Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. ágúst 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni

Samningar um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni voru undirritaðir á Ísafirði í dag. Landspítali – háskólasjúkrahús gerir samningana við Heilbrigðisstofnun Ísafjarðabæjar, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilsugæsluna í Reykjavík.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, staðfesti samninginn og var hann viðstaddur undirritunina á Ísafirði í dag, en hann er liður í og í samræmi við þá stefnu ráðherra að efla sálfræðiþjónustu í grunnþjónustu heilsugæslunnar. Samningurinn er gerður í tilraunaskyni og gildir hann í tvö ár og styrkir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið verkefnið með 24 milljóna króna framlagi á samningstímanum sem er tvö ár.

Markmið samningsins er að efla sérhæfða sálfræðiþjónustu innan heilsugæslunnar og fjölga úrræðum fyrir sjúklinga með geðraskanir. Þá er markmið samningsins að auka þekkingu heilbrigðisstarfsfólks heilsugæslunnar á heilbrigðisvanda af geðrænum toga annars vegar og hugrænni atferlismeðferð hins vegar, með fræðslufundum. Með samningnum er einnig ætlunin að styrkja samstarf á milli viðkomandi heilsugæslustöðva og geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss með það í huga að bæta þjónustu við geðsjúka og fyrirbyggja afleiðingar geðsjúkdóma, s.s. skerðingu á lífsgæðum og vinnugetu, einangrun, sjálfsvígstilraunir og sjálfsvíg.

Þjónustan sem Landspítali – háskólasjúkrahús veitir er tvenns konar. Í fyrsta lagi tekur spítalinn að sér að veita sálfræðiþjónustu með hugrænni atferlismeðferð á heilsugæslustöðvum. Meðferðin felst í því að bjóða sjúklingum upp á hópmeðferð við kvíða og þunglyndi, með 15 til 25 sjúklinga í hópi, frá 1. september 2005. Í öðru lagi munu starfsmenn spítalans halda námskeið fyrir heilbrigðisstarfsmenn á heilsugæslustöðvunum um úrræði vegna heilbrigðisvanda af geðrænum toga og hugræna atferlismeðferð.

Hjálagt upplýsingarit um Atferlismeðferð við kvíða og þunglyndi:

pdf-taknAtferlismeðferð við kvíða og þunglyndi (60 Kb.)...



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum