Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. nóvember 2005 Innviðaráðuneytið

Umferðaröryggisrannsóknir

Á hverju ári er unnið að fjölda rannsóknarverkefna á sviði samgangna. Í dag stendur Vegagerðin fyrir ráðstefnu þar sem kynnt eru, og fjallað, um rannsóknarverkefni sem hlutu styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar árið 2004.

Þau verkefni sem hlutu styrk á síðasta ári voru meðal annars á sviði samgöngu- og umferðarrannsókna, tækja og búnaðar, umferðaröryggismála, umhverfismála og jarðtæknimála. Eftirfarandi fer kynning á þremur rannsóknarverkefnum á sviði umferðaröryggismála á árinu 2004.

Slysatíðni vöru- og hópbifreiða - Skúli Þórðarson, Orion ráðgjöf

Skúli Þórðarson hjá Orion Ráðgjöf og Guðmundur Freyr Úlfarsson hafa unnið að rannsóknum á umferðarslysum þungra bifreiða á Íslandi fyrir árin 1994 til 2003. Reiknuð var út slysa- og meiðslatíðni mismunandi ökutækjaflokka, og fundnar voru algengustu tegundir slysa. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu meðal annars að hæsta meðatal árlegrar slysatíðni, á hver 1000 ökutæki, var hjá strætisvögnum. Lægsta slysatíðnin var aftur á móti í flokki vörubifreiða undir 5 tonnum að eiginþyngd. Nánari niðurstöður má finna í erindi sem flutt er á ráðstefnunni (PDF-92KB).

Í samgönguráðuneytinu, hjá Vegagerðinni og hjá Umferðarstofu er unnið að verkefnum í samræmi við markmið og aðgerðir umferðaröryggisáætlunar sem nær til áranna 2005 til 2008. Ein aðgerð umferðaröryggisáætlunar gengur út á að beita aðferðafræði öryggisstjórnunar til að gera starfsumhverfi þeirra sem aka við vinnu sem öruggast. Þessu verkefni var hleypt af stokkunum 7. mars síðastliðinn undir heitinu „Vel á vegi stödd" og er í höndum Umferðarstofu. Ávinningur aðgerðanna er talin vera fækkun látinna um 0,1 og fækkun alvarlegra slasaðra um 0,6 að meðaltali á ári.

Vegarollur og umferðaröryggi - Ólafur Páll Vignisson, laganemi við Háskóla Íslands

Ólafur Páll Vignisson vann rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Vegarollur og umferðaröryggi, en verkefnið var styrkt af Samgönguráðuneytinu, RANNUM, Nýsköpunarsjóði námsmanna og fræðslusjóði Úlfljóts. Markmið verkefnisins er að stuðla að auknu umferðaröryggi með því að koma í veg fyrir tjón af völdum lausagöngu búfjár. Samkvæmt skrám Umferðarstofu má rekja 230 slys á ári til þess að ekið er á dýr í dreifbýli. Í fæstum tilvikum er um alvarleg slys að ræða, en á hverju ári slasast þó tveir alvarlega sökum þessa. Í skýrslu Ólafs er varpað ljósi á umfang tjóna vegna lausagöngu búfjár, farið yfir lögákveðnar skyldur og réttarstaða hlutaðeigandi aðila skoðuð. Samanburður milli landa er skoðaður og loks eru settar fram tillögur til úrbóta. Nánar má lesa um þetta í skýrslunni (PDF – 2.840KB)

Í umferðaröryggisáætlun ráðuneytisins er lögð aukin áhersla á að girða af vegi þar sem áhætta vegfarenda vegna lausagöngu búfjár er mest. Á næstu fjórum árum er áætlað að girða við rúmlega 300 km. vega, þar sem um 30% slysa og óhappa af þessu tagi verða. Væntanlegar ávinningur aðgerða er fækkun látinna um 0,1 á ári og fækkun alvarlegra slasaðra um 0,7 að meðaltali á ári.

Umferðarslys erlendra ferðamanna - Ágúst Mogensen, Rannsóknanefnd umferðarslysa

Í rannsókn Ágústs Mogensen er varpað ljósi á umfang slysa erlendra ferðamanna, á árunum 2000-2004, og staðsetningar þeirra. Þá eru forvarnir ræddar með hliðsjón af viðhorfum ferðamannana og forráðamanna bílaleiganna. Umferðaróhöppum meðal erlendra ferðamanna hefur fjölgað undanfarin ár samhliða fjölgun ferðamanna hingað til lands. Á árinu 2000 urðu 84 slys á erlendum ferðamönnum en slysunum fjölgaði í 176 á árinu 2004. Í fæstum tilvikum er þó um að ræða alvarleg slys. Þannig sýna niðurstöður rannsóknarinnar að engin meiðsl urðu á fólki í 87% slysanna. Í 1% tilvika var um banaslys að ræða, þannig létust 7 erlendir ferðamenn í umferðinni á umræddu 5 ára tímabili. Nánari niðurstöður má finna í skýrslunni (PDF-554KB)

Samgönguráðuneytið leggur áherslu á að fækka slysum þar sem erlendir ferðamenn eru orsakavaldar. Í umferðaröryggisáætlun er stefnt að 10% fækkun slysa þar sem erlendir ferðamenn eru orsakavaldar. Í dag má rekja 5% allra umferðarslysa á landinu til erlendra ferðamanna. Í ljósi þessa hefur verið unnið að gerð myndbands sem sýnir það sem helst ber að gæta að í akstri á Íslandi. Vænst er til þess að ávinningur aðgerðanna verði fækkun látinna um 0,2 og fækkun alvarlegra slasaðra um 1,2 að meðaltali á ári.

Eins og að ofan greinir er markvisst unnið að því að fækka umferðarslysum. Á tímabilinu 2005-2008 verður 1.540 milljónum króna varið til umferðaröryggisaðgerða sem allar miða að því að gera umferðaröryggi á Íslandi eins og best gerist í heiminum. Mannslíf verða ekki metin til fjár.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum