt verði að nýting rjúpnastofnsins verði í samræmi við afkastagetu hans.

Ráðherra hefur í samræmi við lög nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, óskað eftir áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli rjúpnastofnsins og tillögum Umhverfisstofnunar um stjórn og framkvæmd veiðanna. Ráðherra mun einnig hafa samráð við Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skotveiðifélag Íslands og Fuglaverndarfélagið um framkvæmdina. Reglugerð um veiðarnar verður sett um mánaðamótin ágúst/september næst komandi.

Fréttatilkynning nr. 23/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum