Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Matvæladagur MNÍ

Ávarp ráðherra

Matvæladagur MNÍ (Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands) 2005

haldinn föstudaginn 14. október kl. 13:00 á Grand Hótel.

Ágætu ráðstefnugestir !

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ráðstefnu þessa sem ber yfirskriftina "Stóreldhús og mötuneyti."  Af metnaðarfullri dagskránni má ráða að efnið verður skoðað frá fjölmörgum hliðum þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar leggja sitt af mörkum. Það endurspeglar einmitt umfang málaflokksins því starfssemi stóreldhúsa og mötuneyta hefur snertifleti á svo ótal mörgum sviðum.

Ég tók einnig eftir blaðinu “Matur er mannsins megin” sem út kom í vikunni  þar sem afar fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar komu fram. Ég fagna slíku framtaki því fræðsla og upplýsingar til almennings er eitt af því sem fagstéttir eins og matvæla- og næringarfræðingar þurfa að leggja áherslu á þar eð matur og næring er sá þáttur sem  í vaxandi mæli er viðurkenndur sem áhrifaþáttur á heilsu fólks. Það þarf líklega ekki að hafa mörg orð um það í þessum hópi.  

Ég nefni hér sem dæmi heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem Alþingi samþykkti árið 2001. Markmiðin og forgangsverkefnin í áætluninni eru fjölþætt en þar er lögð megin áhersla á forvarnir, fræðslu og ýmsar aðgerðir sem hvetja til heilbrigðra lífshátta. Nú stendur yfir endurskoðun á forgangsverkefnum heilbrigðisáætlunarinnar og er þegar ljóst að einn málaflokkur bætist þar við, en það er ofþyngd og offita og sá  vandi sem einstaklingar og samfélagið  kljást við  vegna þessa.  En sá vandi einskorðast ekki við Ísland.

Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, má rekja 70% af sjúkdómsbyrði þjóða til lífshátta, umhverfisþátta og annars sem  hver og einn getur haft áhrif á, í misjafnlega ríku máli þó. Þar á bæ telja menn að lífsháttabreytingar sem m.a. felast í óhollu  mataræði sé mesta heilsufarsógnin sem menn standa frammi fyrir. 

Á norrænni ráðstefnu um lýðheilsu sem haldin var í byrjun vikunnar í Reykjavík kom einnig fram að offita og hjarta- og æðasjúkdómar, sem sumir nefna “lífsstíls-sjúkdóma” eru meðal alvarlegustu heilbrigðisvandamála í Evrópu. Ýmsar leiðir voru nefndar til að taka á þeim vanda. Þar var meðal annars getið um niðurstöður úr rannsókn frá Bretlandi þar sem fram kemur að tekist hefur að minnka salt í fæði almennings um 30% á sl. tíu árum. Þetta hefur fyrst og fremst tekist með samstarfi við iðnaðinn eða matvælaframleiðendur. Aðferðirnar felast m.a. í því að minnka salt í mat, fræðslu og  betri merkingum.  

Það er því ljóst að beita þarf fjölbreyttum aðferðum við að hafa áhrif  á fæðu og mataræði fólks. Hér má auðvitað ekki gleyma þætti stjórnvalda  sem tengist  stefnumótun ýmiss konar, laga- og reglugerðasetningu og skattlagningu.

Það er ánægjulegt að geta þess hér að Alþingi samþykkti sl. vor þingsályktunartillögu  um að grípa til aðgerða  til að bæta heilbrigði Íslendinga. Í samþykktinni er ríkisstjórninni falið að undirbúa áætlun um samræmdar aðgerðir   til að efla lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði  og aukinni hreyfingu. Í forsætisráðuneytinu  fer nú fram undirbúningur að skipan faghóps til að greina þann vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi. Í framhaldinu  er gert ráð fyrir að faghópurinn geri tillögur að framkvæmdaáætlun sem lögð  verði fyrir ríkisstjórnina vorið 2006.

 

Góðir gestir. 

Árið 2003 voru útskriftir af sjúkrahúsum landsins yfir 46 þúsund talsins. Á Landspítala- háskólasjúkrahúsi einu starfa nálægt 5 þúsund manns. Hjúkrunar- og dvalarrýmin telja hátt í  4000 og svo mætti lengi telja.

Stóreldhús og sá matur sem þar er fram borinn er því mikilvægur liður  í heilbrigðisþjónustunni.

Við vitum einnig að næring getur verið mikilvægur þáttur í meðferð sjúklinga. Á Landspítala- háskólasjúkrahúsi hefur á umliðnum árum verið leitað ýmissa leiða til  þess að tryggja gæði  matarins m.a.  út frá næringarsjónarmiði, bragðgæðum og öryggi. Þar ríkir mikill metnaður og hefur verið lögð áhersla á að ráða inn  fólk með fagþekkingu og bæta alla aðstöðu.  Ég hef reyndar orðið var við þennan metnað í eldhúsum fleiri sjúkrahúsa m.a. á Akureyri,  Sauðárkróki og Húsavík svo eitthvað sé nefnt.  

Ýmsar leiðir eru farnar til að tryggja gæði matarins og nefni ég her sem dæmi að á Á Landspítala – háskólasjúkrahúsi stendur nú yfir innleiðing á samhæfðu árangursmati, eða Balanced Scorecard, og þar er einnig unnið að því að fá gæðavottun skv. ISO 9001 staðli.  Þar mun jafnframt  fara fram undirbúningur á því að gefa fólki kost á að velja milli tveggja rétta í öllum máltíðum.

Við höfum séð í þeim könnunum sem gerðar hafa verið á gæðum sjúkrahúsþjónustu frá sjónarhóli sjúklinga að einna minnst ánægja er meðal sjúklinga með matinn á sjúkrahúsum landsins. Það er auðvitað ljóst að erfitt er að gera öllum til hæfis og margir hafa litla matarlist vegna veikinda og annarra aðstæðna meðan dvalið er á sjúkrahúsi. Ég er þó sannfærður um það mun bæta nokkuð úr að gefa sjúklingum kost á að velja sinn mat. 

Önnur stóreldhús m.a  í skólum og leikskólum svo og aðgangur  vinnandi fólks að góðum og hollum mat er auðvitað mikilvægur þáttur  fyrir heilsufar landsmanna eins og þið þekkið best. Mig langar að geta þess hér að nýlega kom út á vegum Lýðheilsustöðvar endurskoðuð útgáfa að handbók fyrir skólamötuneyti með hagnýtum ábendingum fyrir  starfsfólk um matseðla, hollustu, matreiðslu, hreinlæti og innkaup. Ég vil einnig geta þess að í þessari viku var væntanleg úr prentun handbók fyrir leikskólaeldhús sem unnin var af vinnuhópi á vegum  Lýðheilsustöðvar. Með þessu framtaki Lýðheilsustöðvar er þess vænst að handbækurnar komi að gagni við að bjóða börnum góðan og hollan mat á öllum skólastigum.

Góðir gestir.

 Ég hef oft sagt, og ítreka það, að  forvarnir og heilsuefling eru ekki bundnar við eina aðferð, stofnun eða aldurshóp. Forvarnir felast í því að fá hvern og einn, og samfélagið allt, til að taka höndum saman um að samræma aðgerðir til að bæta aðstöðu og breyta viðhorfi í samfélaginu í baráttunni fyrir bættri heilsu. Mér sýnist dagskráin hér í dag vera í þeim anda. Ég vænti þess að dagurinn verði í senn ganglegur og skemmtilegur.

Ráðstefnan er sett.

 

--------------------------

(Talað orð gildir)

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum