Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. janúar 2006 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 13. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur í Þjóðmenningarhúsinu hinn 3. janúar 2006 klukkan 13.00 síðdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Bjarni Benediktsson og Jónína Bjartmarz voru forfölluð. Þá var einnig mætt sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður), Gunnar Helgi Kristinsson og Kristján Andri Stefánsson. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt með lítilsháttar breytingu.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

Ekki höfðu borist nein ný erindi frá síðasta fundi.

Greint var frá því að ritari hefði haft samband við fulltrúa Sagnfræðingafélags Íslands til að tilkynna honum um jákvæðar undirtektir nefndarinnar við fyrirhugaða ráðstefnu um forsetaembættið. Myndi félagið á næstunni senda nefndinni drög að dagskrá til skoðunar.

3. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði

Formaður lagði til að á þessum fundi yrði haldið áfram umræðu um II. kafla stjórnarskrárinnar fyrir utan 26. gr. Gaf hann því næst Eiríki Tómassyni orðið sem kynnti endurskoðuð frumdrög að 3.-10. gr. stjórnarskrárinnar auk fyrstu draga að 11. – 14. gr.

Fram komu athugasemdir við að í þessum drögum frá sérfræðinganefndinni væru atriði sem ekki hefðu enn verið rædd í stjórnarskrárnefnd. Í því fælist óhæfileg stýring. Aðrir kváðust ekki sjá annmarka á því að hugmyndir væru settar fram með þessum hætti. Formaður undirstrikaði að ekki væri meiningin að textar þessi væru til samþykktar heldur eingöngu til að auðvelda umræðu. Fallast mætti á að ef til vill væri ekki tímabært að ræða einstök ákvæði áður en tekin hefði verið ítarlegri almenn umræða um hvernig menn sæju forsetaembættið og hlutverk ráðherra/ríkisstjórnar fyrir sér.

Var samþykkt að sérfræðinganefndin myndi fyrir næsta fund semja minnisblað með helstu spurningum sem taka þyrfti afstöðu til áður en farið væri að útfæra breytingartillögur við núgildandi II. kafla stjórnarskrárinnar. Nefndarmenn lýstu því næst viðhorfum sínum til þess hvað helst þyrfti að ræða.

4. Önnur mál

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 16.00. Var næsti fundur ákveðinn mánudaginn 23. janúar frá kl. 8.30-12.00.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum