Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. ágúst 2005 Forsætisráðuneytið

Erindi frá sveitarstjóra Reykhólahrepps

Stjórnarskrárnefnd
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
150 Reykjavík

Efni: Endurskoðun stjórnarskrárinnar

Ágæti Páll!

Af sérstökum ástæðum hefur talsvert verið rætt hér í sveit um skort á löggæslu. Þannig háttar til að okkur er þjónað frá lögreglustöðinni á Patreksfirði sem er í 200 km fjarlægð. Það mun vera einsdæmi á Íslandi að þéttbýlisstað (sem Reykhólar verða held ég að teljast) sé þjónað frá lögreglustöð sem er svona langt í burtu, fyrir nú utan að um erfiðan veg er að fara.

Tvær aðrar lögreglustöðvar eru nær, þ.e. á Hólmavík og í Búðardal. Á Hólmavík eru tveir lögreglumenn en vegtengingu vantar við Hólmavík.  Sæmilegt vegasamband er við Búðardal en þar er einungis einn lögregluþjónn og er Dalasýsla reyndar eina sýslumannsumdæmi landsins sem einungis hefur einn lögregluþjón.

Í framhaldi af þessu fór ég að kynna mér hvort einhvers staðar væri að finna ákvæði í stjórnarskrá eða lögreglulögum um rétt almennings til að löggæslu sé haldið uppi í öllum sveitarfélögum landsins.  Ekki tókst mér að finna slík ákvæði.  Í lögreglulögum kemur einungis fram að ríkið haldi uppi starfsemi lögreglu og hvert hlutverk lögreglunnar er (1.gr. laga nr. 90/1996).

Ég leyfi mér því að varpa því fram til umhugsunar fyrir stjórnarskrárnefnd, hvort réttur almennings til að löggæslu sé haldið uppi í öllum sveitarfélögum landsins teljist ekki til mannréttinda sem jafnvel sé rétt að geta í stjórnarskrá.

Við erum nú að hefja viðræður við dómsmálaráðherra um úrbætur í löggæslumálum hér.  Það myndi auðvitað styrkja stöðu okkar ef einhvers staðar í löggjöf eða stjórnarskrá væri fjallað um rétt almennings til þjónustu lögreglu, en ákvæði um þetta virðist því miður vanta.

Virðingarfyllst,

Reykhólum  12. ágúst 2005

Einar Örn Thorlacius
sveitarstjóri Reykhólahrepps
[email protected]

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum