Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. nóvember 2005 Dómsmálaráðuneytið

Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar sett upp á Blönduósi.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið, í samræmi við heimild í 70. gr. laga um fullnustu refsinga, að vinna að því með embætti sýslumannsins á Blönduósi, að innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á landinu verði rekin af embættinu.

Fréttatilkynning
35/2005

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið, í samræmi við heimild í 70. gr. laga um fullnustu refsinga, að vinna að því með embætti sýslumannsins á Blönduósi, að innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar á landinu verði rekin af embættinu. Markmiðið með þeim breytingum er að samræma, einfalda og efla innheimtu sekta og sakarkostnaðar í öllu landinu og stuðla að eflingu sýslumannsembættisins, sem lengi hefur getið sér gott orð fyrir skilvirka framgöngu á þessu sviði.

Af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er við það miðað, að framkvæmda- og tímaáætlun vegna innheimtumiðstöðvarinnar verði unnin fyrir næstu áramót, og hún byggist á því að innheimtumiðstöðin taki til starfa á Blönduósi á næsta ári. Nú annast allir lögreglustjórar innheimtu sekta og sakarkostnaðar. Umsvifin eru mest hjá innheimtudeild embættis lögreglustjórans í Reykjavík og verður staðið þannig að flutningi á verkefninu til Blönduóss, að hann leiði ekki til uppsagnar á starfsfólki annars staðar.

Markmið dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er, að samhliða nýskipan lögreglumála verði leitað leiða til að efla aðra starfsemi sýslumannsembættanna, þar á meðal með aðgerðum af þessu tagi.

Reykjavík 3. nóvember 2005Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira