Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. nóvember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á Vélstjóraþingi 2005

 

Ráðstefnustjóri.

Ágætu vélstjórar og aðrir ráðstefnugestir.

 

Það er mér sérstök ánægja að ávarpa ykkur hér í dag í tilefni Vélstjóraþings 2005. Ég fagna þeim augljósa áhuga sem vélstjórar sýna umhverfismálum og endurspeglast í því að umhverfismál eru meginviðfangsefni þingsins.

Vægi umhverfismála fer vaxandi og þau málefni sem heyra undir umhverfisráðuneytið eru fjölbreytt og snerta mörg hver verksvið vélstjóra á einn eða annan hátt. Hlutverk vélstjóra er víðtækt og ábyrgð þeirra mikil svo vel takist til í umhverfismálum. Vélstjórar meðhöndla ýmis umhverfisskaðleg efni, svo sem kælimiðla og olíur og oft er það rekstur og viðhald véla sem hefur áhrif á hvernig til tekst. Starfsumhverfi vélstjóra hefur breyst að undanförnu og gerðar eru sífellt meiri kröfur til þekkingar þeirra ekki síst í tengslum við ýmis konar tækni og notkun efna sem ætlað er að bæta umhverfið. Athyglisverð er sú mikla þróun á vistvænum vélum sem dregur úr mengun. Hér er bæði um að ræða hefðbundnar vélar eins og díselvélar og einnig margvíslega þróun á enn vistvænni vélum. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í dagskrá þingsins að hér verða þessi mál til umfjöllunar ásamt fjölda annarra mála á sviði umhverfisins.

Hinn 1. október 2004 tóku gildi lög um varnir gegn mengun hafs og stranda. Í lögunum er kveðið á um ýmis konar nýmæli ekki síst í tengslum við bráðamengun og viðbrögð við henni. Í lögunum er m.a. sett fram það markmið að eftir mengunaróhapp verði umhverfið fært til fyrra horfs. Lögin taka til hvers konar starfsemi sem tengist atvinnurekstri, framkvæmdum, skipum og loftförum, á landi, í lofthelgi, landhelgi og í mengunarlögsögu Íslands. Nýmæli er að lögin gilda um íslensk skip utan íslenskrar mengunarlögsögu eftir því sem Ísland hefur skuldbundið sig til í alþjóðasamningum og á það t.d. við um Smuguna og Flæmska hattinn.

Ábyrgð á framkvæmd laganna er í höndum Umhverfisstofnunar og fer stofnunin með eftirlit með framkvæmdinni að svo miklu leyti sem ekki er mælt fyrir um annað í lögunum. Undantekning frá þessu er, að framkvæmd og stjórnun á vettvangi þegar bráðamengun hefur orðið innan hafna, er í höndum hafnarstjóra sem starfa á vegum sveitarfélaganna. Landhelgisgæsla Íslands annast eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland og Siglingastofnun Íslands eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna. Samkvæmt lögunum hefur Landhelgisgæslan íhlutunarrétt ef yfirvofandi er hætta á bráðamengun og getur í slíkum tilvikum tekið yfir stjórn skips. Þetta ákvæði er oft nefnt "Vikartindsákvæðið" en strand þess skips, aðdragandi þess og aðgerðir í kjölfarið hafa haft verleg áhrif á mótun löggjafar á sviði umhverfismála. Á það bæði við um lög varnir gegn mengun hafs og stranda og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir sem bæði heyra undir verksvið umhverfisráðuneytisins.

Samkvæmt nýjum lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda setur umhverfisráðherra, í reglugerðir almenn ákvæði um einstaka framkvæmdaþætti þ.á m. um atriði sem heyra beint undir þá starfsemi sem vélstjórar bera ábyrgð á, svo sem um losun olíu, bestu fáanlegu tækni við mengunarvarnir, búnað skipa og fyrirtækja, losun tiltekinna efna í hafið og eftirlit, skráningu og tilkynningaskyldu.

 Í lögunum er einnig kveðið á um svokallaða hlutlægða ábyrgð þ.e.a.s. ábyrgð án sakar, þannig að mengunarvaldur er ábyrgur fyrir bráðamengunartjóni, þótt tjónið verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi hans eða starfsmanna hans, tengist mengunin flutningi á olíu, eiturefnum eða hættulegum efnum eða tilteknum atvinnurekstri. Þessu tengjast og sérstakar vátryggingar olíuflutningaskipa, sem kveðið er á um í lögunum. Ákvæði um hlutlæga ábyrgð og vátryggingar öðlast gildi 1. janúar nk.

Frá gildistöku laganna hefur starfað sérstök nefnd til að undirbúa gildistöku og framkvæmd þeirra og skal hún starfa þar til lögin hafa að fullu tekið gildi. Nefndin er skipuð fulltrúum umhverfisráðherra, samgönguráðherra, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Umhverfisstofnunar. Tekist hefur ágætis samvinna í nefndinni um þá framkvæmdaþætti sem henni hefur verið falið að annast og sýnir hversu mikilvægt er að ráðuneyti og hagsmunaaðilar vinni beint saman. Þannig er hægt að leysa mál strax í upphafi og einfalda ferli mála á síðari stigum.

Af mörgu fleiru er að taka ef litið er til mála er varða vélstjóra og unnið er að í ráðuneytinu sem of langt mál yrði að rekja hér. Ég vil þó sérstaklega nefna VI. viðauka svokallaðs MARPOL-samnings um varnir gegn mengun frá skipum til að koma í veg fyrir losun efna í sjó. Þessi viðauki sem tengist útbúnaði véla er til umræðu hjá stjórnvöldum en ekki hefur enn verið tekin formleg afstaða til staðfestingar hans hér á landi.

 

Ágætu áheyrendur

Árið 2002 samþykkti ríkisstjórnin stefnumörkun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi undir heitinu "Velferð til framtíðar". Stefnumörkunin var sett til ársins 2020 en í þeim tímaramma felst að henni er ætlað að vera lifandi verkfæri í reglulegri endurskoðun. Umhverfisþing er meðal annars vettvangur til að ræða þessa stefnumörkun og dagana 18. og 19. nóvember nk. verður haldið IV. Umhverfisþingið. Þingið mun að þessu sinni fjalla um sjálfbæra þróun og verður stefna stjórnvalda um sjálfbæra þróun í brennidepli. Kynntar verða tölulegar vísbendingar um hvernig miðað hefur á tilteknum sviðum innan settra markmiða síðustu ár og fjallað um drög að nýjum áherslum fyrir tímabilið. Þessi markmið tengjast að verulegu leyti umræðuefni Vélstjóraþings.

Á Umhverfisþingi gefst fulltrúum stofnana, sveitarfélaga, atvinnulífsins, félagasamtaka og annarra tækifæri til að fjalla um stefnu Íslands varðandi sjálfbæra þróun og bera fram tillögur varðandi stefnuna á næstu árum.

Umhverfisþingi er ætlað að vera vettvangur umræðu og skoðanaskipta um sjálfbæra þróun sem nýtist stjórnvöldum við endurskoðun stefnumörkunar sinnar og almennt til að efla umræðu um sjálfbæra þróun hér á landi. Ég vonast til þess að sjá mörg ykkar á Umhverfisþingi.

 

Ágætu þingfulltrúar.

Ég vil að lokum lýsa þeirri von minni og ósk að þetta Vélstjóraþing skili okkur fram á veginn til aukins skilnings á mikilvægi umhverfismála og að þar verði fagmennska og framsækni í fyrirrúmi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum