Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. október 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra sækir ráðstefnuna Konur og lýðræði í Pétursborg

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda flutti ræðu við setningu ráðstefnunnar Konur og lýðræði sem stóð yfir dagana 6. – 8. október í Pétursborg. Umhverfisráðherra færði aðstandendum ráðstefnunnar, Norrænu ráðherranefndinni og stjórnvöldum í Pétursborg, kveðjur íslenskra stjórnvalda. Ráðstefnan er sú fjórða í röðinni og jafnframt sú síðasta undir yfirskriftinni Konur og lýðræði en sú fyrsta var haldin á Íslandi árið 1999. Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 600 frá 11 þjóðlöndum og fjölþjóðlegum stofnunum.

Í ræðu sinni fjallaði Sigríður Anna Þórðardóttir meðal annars um launamun kynjanna og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Umfjöllun um fæðingarorlofið vakti mikla athygli sem og frásögn af fyrirætlunum kvenna á Íslandi í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins. Þá greindi umhverfisráðherra frá því að félagsmálaráðherra hefði áform um að boða til alþjóðlegrar ráðstefnu á Íslandi á næsta ári þar sem karlar ræða jafnréttismál.

Íslenskir þátttakendur voru 22 frá ólíkum sviðum samfélagsins, bæði stjórnmálamenn, embættismenn og fulltrúar frjálsra félagasamtaka. Íslenska sendinefndin hafði stórt hlutverk á ráðstefnunni en auk ræðu umhverfisráðherra tóku Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis og Jónína Bjartmarz, alþingismaður, þátt í pallborðsumræðum. Jón Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans stýrði pallborðsumræðum um kyn, efnahagsleg völd og vinnumarkað. Íslendingar höfðu umsjón með tveimur vinnuhópum. Rannveig Guðmundsdóttir, forseti Norðurlandaráðs sleit ráðstefnunni ásamt Ludmilu Koskinen, varaborgarstjóra Pétursborgar.

Fréttatilkynning nr. 27/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum