Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. september 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Starfshópur um efni gerða um bann við mismunun

Að tillögu félagsmálaráðherra hefur ríkisstjórnin samþykkt að skipaður verði starfshópur sem ætlað er að fjalla um með hvaða hætti endurspegla megi efni gerða Evrópusambandsins um bann við mismunun að þeim reglum sem gilda á innlendum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin hafði áður samþykkt að gætt yrði efnislegs samræmis í íslenskum rétti og þeim rétti er gildir á innri markaði Evrópusambandsins enda þótt að efni gerðanna eigi ekki formlega undir Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Munu fulltrúar samtaka aðila á vinnumarkaði eiga meðal annars sæti í starfshópnum. Þá verður lögð áhersla á að starfshópurinn fái á sinn fund fulltrúa þeirra samtaka sem fjalla um mál þeirra hópa sem gerðirnar taka til. Áætlað er að starfshópurinn ljúki störfum í janúar árið 2006.

Um er að ræða efni tveggja gerða sem fjalla um bann við mismunun gagnvart tilteknum hópum. Hin fyrri nefnist tilskipun nr. 2000/43/EB, um innleiðingu meginreglunnar um jafnrétti án tillits til kynþáttar eða uppruna (racial or ethnic origin). Hún er almennari eðlis en sú síðari og kveður á um jafnrétti varðandi atriði er tengjast vinnumarkaðnum, félagslega vernd, menntun og aðgang að vörum og þjónustu sem almenningur á rétt á, þar á meðal húsnæði (3. gr.). Seinni tilskipunin nefnist tilskipun nr. 2000/78/EB, um innleiðingu meginreglunnar um jafnrétti í tengslum við vinnumarkaðinn (employment and occupation). Þar er kveðið á um bann við mismunun á grundvelli trúar eða trúarbragða, örorku/fötlunar, aldurs eða kynhneigðar en gildissvið hennar takmarkast við atriði er tengjast vinnumarkaðnum (1. og 3. gr.).

Gildissvið fyrrnefndu tilskipunarinnar tekur ekki einungis til stöðu á vinnumarkaði heldur einnig jafnréttis útlendinga á sviði félagslegrar verndar, félagslegrar fyrirgreiðslna (social advantages), menntunar og aðgangs að vörum og þjónustu sem almenningi stendur til boða auk málefna er varða vinnumarkaðinn. Því var jafnframt í morgun samþykkt sú tillaga félagsmálaráðherra að væntanlegu innflytjendaráði verði falið að fjalla um efni tilskipunarinnar að því leyti sem það varðar ekki málefni tengd vinnumarkaðnum. Innflytjendaráð, verður skipað fulltrúum félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Því er gert ráð fyrir því að ráðið leggi fram tillögur til hlutaðeigandi ráðherra enda fellur efni tilskipunarinnar að hluta til utan málefnasviðs félagsmálaráðuneytis.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum