Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2005 Forsætisráðuneytið

Erindi frá Þorsteini Sigurði Þorsteinssyni

Til að auka og viðhalda lýðræði í landi okkar virðist greinilega þörf á tilveru og störfum stjórnarskrárnefndar og væri reyndar ráð að hún skoðaði skilgreinda hluta stjórnarskrárinnar, eftir reynslu okkar af virkni hennar á hverjum tíma. Hér á ég eindregið við að það sé ekki alfarið á verksviði valdhafanna á hverjum tíma að hafa um það tillögu eða ákvarðanarétt að skipa til um reglur sem að þeim snúa.

Þetta fullyrði ég, þrátt fyrir mótmæli nokkurra fulltrúa framkvæmdavaldsins, sem látið hafa skoðanir sínar í ljósi en ættu reyndar að gefa okkur óbreyttum frið og ráðrúm til íhlutunar og skoðanaskipta.

Stjórnarskrárbrot viðgangast og hafa viðgengist lengi af hálfu framkvæmdavaldsins, um það verður ekki deilt. Af hverju ekki er tekið á því er væntanlega valdhafanna á hverjum tíma að svara. Tek sem dæmi skiptingu valdsins.

Þá kem ég að erindi mínu og einlægri ósk um betrumbætur. Efni það sem ég fjalla um er úr samtímanum:

1. Valdssvið framkvæmdavaldsins. 

Borgara, eins og mér, finnst það vera án landamæra, algjört.  Ég tek sem dæmi, ráðstöfun fjármuna, ráðstöfun embætta, ráðstöfun framkvæmda, ákvarðanir um langtímaskuldbindingar (náttúruspjöll), ákvarðanir um afsal sjálfstæðis (stríðsyfirlýsingar) og margt fleira.

Dæmi, hvernig ekki er skirrst við hæpnar aðgerðir af hálfu framkvæmdavaldsins þegar upp koma aðstæður þar sem valdaaðili er vanhæfur eða býr við vangetu í starfi sem hann gegnir eða hefur beðið ósigur í kosningum, truflar “óæskilegt” framboð og fleira af þessum toga.
Vantar afar brýnt skýrt afmarkaða lýsingu á valdssviði, ráðstöfunarrétti og hæfi eða vanhæfi.

2. Mistök valdhafanna:

Óskýr og misvísandi lög, eftirfylgni utanaðkomandi leikmanna á gildi og virkni laga.

3. Hægari aðkoma borgarans að því að fá leiðréttingu mála gegn ríkisvaldinu

Algengustu dómsmál fyrir dómstólum eru mál milli ríkisvaldsins og borgaranna. Ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér, frekar hitt að framkvæmdavaldinu og embættismönnum þess er gert allmikið hægar um vik þegar kemur að því að sækja eða verjast. Dæmi. Fráfarandi fjármálaráðherra svarar eldri borgurum opinberlega í viðleitni þeirra til þess að fá leiðréttingu misgjörða sem felast í skattheimtu við töku lífeyris. Hann fullyrðir að þetta mál verði þeir að sækja fyrir dómstólum þrátt fyrir að lög séu væntanlega skýr.  Framkvæmdavaldið getur þarna trútt um talað, kostnaður við málarekstur er ekki þess sem tekur ákvörðunina, í þessu tillliti fjármálaráðherra, heldur ríkissjóðs. 

Borgarinn er settur undir ákvæðin um gjafsókn sem ætti ekki að viðgangast ef ríkisvaldið gætti þess að fylgja eftir jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar

Ég vænti þess að stjórnarskrárnefnd fái þetta til yfirlestrar þar sem hér er velt upp örfáum mjög brýnum atriðum sem borgarar velta þónokkuð fyrir sér þessa dagana.

Með kveðju

Þorsteinn Sigurður Þorsteinsson
Vélfræðingur
Kt. 170738 2099



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum