Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. desember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra staðfestir breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins

  • Breyting samvinnunefndar miðhálendis á svæðisskipulagi er staðfest að öðru leyti en því að breytingum sem snúa að Norðlingaölduveitu er hafnað
  • Ákvörðun umhverfisráðherra er í samræmi við tillögu Skipulagsstofnunar um afgreiðslu málsins

Umhverfisráðherra hefur í dag staðfest breytingu á Svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 sem samvinnunefnd miðhálendis samþykkti á fundi sínum þann 12. ágúst 2005. Breytingarnar varða m.a. jarðvarmavirkjun við Hágöngur og lagningu háspennulínu frá þeirri virkjun og breytingu skálasvæðis við Kerlingarfjöll í hálendismiðstöð vegna ferðaþjónustu. Umhverfisráðherra hefur hins vegar synjað staðfestingu á þeim hluta svæðisskipulagstillögunnar sem lýtur að Norðlingaöldu­veitu. Ákvörðun umhverfisráðherra er í samræmi við tillögu Skipulagsstofnunar frá 25. október 2005. Þar sem annmarkar voru á meðferð svæðisskipulagstillögunnar hefur ráðherra ekki lagaheimild til þess að staðfesta hana með þeim hætti sem samvinnunefnd miðhálendis samþykkti.

Í rökstuðningi fyrir niðurstöðu umhverfisráðherra kemur fram að hin formlega málsmeðferð samvinnunefndar miðhálendisins, um breytingu á svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 fyrir svæðið sunnan Hofsjökuls, sé ekki í samræmi við skipulags- og byggingarlög. Sá annmarki var á afgreiðslu nefndarinnar að hún breytti auglýstri tilögu sinni í grundvallaratriðum án þess að auglýsa hana að nýju áður en hún var tekin til efnisafgreiðslu, en það fór í bága við 4. mgr. 13. gr. a skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ennfremur var samþykkt nefndarinnar um breytingu á svæðisskipulaginu háð þeim efnislega annmarka að ekki var lagður réttur skilningur í ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, sbr. 1. gr. laga nr. 67/2003.

Framangreint ákvæði laga um raforkuver skyldar ekki samvinnunefnd miðhálendis til þess að taka Norðlingaölduveitu upp í svæðisskipulag miðhálendis samkvæmt úrskurði setts umhverfisráðherra frá 30. janúar 2003. Ákvæðið takmarkar þó þá raunhæfu valkosti sem nefndin hefur þegar landnýting er ákveðin fyrir svæðið sunnan Hofsjökuls vegna veitunnar. Ef ætlun nefndarinnar var að taka Norðlingaölduveitu upp í svæðisskipulagið þá varð hún jafnframt að sjá til þess að skilyrði úrskurðar setts umhverfisráðherra væru uppfyllt vegna fyrirmæla 2. mgr. 2. gr. fyrrnefndra laga ef framkvæmanlegt átti að vera að ráðast í gerð vatnsmiðlunarinnar að gildandi lögum.

Ákvörðun ráðherra felur því í sér að skipulagi þess svæðis á miðhálendinu sem lýtur að Norðlingaölduveitu hefur ekki verið breytt og gildir því áfram það skipulag sem gilt hefur á því svæði. Það skipulag gerir ekki kleift að ráðast í framkvæmd Norðlingaölduveitu í samræmi við úrskurð setts umhverfisráðherra frá 30. janúar 2003 og er því framhald þess máls í höndum samvinnunefndar miðhálendis.

Fréttatilkynning nr. 37/2005
Umhverfisráðuneytið

Texti bréfs ráðuneytisins til samvinnunefndar miðhálendis

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum