Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. nóvember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi Félags byggingarfulltrúa 17. nóvember 2005

Ráðstefnustjóri – ágætu ráðstefnugestir

Húsbyggingar og húsakostur er okkur allajafna ofarlega í huga og það er eðlilegt ef höfð er í huga saga þjóðarinnar og sú veðrátta sem við búum við. Borið saman við nágrannaþjóðir okkar er húsagerðarsaga úr varanlegum efnum ótrúlega stutt, einungis um aldargömul en fyrsta steinsteypta húsið hér á landi var reist rétt fyrir aldamótin 1900. Hús fyrri tíma hurfu á mannsævi og þurftu stöðugt viðhald auk þess sem þau voru afskaplega óhollar vistarverur. Um slíkar byggingar hljóta að gilda önnur lögmál og aðrar reglur en um hús sem reist eru og þjóna hlutverki sínu í mannsaldra.

Fyrir skömmu birtist viðtal við elsta núlifandi karlmanninn hér á landi, 105 ára. Fram kom í viðtalinu að fyrstu 25 ár ævinnar bjó þessi heiðursmaður í torfbæ og það leiðir hugann að því, hve mikil breyting, mér liggur við að segja bylting, hefur orðið á húsakosti þjóðarinnar á aðeins einni öld. Húsnæðið hefur á þessum tíma breyst úr hreysum í vandað heilsusamlegt húsnæði.

Byggingariðnaðurinn er stærsta iðngrein landsins. Talið er að um 10% vinnuafls starfi í byggingariðnaði og árleg velta nemi um 80-100 milljörðum króna. Það kemur því í sjálfu sér ekki á óvart að verulegur hluti þjóðarauðsins er bundinn í byggingum eða um 3.000 milljarðar króna og sé þessi upphæð sett í samhengi við samanlagða eign landsmanna í lífeyrissjóðum að upphæð um 1.000 milljarðar króna er mikilvægi húsakostsins í þjóðarbúskapnum augljóst.

Af þessu má ljóst vera að byggingariðnaðurinn og húsagerð er okkur afar mikilvæg og það er okkur sem þjóð mikið hagsmunamál að vel sé staðið að málum hvort sem það snýr að stjórnvöldum með laga- og reglugerðarsetningu eða aðilum á markaði s.s. hönnuðum, meisturum, framkvæmdar- eða rekstaraðilum.

Hlutverk stjórnvalda í þessum málaflokki er fyrst og fremst að setja laga- og reglugerðarramma um hið ytra umhverfi málaflokksins þ.e.a.s. að húsnæði, sem byggt er sé öruggt, heilsusamlegt og fullnægi kröfum notenda, einnig þeirra sem eru fatlaðir t.d. með skerta hreyfigetu – það eru ekki allir eins.

Snar og mikilvægur þáttur í aðkomu stjórnvalda er einnig að tryggja eðlilegt og fullnægjandi eftirlit með aðilum á markaði. Þar reynir á hlutverk ykkar, ágætu byggingarfulltrúar, að tryggja eins og kostur er að ofangreind sjónarmið séu í hávegum höfð svo að samræmis, jafnræðis, hlutleysis og sanngirnis sé gætt.

Ísland er aðili að EES samningnum og með honum höfum við skuldbundið okkur til þess að taka upp hér á landi þær reglur sem Evrópusambandið setur þ.a.m. um byggingarmál, hvort sem það snýr að frjálsu flæði vinnuafls, reglum um CE-merkingar byggingarvara eða stöðlum um hönnun húsa og annarra mannvirkja.

Byggingariðnaður er flókinn og að honum koma margir aaðilar sem hafa eftir atvikum mismunandi skoðanir og hagsmuni og ljóst er að öllum verður ekki gert til hæfis þegar til kastanna kemur.

Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að endurskoðun skipulags- og byggingarlaga og er sú vinna á lokastigi. Frumvarp að nýjum byggingarlögum verður væntanlega lagt fyrir Alþingi á vorþingi og gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2008.

Helstu breytingar frá gildandi lögum eru fyrst og fremst þær að nú verða tveir lagabálkar í stað eins, byggingarlög annars vegar og skipulagslög hins vegar. Jafnframt verður sett á laggirnar sérstök stofnun sem fer með byggingarmál og í þriðja lagi verða lögin mun víðtækari en gildandi lög og taka þannig til mannvirkjagerðar sem hingað til hefur verið undanþegin skipulags- og byggingarlögum. Þau ná yfir byggingarvörur á markaði, hafnargerð, gerð orkumannvirkja svo dæmi séu tekin og tímabundin mannvirki eins og starfsmannabúðir á vinnusvæðum. Í lögunum er leitast við að skýra hlutverk og ábyrgð þeirra aðila sem lögin taka til.

Hlutverk hinnar nýju stofnunar, Byggingarstofnunar, verður margþætt. Sem dæmi má nefna:

að tryggja eins og kostur er samræmt byggingareftirlit í landinu m.a. með útgáfu skoðunarhandbóka,

útbúa verklagsreglur og leiðbeiningar fyrir hagsmunaaðila,

gefa út löggildingar fyrir hönnuði og iðnmeistara

standa fyrir námskeiðum og prófum fyrir hönnuði

gefa út starfsleyfi fyrir byggingarstjóra og skoðunarstofur

byggja upp og reka gagnagrunn fyrir upplýsingar um byggingar og mannvirkjamál í landinu

taka þátt í gerð íslenskra og evrópskra staðla á sviði byggingar- og brunamála

Ágætu byggingarfulltrúa og aðrir ráðstefnugestir.

Ég vænti þess að á næstu vikum muni samtök ykkar fá frumvarpsdrög til byggingarlaga til umsagnar og þá gefst ykkur kostur á að koma skoðunum ykkar á framfæri áður en endalega verður gengið frá frumvarpinu og það lagt fram á Alþingi.

Ég vil að lokum óska ykkur til hamingju með þessi tímamót í sögu félagsins. Tuttugu ár eru ekki langur tími og undirstrikar hversu stutt saga byggingariðnaðar er í reynd eins og ég nefndi hér í upphafi. Þið eruð örlítið eldri en umhverfisráðuneytið sem hélt upp á 15 ára afmæli á þessu ári. Við erum hreinn unglingur miðað við ykkur sem þó hafið náð fullorðinsaldri.

Það er mikið byggt á Íslandi og miklum fjármunum varið til bygginga. Það skiptir miklu að vel sé að verki staðið. Þer gegna byggingarfulltrúar mjög mikilvægu hlutverki.

Í kvæði Tómasar Guðmundssonar "Húsin í bænum" segir:


"Bærinn er skrítinn. Hann er fullur af húsum.
Hús meðfram öllum götum í röð liggja.
Aldraðir byggja og ungir menn kaupa lóðir
og ætla sér líklega að byggja."

 

Með þessum orðum segi ég ráðstefnuna setta og óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum