Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. desember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úrvinnslugjald lagt á pappa-, pappírs- og plastumbúðir um áramótin

  • Úrvinnslugjald leggst á pappa-, pappírs- og plastumbúðir frá 1. janúar 2006
  • Úrvinnslugjald innheimt vegna innfluttra og innlendra umbúða, en undanþága eða endurgreiðsla fæst vegna útflutnings
  • Úrvinnslugjald hjólbarða lækkar um þriðjung 1. janúar 2006

Þann 1. janúar 2006 hefst innheimta á úrvinnslugjaldi á pappa-, pappírs- og plastumbúðir. Úrvinnslugjald leggst á allar pappa-, pappírs- og plastumbúðir sama hvort þær eru fluttar inn til landsins einar sér, utan um vöru eða þær eru framleiddar hér á landi. Þessi innheimta styðst við lög um úrvinnslugjald nr. 162/2002 sem síðast var breytt með lögum nr. 114/2005.

Álagning úrvinnslugjalds á pappa-, pappírs- og plastumbúðir er liður í að uppfylla skyldur sem Íslendingar hafa gengist undir með þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu og er gjaldinu ætlað að standa undir kostnaði við að auka endurvinnslu umbúðaúrgangs. Álagningu úrvinnslugjaldsins er hagað þannig að það á að virka sem hvati til að minnka umbúðir utan um vörur.

Úrvinnslugjald verður innheimt í tolli af innfluttum umbúðum og hjá skattstjórum við sölu á innlendri framleiðslu. Reiknað er með að árlega verði innheimtar 320-340 milljónir króna. Gjaldið á að standa undir úrvinnslu umbúða (söfnun, flokkun og flutningi sem og endurnýtingu eða endurvinnslu) og því getur sparast á móti einhver kostnaður hjá fyrirtækjum sem flokka umbúðaúrgang en þurfa nú að greiða fyrir gámaleigu, flutning og förgun. Áhrif gjaldsins á verðlag eiga að vera óveruleg.

Í reglugerð um úrvinnslugjald nr. 1124/2005 sem tekur gildi þann 1. janúar 2006 er að finna ákvæði um nánari útfærslu á innheimtu gjaldsins, heimildir til undanþágu vegna umbúða sem fara eiga utan um vöru sem seld verður úr landi og endurgreiðslur gjaldsins. Frekari upplýsingar er að finna á vef Úrvinnslusjóðs og á vef Tollstjórans í Reykjavík.

Úrvinnslugjald hjólbarða lækkar

Um áramótin mun einnig taka gildi þriðjungslækkun úrvinnslugjalds á hjólbarða. Gjaldið lækkar úr 30 kr./kg niður í 20 kr./kg. Úrvinnslugjald á hjólbarða var fyrst lagt á 1. janúar 2003 en vegna mikils innflutnings af hjólbörðum að undanförnu miðað við þann fjölda hjólbarða sem fer til úrvinnslu hafa safnast upp fjármunir í sjóð til úrvinnslu þeirra. Með þeim breytingum sem gerðar verða á upphæðum gjaldsins má gera ráð fyrir að jöfnuður komist á sjóð hjólbarða á næstu fjórum árum.

 

Fréttatilkynning nr. 38/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum