Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. janúar 2006 Innviðaráðuneytið

Ráðuneytið óskar umsagna

Ráðuneytið óskar umsagna vegna reglugerðar um skylduvátryggingu loftfara.

Með reglugerðinni er meðal annars verið að innleiða reglugerð Evrópusambandsins nr. 785/2004. Það var haft að leiðarljósi að við innleiðinguna hér yrði ekki haldið inni neinum sérákvæðum um aukna vátryggingavernd nema þar sem það er lögmælt enda myndi það leiða til verulegs viðbótar kostnaðar.

Um leið og óskað er eftir umsögn er vakin athygli á nokkrum atriðum.

  • Skylt verður að ábyrgðartryggja farþega, farangur og farm í öllu flugi hvort sem flugið er rekið í ábataskyni (rekstur gegn greiðslu og eða leigugjaldi) eða ekki. Allt almannaflug (einkaflug) verður skylt að ábyrgðartryggja farþega, farm og farangur.
  • Breytingar eru gerðar á vátryggingarfjárhæðum í vátryggingakröfum varðandi þriðja aðila þannig að tryggingarfjárhæð vegna léttari loftfara lækka (undir 2,7 tonn) en þyngri (yfir 6 tonn) hækkar.
  • Flugrekanda og umráðanda loftfars verður skylt að vátryggja gegn tjóni sem þriðju aðilar verða fyrir af völdum stríðs eða hryðjuverka og skyldar áhættur. Tekur þessi skylda til allra þyngdarflokka loftfara, að fisum og loftförum undir 500 kg. undanskildum.
  • Vátryggingarfjárhæðir vegna lífs- og líkamstjóns farþega lækka í flugi sem rekið er í ábataskyni, þ.e. úr 500.000 SDR í 250.000 SDR (til samræmis við reglugerð ESB sjá töflu 1.).
  • Slysatrygging þeirra sem ferðast með einka- og kennsluflugvélum heldur sér óbreytt þar sem kveðið er á um slíkar vátryggingar í lögum um loftferðir, sjá 5. mgr. 131. gr. laganna. Skyldan er þó útvíkkuð þannig að hún nær einnig til þyrla.
  • Hin nýja reglugerð mun taka til flugrekenda og umráðenda loftfara sem fljúga innan, inná, út úr eða yfir yfirráðasvæði Íslands.
  • Reglugerðin kveður einnig á um vátryggingaskyldu loftfara með hámarksflugtaksmassa undir 500 kg., þ.m.t. svifflugur og fis, sem ekki eru notuð í atvinnuskyni, eða eru notuð við staðbundna flugkennslu. Þær eru þó undanskyldar frá kröfum um vátryggingu gegn áhættum er tengjast stríðs- og hryðjuverkum ef þeim er ekki flogið yfir landamæri.
  • Reglugerðin tekur ekki til ríkisloftfara, flugmódela, flugvéla sem settar eru á loft með fótafli t.d. svifvængir (þó þeir séu vélknúnir) eða svifdreka, loftbelgja, flugdreka eða fallhlífa.
  • Allir flugrekendur og umráðendur loftfara skulu vátryggðir að því er varðar farþega, farangur farm og þriðju aðila. Lágmarksvátryggingarfjárhæð fyrir hvern farþega er 250.000 SDR, farangur 1000 SDR á hvern farþega í atvinnuflugi og 17 SDR per kíló á farm í atvinnuflugi. Heimilt er skv. 6. gr. ESB reglugerðarinnar að setja lægri mörk bótafjárhæða (100.000 SDR) vegna farþega sem eru í loftförum undir 2.7. tonnum og ekki eru rekin í ábataskyni. Sú heimild hefur ekki verið nýtt hér.
  • Rétt er að vekja sérstaka athygli á að með gildistöku reglugerðarinnar verður skylt að vátryggja alla farþega án tillits til þess hvort um flug í ábataskyni er að ræða eða ekki.
  • Vátryggingarupphæðir eru lágmarksupphæðir án tillits til hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar.
  • Þá verður áfram skylt að slysatryggja stjórnanda og farþega í einka- og kennsluflugvélum að lágmarki 100.000 SDR á hvern farþega/stjórnanda. Til að gæta samræmis er þessi skylda til vátryggingar einnig látin taka til þyrla í einka- og kennsluflugi.

Drög að reglugerð um skylduvátryggingu loftfara (WORD-27KB)
Reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 785/2004 (WORD-70KB)

Umsagnir óskast sendar á tölvupóstfang ráðuneytisins [email protected] eða til Samgönguráðuneytis, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík.

Umsagnarfrestur er til 15. janúar 2006



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum