Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. september 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 10. - 16. september

Lýðheilsuáætlun Evrópusambandsins - dagskrá kynningarfundar 23. september
Kynningarfundur um Lýðheilsuáætlun Evrópusambandsins verður haldinn á Grand-hótel í Reykjavík 23. september kl 13 - 17. Aðalfyrirlesar verður Dr. Ferdinand Sauer, yfirmaður hjá heilsu- og neytendaverndardeild Evrópusambandsins (Health and Consumer Protection). Evrópusambandið veitir árlega háum fjárhæðum til verkefna sem falla undir Lýðheilsuáætlun Evrópusambandsins 2003 – 2008 en heildarfé til ráðstöfunar á þessu tímabili nemur 354 milljónum evra. EFTA er aðili að áætlunini og geta stofnanir EFTA ríkjanna tekið þátt á sömu forsendum og stofnanir aðildarþjóða Evrópusambandsins. Í undirbúningi er ný Lýðheilsuáætlun Evrópusambandsins fyrir tímabilið 2007 – 2013. Markmið fundarins er að kynna megininntak hennar, gera grein fyrir helstu skilyrðum sem verkefni þurfa að uppfylla til að teljast styrkhæf og veita leiðbeiningar um umsóknarferlið þegar sótt er um styrk. Einnig verða kynntir sjóðir EFTA og rannsóknarsjóður RANNÍS.
word-icon Dagskrá fundarins...

 

Áhersla á fjarlækningar
Ráðuneytisstjóri norska heilbrigðisráðuneytisins, Elisabeth Aspaker, hefur boðað að Landsstofnun um fjarlækningar (NST) við Háskólann í Tromsø í Noregi verði norræn fjarlækningastöð þegar Noregur tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. Samkvæmt því verði stofnunin leiðandi í samstarfi um fjarlækningar og rafræna miðlun heilbrigðisupplýsinga milli Norðurlandanna. Í tímaritinu Helse Nord er haft eftir Aspaker að ,,við viljum ryðja úr vegi tæknilegum hindrunum milli Norðurlandanna og munum leggja fjármagn í að koma á samstarfi um fjarlækningar og rafrænt heilbrigði.”

 

Farsóttafréttir frá Sóttvarnalækni
Sagt er frá hettusóttarfaraldri í sumar sem barst hingað frá Englandi í nýjustu Farsóttarfréttum Sóttvarnalæknis sem birtar eru á heimasíðu landlæknis. Þann 1. september höfðu 23 einstaklingar greinst með hettusótt, flestir á aldrinum 20 – 25 ára. Talið er að faraldurinn hafi náð hámarki. Hettusótt er tilkynningarskyldur sjúkdómur sem þarf að staðfesta með greiningu á rannsóknarstofu. Er það nauðsynlegt til að fylgjast með árangri bólusetninga en almenn ungbarnabólusetning gegn hettusótt hófst hér á landi árið 1989.

 

Starfshópur um strikamerkingar og öryggi sjúklinga á LSH
Skipaður hefur verið starfshópur til að kanna hvort fýsilegt sé fyrir Landspítala - háskólasjúkrahús (LSH) að ráðast í innleiðingu strikamerkinga, meta hvernig það verði best gert, umfang þess og kostnað og gera tillögur að forgangsröðun. Frá þessu er sagt á heimasíðu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þar segir að algengast sé að nota strikamerki til að tengja auðkenni sjúklings, rafrænar pantanir, t.d. á rannsóknum, lyfjagjöf, blóð- og blóðhylutavinnslu og notkun íhluta og auðkenni starfsmanns. Þannig megi rekja allt meðferðarferlið, hvað var gert, af hverjum, hvar og hvenær.
Nánar...

 

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum