Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. janúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Tvær stofnanir verða sameinaðar

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, leggur fram frumvarp sem felur í sér að Heyrnar-og talmeinastöðin og sjónstöðin sameinast. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lagði frumvarp þessa efnis fyrir ríkisstjórn sem fyrir sitt leyti samþykkti það og er málið nú í meðferð hjá þingflokkum stjórnarflokkanna. Meginmarkmið frumvarpsins er að sameina Heyrnar- og talmeinastöð og Þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra (Sjónstöð) í eina stofnun undir stjórn forstöðumanns. Rekstrarleg stjórnun stofnananna verður sameinuð, en þjónustan við skjólstæðinga og hin fagleg starfsemi og verður á hendi fagfólksins, eins og verið hefur. Rökin fyrir sameiningu eru einkum þau að með henni næst hagræðing sem styrkir bæði faglega og rekstrarlega starfsemi stofnunarinnar til lengri tíma litið. Með sameiginlegri yfirstjórn, sameiningu stoðdeilda og samnýtingu húsnæðis verður mögulegt að nýta fé, sem nú fer til rekstrar, til að efla þjónustu við skjólstæðinga. Þá einfaldar sameiningin aðgengi þeirra sem fram til þessa hafa þurft á þjónustu beggja stofnana að halda. Þar er um að ræða daufblinda og aldraða, en aldraðir eru stærsti einstaki hópurinn sem sækir þjónustu á báða staði, u.þ.b. 65% til 75%. Lagt er til að reglur um gjaldtöku af skjólstæðingum sameinaðrar stofnunar verði óbreyttar. Leitast var við að hafa samráð við fulltrúa þeirra sem þjónustu stofnananna hafa notið þegar frumvarpið var samið, þ.e. fulltrúa frá Félagi heyrnarlausra, Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra, Blindrafélaginu, samtökum blindra og sjónskertra á Íslandi, félaginu Heyrnarhjálp, Daufblindrafélagi Íslands og Landssambandi eldri borgara. Var tekið tillit til athugasemda sem fram komu á þeim fundum eftir því sem frekast var unnt, en athugasemdir komu fram er snertu réttarstöðu barna, þjónustustig, hjálpartæki, endurhæfingu og gjaldtöku, sem verður óbreytt eins og áður sagði.. Gert er ráð fyrir að stofnanirnar sameinist 1. júlí næstkomandi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum